28.04.1926
Efri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

108. mál, svifting ofdrykkjumanna lögræði og fjárræði

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 5. gr. laga nr. 69, frá 14. nóv. 1917, sem hljóðar svo: „Nú er sjálfráða maður eða fjárráða ófær til að ráða sjer eða fje sínu sjálfur, vegna vanheilsu eða vanþroska eða af öðrum ástæðum. . . .“.

Þetta ákvæði: „eða af öðrum ástæðum“ er svo vítt, að það blandast engum hugur um, að of mikill drykkjuskapur falli þar undir.

Í þeim ekki mjög mörgu tilfellum, sem jeg hefi haft með þetta að gera, hefir það ekki verið nema af tveimur orsökum, vanheilsu og drykkjuskap. Þess vegna álít jeg ekki þörf á þessari till., að það er þegar til í löggjöfinni, sem ætlast er til, að gert verði að lögum. Og jeg álít, að ástæðan til þess, að þessi till. er borin fram, sje sú, að viðkomandi læknir hefir ekki athugað löggjöf landsins um þetta efni nógu rækilega. Hinsvegar kann jeg ekki við, að þáltill. með þessu innihaldi sje feld hjer í hv. deild. En það er engin þörf á að samþ. hana, og þá tel jeg heppilegustu úrlausn málsins, að deildin vísi málinu til hæstv. stjórnar. Leyfi jeg mjer að gera það að tillögu minni.