24.03.1926
Neðri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í C-deild Alþingistíðinda. (2728)

79. mál, ríkisbankar Íslands

Flm. (Benedikt Sveinsson):

Þar sem þetta mál, sem jeg ber hjer fram, er mjög skylt frv. því, sem hjer var á dagskrá næst á undan, get jeg sparað mjer þá fyrirhöfn að fylgja því úr hlaði með langri ræðu, því að höfuðatriðið, sem á milli hefir borið við það frv., sem hjer var fyr til umr., hefir þegar verið nokkuð ítarlega rætt. Það er ekki af því, að hjer sje verið að blanda óskyldum málum saman, heldur af því að það hlaut svo að verða; var alls ekki hægt að ræða fyrra málið án þess að rök, sem bæði málin snerta, væru rædd í einu.

Jeg ber þetta frv. fram, eins og jeg hefi áður getið um, af því að jeg gat ekki orðið samferða hv. nefndarmönnum mínum um útgáfu seðlanna, eins og henni er fyrir komið í frv. því, sem hv. meiri hl. nefndarinnar hefir borið fram, og jafnvel þótt hæstv. stjórn hafi komið fram með annað frv., sem er nokkuru nær því frv., sem jeg ber fram, þá eru þó breytingar hennar ekki nándar nærri nógu miklar, til þess að jeg geti gert mig ánægðan með frv. Á hinn bóginn var það ætlun mín, þegar jeg samdi þetta frv., að taka upp í það þau ákvæði úr stjfrv., sem ekki höfðu valdið ágreiningi, en verið allmikið rædd, og væru samræmanleg við þær breytingar, sem jeg gerði um seðlaútgáfurjettinn; getur verið, að jeg hafi farið fulllangt í því að taka upp þær greinar, og yfir höfuð í því að gera málið sem einfaldast, en slíkt eru aukaatriði, sem laga má í meðferð þingsins, og þá fyrst og fremst í meðferð þeirrar nefndar, sem vona má, að taki við þessu máli. Jeg tel óþarft að fara nú að telja fram þau sömu rök, sem jeg taldi fram í gær fyrir því, að það væri óhagkvæmt að fá Landsbankanum seðlaútgáfuna í hendur, og að betra væri að skapa sjerstaka stofnun, sem færi með seðlaútgáfurjettinn. Benti jeg í því sambandi á banka, sem hefði mikla sparisjóðsstarfsemi og væri rígbundinn við allskonar fyrirtæki og fjármálastarfsemi í landinu, sem gerði hann mjög háðan, og því vandstýrt fyrir þá stjórn, sem hefði það starf alt á hendi. Taldi jeg einnig tryggara að fara hjer að dæmum annara þjóða, sem reynslu hafa í þessum efnum og flestir játa, að beri að stefna að hjer á landi: að hafa sjerskilda stofnun, sem fari með seðlaútgáfurjettinn. Í annan stað taldi jeg það þó samrýmanlegt að láta stjórn seðlabanka hafa aðra starfsemi með höndum, til þess að spara kostnað fyrir þjóðina í framtíðinni, því að þó að vitanlegt sje, að meðferð seðlaútgáfurjettarins sje mjög vandasöm, þá eru ekki samfara henni svo mikil dagleg störf, að bankastjórnin gæti ekki haft aðra starfsemi jafnframt, og því áleit jeg, að sameina mætti stjórn þessa banka við stjórn ríkisveðbankans, sem samþyktur var fyrir nokkrum árum, en ekki hefir komist í framkvæmd enn. Það er kunnugt, að sú stofnun, sem nefnd er ríkisveðbanki Íslands, var vel undirbúin. Mál þetta var ágætlega búið undir og sætti mjög góðum undirtektum hjer á þinginu, en það hefir samt staðið við það sama og ekki komist í neina framkvæmd. Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði við umr. stjfrv., að hann legði aðaláhersluna á það að tryggja bændum landsins betri lánsskilyrði og að sjeð yrði fyrir því, að gera einhverjar breytingar á fyrirkomulagi bankastofnananna, er veitti þeim tryggingu fyrir því að fá nægilegt fje til þess að rækta landið. En það var einmitt hlutverk ríkisveðbankans. Nú skilst mjer, að þessi stofnun, sem samþ. var í þeirri von, að hún mundi verða bændunum að mestu gagni, komi svo best að notum, að hún taki sem allra fyrst til starfa, og að fyrir hana yrði sett einhver stjórn, sem aðallega gæti beitt sjer fyrir því, að hún gæti náð takmarki sínu. En því miður hefir ekkert af þessum góðu fyrirætlunum orðið nema sá litli vísir, sem spratt upp af störfum þingsins í fyrra, Ræktunarsjóðurinn, sem er gersamlega ónógur og ætti að ganga í samband við ríkisveðbankann. En það, hversu lítil rækt veðdeildarlánastarfsemi landsins hefir verið sýnd undanfarið, kemur alt af því, að engir sjerstakir menn hafa verið settir til að standa fyrir þessu máli. Því hefir eingöngu verið kastað í bankastjórnir, sem hafa haft nóg að gera áður, án þess að geta lagt sig í líma til þess að afla sjer góðs markaðs fyrir veðdeildarbrjefin. Það fæst tæplega dugleg stjórn á þeim málum, fyr en sjerstök stjórn er sett til þess að fara með þau, og má þá slá tvær flugur í sama högginu, sem jeg tel að öllu heppilegast, með því að láta ríkisveðbankann vera háðan sömu stjórn og seðlaútgáfan, heldur en að dengja öllu saman yfir á stjórn Landsbankans, sem hefir alt aðra starfsemi með höndum, sem er miklu síður samrækileg við stjórn seðlaútgáfunnar.

Það kom í raun og veru ekkert nýtt fram í síðustu ræðu, sem hnekti því, sem jeg sagði í gær, og gæti því það, er jeg mætti þá, verið nokkurskonar framsaga í þessu máli. En viðvíkjandi kostnaðinum við stofnun þessa banka, þá býst jeg ekki við, að hann verði meiri heldur en að fá stjórn Landsbankans seðlaútgáfuna í hendur, því að stjórnin gerir ráð fyrir að fá Landsbankanum 3 miljónir króna, þegar hann tekur við henni. Og það er ekki hægt að sjá annað en að seðlabanki, hvort sem hann yrði í sambandi við einn eða annan banka, mundi komast af með það sama. Þetta mundi ríkið í eitt skifti fyrir öll láta þessa stofnun hafa, og tekjur hennar yrðu í fyrstu af þessu fje. Nú hefir að vísu Íslandsbanki seðlaútgáfuskyldu, en hún minkar um eina miljón króna á ári, og að sama skapi vex þá þörfin fyrir aðra seðlaútgáfu, og ef gert er ráð fyrir mjög svo hóflegri seðlaútgáfu, segjum sjö miljónum króna á næstu árum, sem mun vera það allra minsta til jafnaðar yfir árið, þá mundi þó þessi stofnun á næsta ári hafa þrjár miljónir króna í seðlum, í viðbót við þær fjórar, sem Íslandsbanki hefir, og segjum enn fremur, að hún fengi 5 af hundraði fyrir þá seðla, sem hún lánaði hinum bankanum, þá yrði það 150,000 krónur, hún þyrfti því ekki að verða á hjarni stödd, eða valda ríkissjóði meiri kostnaði en verða mundi, ef Landsbankinn tæki við seðlaútgáfurjettinum. Að vísu þarf eitthvað aukið mannahald, þegar þessi stofnun tekur þannig við stjórn ríkisveðbankans, en það mannahald verður þó tiltölulega lítið fram yfir það, sem ríkisveðbankin þarf hvort sem er, því að jeg vona, að menn hafi ekki verið að samþykkja þessi lög að gamni sínu, til þess eins að veifa þeim framan í kjósendur, heldur til þess að verða þeim sem fyrst til gagns, eða til þess að geta sem fyrst unnið bæjum og sveitum gagn með þeim. Nú liggja mörg fleiri mál fyrir þessum fundi, og það var ekki tilgangur minn að spreyta mig á langri ræðu, svo að jeg skal aðeins óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og sömu nefndar og næsta mál á undan.