05.05.1926
Neðri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3237)

95. mál, lánveitingar úr Fiskveiðasjóði Íslands

Ólafur Thors:

Mjer þykir skylt sem form. sjútvn. að svara hv. flm. þessa máls nokkrum orðum. Gangur málsins er sá, að hæstv. atvrh. (MG) sendi sjútvn. Nd. til umsagnar 3 lánbeiðnir úr Fiskiveiðasjóði til hafnarbóta á þrem stöðum og óskaði eftir því, að hún athugaði þær svo fljótt, sem auðið væri, en sendi síðan stjórninni álit sitt. Sjútvn. Nd. áleit rjett að senda málið til samvinnunefndar sjútvn. beggja deilda, og þar voru þessar lánbeiðnir samþ. með öllum greiddum atkv. gegn 1.

Það er rjett, að samkvæmt reglugerð sjóðsins virðist það ekki vera tilætlunin, að slík lán sjeu veitt sem þessi. En hinsvegar er aðstaðan breytt frá því er reglugerðin var samin. Sjútvn. óskaði eftir að fá upplýst, hve mikið hefði verið lánað úr sjóðnum á undanförnum árum í samræmi við tilgang hans. Kom þá í ljós, að þótt umbeðin lán til hafnarbóta yrðu veitt, þá mundu afborganirnar á næstu árum nema verulega hærri upphæð en þeirri, sem vant er að lána úr sjóðnum til bátabygginga og annara framkvæmda, sem reglugerð sjóðsins gerir ráð fyrir. Sjútvn. sýndist því, samkv. reynslu undanfarinna ára, áhættulaust að leggja til, að lánin væru veitt. Og nefndin er sammála um, að mjög sje það til hagsbóta fyrir útgerðina að bæta lendingar og hafnir hjer á landi. Geri jeg ráð fyrir, að hv. þdm. þyki það eðlilegt, að nefndin leggi til, að þegar ekki er spurt eftir lánveitingum í samræmi við höfuðtilgang sjóðsins, þá sjeu úr sjóðnum veitt lán til framkvæmda, sem heita mega hliðstæðar höfuðtilgangi hans, en þannig stendur einmitt á um þessar 3 lánbeiðnir, þar eð fjeð er ætlað til hafnarbóta.

Að því er snertir lán til hafnarbóta hjer í Rvík, bið jeg hv. þdm. að hafa það hugfast, að í þær er ekki ráðist til hagsbóta fyrir Reykvíkinga eina. Reykjavíkurhöfn er bækistöð fiskiskipa og annara skipa hvaðanæva af landinu, og mætti hv. flm. (JAJ) muna alla vestfirsku bátana, sem gerðir eru út hjeðan alla vetrarvertíðina.

Um lánið til hafnarbóta á Akureyri er það að segja, að komist þær hafnarbætur í framkvæmd, verður það mjög til þess að tryggja minni báta að vetrarlagi.

3. lánið, til Akraneshrepps, er líka í þágu minni bátanna.

Þetta voru rök sjútvn., þegar hún taldi ekki aðeins fært, heldur skylt, að mæla með þessum lánum. Vona jeg, að hv. flm. (JAJ) sjái þetta. Hinsvegar tel jeg ekkert undarlegt, þótt slík fyrirspurn sem þessi kæmi fram, enda voru margir í sjútvn. á þeirri skoðun upphaflega, að þessum lánbeiðnum bæri að synja. En að athuguðu máli áleit nefndin rjett að mæla með þeim.