28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3195)

108. mál, svifting ofdrykkjumanna lögræði og fjárræði

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er ágætt, að hæstv. stjórn hefir látið í ljós álit sitt og gefið nokkrar skýringar. Jeg tek ekki nærri mjer, þó hæstv. forsrh. þætti jeg ekki fróður um lögræðislöggjöf. Jeg tók það einmitt fram, að jeg teldi sjálfsagt, að stjórnin undirbyggi breytingar, ef þær væru gerðar. Mjer virðist hæstv. ráðh. ekki hafa veitt till. nægilega athygli. Það vantar einmitt í lögin glögg ákvæði um drykkjumenn. Hugsast getur, að maður sje ekki frámunalega eyðslusamur, þó hann sje drykkfeldur, þó að vísu fari það oftast saman. Jeg held, að það hafi ekki verið tóm tilviljun, að orðið „drykkjumaður“ var felt úr lögunum. Margur er breyskur í landinu, og drykkjumönnum er vitanlega mjög illa við þessa breytingu. Annars legg jeg ekki mikla áherslu á að fá till. samþykta, ef hæstv. forsrh. vill gefa vilyrði fyrir því að leggja fyrir næsta þing gleggri ákvæði viðvíkjandi drykkjumönnum. Það liggur í augum uppi, að betra er í þessu efni að hafa glöggan lagastaf heldur en veika lögskýringu.