14.05.1926
Sameinað þing: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3081)

121. mál, þúsund ára hátíð Alþingis

Forsætisráðherra (JM):

Það er nú þegar langt síðan byrjað var á undirbúningi undir þessa hátíð. Fyrir nokkrum árum var skipuð nefnd til að undirbúa og rita sögu Alþingis, og af henni hefir þegar verið ritað nokkuð. Í fyrra skipaði stjórnin nefnd til að gera till. um verklegar framkvæmdir á staðnum og friðun hans, svo að þegar er nokkur undirbúningur byrjaður.

Að Alþingi hafi ekki þótt liggja á, má ráða af því, að hjer kom fram á þinginu í vetur stjórnarfrv., bygt á till. Þingvallanefndarinnar, og þessu frv. hefir alls ekki verið sint, og held jeg þó, að það atriðið, að undirbúa staðinn, hafi verið það, sem mest reið á, fyrir utan að skrifa söguna. Hvað snertir það, að Alþingi taki málið í sínar hendur, þá gerir það það auðvitað á sínum tíma. Jeg hafði hugsað mjer að hafa þá menn áfram í nefndinni, sem skipaðir voru í fyrra. Þeir eru allir embættismenn ríkisins og kunnáttumenn, hver í sinni grein. Þá hafði jeg gert ráð fyrir því, að bætt yrði við 2–4 mönnum í nefndina, sem skyldu ásamt hinum gera till. um hátíðahaldið sjálft. Þetta held jeg að hefði verið allheppilegt að gera. Það eru nú 2 nefndir fyrir, en með þessari till. er meiningin sú, að slá striki yfir þær báðar og kjósa nýja nefnd. Mjer finst ekkert unnið við það, að þingið kjósi nú nýja nefnd, í stað þess að stjórnin skipi menn til viðbótar. Hún yrði jafnóbundin við þingið, nema það sje meiningin að kjósa þm. í þessa nefnd. En það er ekki víst, að þeir verði allir hinir sömu eftir að nýjar kosningar hafa farið fram.