12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (3116)

119. mál, launakjör bæjarfógeta og lögreglustjóra í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg skil ekki, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) þyrfti að komast í geðshræringu út af þessu máli. En mjer fanst það snerta hann óþægilega, er jeg gaf í skyn, að bæta þyrfti kjör hans frá því sem nú er. Hann talaði um með talsv. þjósti, að jeg væri ekki kunnugur þessu, enda verð jeg að játa, að svo er. (JóhJóh: Jeg sagði ekkert um það). Hv. þm. var að tala um hundavað. — Þeir, sem að skattamálunum standa, halda upplýsingum leyndum fyrir almenningi. Tekjuskrá er ekki prentuð.

Það, sem vakti eftirtekt, var það, að í öðru tilfellinu leit svo út, sem hv. þm. hefði orðið fyrir rangindum og verið látinn gjalda útsvar óhæfilega hátt. Hv. þm. sýndi ókunnugleika sinn á sínum eigin útgjöldum, er hann þóttist ekki muna um tekjuskattinn, hversu hár hann var; en hann var um 150 kr., en útsvar yfir 2000 kr. Kom þá í ljós, að hv. þm. hefir gefið upp til skatts svo, að mikið af tekjum hans er dregið frá skattálagningu. Þetta hefir vakið eftirtekt meðal embættismanna hjer í Rvík, þessi óvenjul. útskýring á lögunum, að draga frá viðgerðir á húsi, sem eytt er í mörgum þúsundum. Og þeir hafa kvartað yfir því að verða ekki fyrir samskonar náð hjá skattstjóra. Jeg talaði við einn hátt settan embættismann, sem sagði: Jeg vildi, að jeg yrði eins heppinn og bæjarfógetinn; þá skyldi jeg byggja mjer hús fyrir t.d. 45 þús. kr. og láta svo draga þá upphæð frá. Bæjarfóg. hefir bundið ca. 15 þús. kr. af tekjum sínum í viðgerð á húsi og fær það talið frá. Það er næsta óvenjuleg skýring á lögunum í þessu tilfelli, enda orðið hneykslunarhella stjettarbræðra hv. þm. Hann sem dómari ætti að láta sjer umhugað um, að ekki sje álitið, að hann vilji nota sjer hæpnar lögskýringar, sem brjóta í bág við það, sem alment er talið boðlegt.

Jeg fullyrði, að það sje óvenjulegt, að menn geti dregið frá viðgerð, hátt upp í húsverð. Viðgerð er þó eign, sem heldur áfram að vera til og glatast ekki, og þetta er því hvað form snertir móti anda laganna. En útskýringunni er rutt burt, ef hjer er um of lág laun að ræða. En það er ekki vafi á, að embættið er hærra en önnur hliðstæð og veitir miklu hærri tekjur en embætti hæstarjettardómara. Þingfararkaup og laun fyrir störf í milliþinganefnd geta ekki hleypt upp tekjunum neitt að ráði.

Viðvíkjandi tekjum af húsi, þá býst jeg ekki við, að þær sjeu miklar, eða ekki hafði jeg hugsað mjer það eftir atvikum. Þegar um það var rætt á þingi fyrir nokkrum árum að flytja allar opinberar skrifstofur í hús, sem ríkissjóður átti, neitaði hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) að hafa sínar skrifstofur þar á 3. hæð, vegna þess, að hann væri kominn á þann aldur, að hann ætti erfitt með að ganga upp stiga. Jeg þykist því vita, að hann sakir aldurs síns og embættis leigi ekki landinu svo, að hann hafi ágóða nema lítilfjörlegan. Það er á móti þeim kröfum, sem verður að gera til slíkra manna. Sjerstaklega þegar hann nú hefir fengið þennan heppilega frádrátt, á 15. þús., sem hann lagði í húsið, get jeg ekki hugsað mjer annað en að það hafi verið sjerstök hvöt til þess að leigja landssjóði ódýrt, þar sem hann gerði svo vel til hans um tekjuskattinn.

Óhögguð stendur sú skýring, að tekjur af embættinu sjeu hærri en af öðrum hliðstæðum, og þó eru til munahærri tekjur af lögreglustjóraembættinu.

Jeg vildi nú láta athuga, hvort engin eru ráð til sparnaðar með fyrirkomulagsbreytingu.

Jeg vil spyrja hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), hvernig hann fer að, þar sem landið leggur honum til mikla starfskrafta, hvort hann notar sömu starfskrafta við uppboð, hvernig hann fer þá að því að endurborga þá vinnu, er landið leggur til við þau. Getur verið, að þetta sje ekki svo, að landssjóður geri ekkert að innheimtu, og kostnaður við skrifstofuhald og lausavinnu sje reiknað hvort í sínu lagi. En ef svo er ekki, spyr jeg, hvernig hann fer að gera báðum rjett.

Það er ekki hægt að taka illa upp, þótt athugað sje um þessi geysidýru embætti, þar sem skrifstofukostnaður er greiddur, hvort ekki mætti gera formsbreytingar til sparnaðar, án þess að ganga á hlut starfsmanna.

Jeg vildi miða laun þessara embættismanna við hæstu laun lögfræðinga í þjónustu landsins, hæstarjettardómara, og reyni því að sigla með fullri sanngirni í þeirra garð. En í raun og veru eru hjer nefndir til samanburðar embættismenn, sem ættu að vera launahærri en bæjarfógeti og lögreglustjóri.

Þá kem jeg að ræðu hæstv. forsrh. (JM). Hann tjáði sig ekki hafa átt þátt í að búa til þessi tvö embætti. Kveðst hann ekki hafa skift sjer af nje verið til kvaddur. En mjer þykir þessi yfirlýsing ekki bera vott um, að alt hafi verið sem skyldi. Hæstv. ráðh. (JM) var þá þm. og forsrh., og hjer var um að ræða emb., sem hann hafði sjálfur gegnt áður, og hann mátti því best vita, hver tilhögun á því væri best. Hæstv. forsrh. hafði 1917 mikinn flokk við að styðjast, sem auk þess var í náinni samvinnu við tvo aðra flokka, sem studdu stjórnina. Hann var því mjög vel settur til þess að hafa áhrif á gang þingmála.

Jeg get ekki skilið, hvernig honum gat dottið í hug að hugsa ekki um sitt gamla embætti, og því síður að flokknum hafi orðið sú skyssa á að spyrja hann ekki ráða, eða fara þvert um vilja hans. Ef svo er, þá hefir hæstv. ráðh. ekki vilja ráða fyrir málinu. En fyrir hæstv. ráðh. var því meiri ástæða til að fylgjast með gangi málsins, sem hann var í launanefndinni og því metnaðarmál að halda kerfi því, er hún setti upp. (Forsrh. JM: Það var gert). Nei, það var ekki gert.

Þegar hæstv. forsrh. sat í bæjarfógetaembættinu, fylgdu því að vísu mikil laun og ýmsar aukatekjur, en jafnframt sú kvöð, að reka skrifstofu á kostnað bæjarfógeta. En breytingin, sem gerð er, þegar hann kemur úr embættinu og til valda í þinginu, er sú, að skrifstofukostnaður er settur á landið, en aukatekjur látnar halda sjer. Var sök sjer um aukatekjurnar meðan skrifstofukostnaðurinn hvíldi á embættismanni. En nú eru í stað þess stofnuð 2 embætti með 60–70 þús. kr. tekjum á ári.

Jeg vona, að hæstv. forsrh. sannfærist um, að leitt var, að þetta skyldi fara fram hjá honum. Mjer finst jeg hljóta að vinna honum þægt verk með því að gefa honum tækifæri til þess að taka upp málið að nýju og athuga, hvernig úr verði bætt, til þess að svipað rjettlæti verði og þegar hann gegndi því sjálfur.

Hæstv. ráðh. (JM) segir, að óhugsandi sje að breyta þessu, vegna laga frá 1917. Jeg vil þá bara spyrja, hvort hann muni ekki til, að slíkum lögum hafi verið breytt. Hæstv. forsrh. (JM) hlýtur að vita, að svo hefir verið gert áður og það margoft. Amtmannaembættin voru lögð niður, þegar stjórnin fluttist til landsins, og hinsvegar landritaraembættið, þegar ráðherrum var fjölgað. Þá var þessum störfum fyrir komið á annan hátt og mennirnir settir á biðlaun, fyrst full laun, en síðar lægri laun, samkvæmt lögum. Jeg geri nú ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. (JM) verði fús til þess, þegar hann sjer, hve slysalega þetta hefir farið fram hjá honum 1917, að hugsa til formsbreytingar á þessum embættum í sambandi við dómaskipunina. Það er bæði, að að því verður hagnaður fyrir ríkið að finna hjer nýtt form, og auk þess mikil ástæða til þess, þegar þess er gætt, hve óhæfileg þessi launakjör eru. Jeg held, að jeg hafi nú getað sannfært hæstv. forsrh. um það, að þetta er mjög auðvelt og nóg fordæmi til þess að breyta þessu, svo að þessi agnúi yrði sniðinn af.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að launin yrðu ekki tekin af þessum embættismönnum. En þau væru alls ekki heldur tekin, þó embættunum yrði breytt með formsbreytingu. Ef t. d. settir yrðu sex dómarar yfir alt landið, þá breyttist fógetaembættið í Reykjavík mjög mikið, og með þeirri breytingu fylgdi sá sparnaður, sem sjálfsagður er. Jeg vil biðja hæstv. forsrh. að svara því, ef tekjurnar eru 25–30 þús. kr. af öðru embættinu og 40 þús. kr. af hinu, hvort miða eigi biðlaunin líka við óvissu tekjurnar, eða hvort hallast yrði að því, sem flestum þætti sennilegra, að miða þau við hin lögmæltu laun eingöngu.

Hæstv. forsrh. sagði, að þessir embættismenn hefðu aukatekjur, eins og aðrir lögreglustjórar og bæjarfógetar á þessu landi. Jeg hygg nú, að hv. 1. landsk. (SE) mundi hafa eitthvað um þetta að segja, því hann hefir verið að berjast fyrir því á hverju þingi, að þessir embættismenn fengju aukið skrifstofufje, og það hefir komið í ljós við þær umr., að a. m. k. bæjarfógetarnir á Ísafirði og Akureyri spinna ekki silki með þeim launakjörum, sem þeir hafa. Það mun því vera misskilningur hjá hæstv. forsrh., að þar sje nokkuð svipuðu saman að jafna. Því annars er sú krafa ranglát, sem höfð hefir verið frammi hjer í hv. deild, um að hækka skrifstofufje þessara embættismanna.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að ekki væri hægt að bera launakjör bæjarfógeta og lögreglustjóra saman við launakjör prófessora við háskólann nje laun húsameistara ríkisins. Hinsvegar gerði hann enga tilraun til þess að hrekja það, sem jeg sagði, að þessir lærdómsmenn, sem tekið hafa miklu þyngra lærdómspróf heldur en krafist er af hinum launadýru embættismönnum, en af þeim er ekki heimtað nema einfalt embættispróf. Það er því að sjálfsögðu óviðurkvæmilegt, að prófessoramir skuli ekki hafa nema 7–8 þús. kr., en hinir 30–40 þús. kr.

Viðvíkjandi uppboðum vildi jeg vekja athygli á þeim, þar sem það er ætlun manna, að þau geri ekki óverulegan hluta af tekjum bæjarfógeta. Nú vil jeg spyrja, hvernig þessu sje fyrir komið, hvort uppboðin sjeu látin bera sig sjálf, eða það er landið, sem lánar menn til þess að halda þau og innheimta.

Ennfremur verð jeg að halda því fram, að það sje ekki ósanngjarnt, þegar dómari situr á þingi, að þá kosti hann þann mann af sínum launum, sem látinn er gegna starfi hans á meðan, líkt og læknar gera. Þetta grípur inn í annað sanngirnismál. Jeg geri að sjálfsögðu ráð fyrir því, að þeir dómarar, sem eru mikið í burtu úr embætti sínu, en halda launum, borgi sjálfir þeim manni, sem stjórnin setur í embættið á meðan. Annað væri ranglæti.

Þá kem jeg að því, sem að vísu er útúrdúr frá þessu máli og meir til skemtunar hæstv. forsrh. (JM), en það er þessi kenning hans, að með launalögunum 1919 hafi verið fullnægt áliti launamálanefndarinnar.

Meðal annars er hjer sá stóri munur, sem sje dýrtíðaruppbótin. Annars játaði hæstv. forsrh., að laun lækna hefðu orðið nokkru hærri en til stóð, sem stafaði af því, að læknarnir höfðu sjerstakar hótanir í frammi, til þess að kúga stjórnina. Þeir ljetu sem sje í veðri vaka, að þeir mundu annars kveðja kóng og prest. En svo er hitt ótalið, að launamálanefndin gerði ráð fyrir gagngerðri breytingu á embættaskipuninni, sem var skifting á umboðs- og dómsvaldi. Landinu var skift í umdæmi, og er til kort, sem sýnir þetta alt. Það var þessi stóra nýjung launamálanefndar, sem alveg var gengið fram hjá, þegar rætt var um launamálið 1919.

Það er eftirtektarvert, hvað launin 1919 eru ákveðin hlutfallslega mishá fyrir ýmsa flokka embættismanna, eftir því, hvað ásókn þeirra var mikil. T. d. fá yfirsetukonur mjög litla launabót. Aftur á móti læknar, sem höfðu fullkomnast skipulag, þeir komust víst fulllangt með sínar kröfur; a. m. k. verða laun þeirra alt önnur en ætlað var 1914, sem kom af því, að þeir áttu duglegan forvígismann á þingi. Jeg held því, að það sje elliórar hæstv. ráðh., að tillögur launamálanefndar hafi fengið framgang 1919. Hitt væri aftur ekki óhugsandi, að þingið vildi styðja að því að taka upp eitthvað af till. hennar, fækka t. d. dómurum og fá ódýrari menn til að gegna umboðsstörfunum. Mjer þætti vænt um, ef jeg hefði gefið hæstv. ráðh. tilefni til þess að taka upp til athugunar að nýju þessar till. frá 1914 um nýtt skipulag.

Jeg hefi nú gefið hæstv. forsrh. (JM) og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) tækifæri til þess að skýra þetta mál enn betur fyrir þjóðinni. Jeg geri ráð fyrir því, að þeim sje það ljúft. Þetta er alþjóðarmál, og frá fjármálahliðinni fullkomlega þess vert, að því sje gaumur gefinn.