09.03.1926
Neðri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

11. mál, raforkuvirki

Jón Baldvinsson:

Jeg bið menn að athuga það, að sveitar- eða bæjarfjelag ræðst því aðeins í það að neyta þessa rjettar, að það sje því fyrir bestu, og þá um leið ríkinu fyrir bestu. Og mjer finst, að löggjöfin eigi fremur að hugsa um rjett fjöldans heldur en einstakra manna. Það getur staðið þannig á, að sveitar- eða bæjarfjelag geti fengið mörgum sinnum ódýrara rafmagn frá t. d. stöð, er rekin væri með vatnsafli, þegar á öndverðum einkaleyfistímanum. Segjum nú, að hann sje 10 ár. — hvaða vit væri þá í því að láta sveitarfjelagið verða að bíða í 7–8 ár áður en það getur neytt eignarnáms? Og ekkert þarf að óttast, þó að brtt. mín sje samþykt, því eins og andmælendur tóku fram, kemur fult endurgjald fyrir þær raforkustöðvar, sem teknar eru eignarnámi.