09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

45. mál, fátækralög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta er ein af þeim tillögum, sem jeg hefi borið fram áður viðvíkjandi fátækralögunum. Eina bar jeg fram fyrir nokkrum dögum, sem því miður var feld. Nú hefi jeg stungið upp á, að þeir menn, sem þiggja verða af sveit sökum ómegðar, verði ekki sviftir rjettindum þessvegna. Og ef nokkuð má marka það, sem hv. þm. hafa sagt áður um þetta mál, ætti frv. þetta að hafa mikið fylgi.

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að hæstv. atvrh. (MG) átti sinn hlut í því, að orða frv. þetta, áður en það kom fyrir þingið 1924. Vænti jeg því stuðnings hans, og þá um leið stuðningsmanna hans, til þess að koma þessu sanngjarna máli gegnum þingið.