09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

11. mál, raforkuvirki

Jón Baldvinsson:

Það horfir dálítið öðruvísi við um þetta mál heldur en hið næsta hjer á undan, að jeg hefi hjer reynt að færa frv. til hins upphaflega búnings síns, er það var í þá er það kom frá hæstv. stjórn, og þykist jeg því mega telja mjer vísan stuðning hæstv. atvrh. (MG).

Hv. Ed. gerði þá breytingu á 4. gr. frv., að þegar 4/5 hlutar leyfistímans sjeu liðnir, megi taka raforkuvirki eignarnámi. Þetta þykir mjer óþarflega langur tími og muni geta orðið sveitarfjelögum og bæja til stórbaga. Því vil jeg breyta þessu aftur, en sem varatill. ber jeg fram, að í stað 4/5 komi helmingur leyfistímans.

Þá hefir og hv. Ed. gert breytingu á 6. gr., sem ekki er til bóta, en jeg kem þó ekki fram með neina brtt. þar við.