30.03.1926
Efri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2866)

87. mál, rannsókn á veg- og brúarstæðum

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er rjett til getið hjá hæstv. atvrh. (MG), að jeg má vel við una svör hans. Eftir þeim hætti, sem málið var flutt, gat jeg ekki búist við, að teknir væru sjerstakir menn til að rannsaka þetta; en mjer skilst, að undirtektir um till. sjeu góðar. Annars býst jeg við því, með þeirri vega- og brúagerð, sem áætluð er á næsta sumri, að vegamálastjóri þurfi að fá sjer sjerfróða aðstoð.

Jeg hefi ekki hugsað mjer, að þessi tillaga kæmi til að tefja fyrir brautinni norður á Akureyri, enda fólst það ekki í orðum hæstv. ráðh. (MG). Eina ráðið í þessum efnum er það, að leggja talsvert á sig á næstu árum, ef koma á vegamálunum í gott horf. Jeg get t. d. tekið það fram um Snæfellsnessýslu, þó jeg sje raunar ekki þm. þess kjördæmis, að það munar ekki nema hársbreidd, að hægt sje að komast á bifreið frá Borgarnesi til Stykkishólms. Munar ekki nema hársbreidd, segi jeg, því að fjallvegurinn, sem yfir þarf að fara, er þannig lagaður, að hann þarf mjög lítilla umbóta til að verða fær bifreiðum. Það helsta er, að brúa þarf tvær eða þrjár smáár. — Jeg held, að það sje gott fyrir Alþingi að hafa altaf sem glegst yfirlit yfir þessi mál og leggja áherslu á að byrja á því, sem verður tiltölulega kostnaðarlítið, en þó að miklu gagni. — Þannig ætti að byrja á akveginum til Stykkishólms, sem yrði allmikill og góður þáttur í vegakerfinu; en síðast ætti að taka Hellisheiði, sem verður einn dýrasti kaflinn, svo sem jeg gat um áður, en hefir tiltölulega litla augnabliksþýðingu. En ef menn hugsa til að tengja saman hjeruð landsins, er ekki nóg að hugsa um samband milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, heldur þarf einnig veg yfir Norðurland.