14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (3300)

115. mál, sjúkratryggingar

Flm. (Jón Baldvinsson):

Till. á þskj. 491 hefir áður verið hjer til fyrri umræðu. Var lítið um hana rætt þá. Ef vel á að vera, þarf till. að afgreiðast nú í snatri til Ed., svo hún geti gengið þar í gegn. Hinsvegar gæti hæstv. ráðh., sem hlut á að máli, bjargað þessu við, með því að lýsa því yfir, að hann muni fara þá leið, sem till. segir. En ef ekki, þá verður till. að ganga sinn gang gegnum þingið.

Till. fer fram á, að skipuð sje nefnd til að setja lög um sjúkratryggingar. Skal Búnaðarfjelag Íslands og Alþýðusamband Íslands skipa sinn manninn hvort og atvinnumálaráðuneytið þann þriðja. Ef þessir 3 aðiljar verða sammála um að afgreiða málið á ákveðnum grundvelli, eru líkur til, að það komist í framkvæmd.

Brýna nauðsyn ber til að koma á sjúkratryggingum, og neitar því enginn, að þörf sje að leysa það vandamál sem fyrst. Fyrir sveitarsjóðina er það mikill ljettir, að jeg ekki tali um hagræði fyrir þá, er fyrir veikindum verða. Jeg legg áherslu á þetta, að hver maður, sem er í sjúkratrygging, hafi sinn fulla rjett, og ekki sje lagt undir úrskurð fátækrastjórnar, hvenær hann skuli fá styrk og hvenær ekki. Það verður jafnan handahófsúthlutun.

Þetta á hin væntanlega nefnd að taka til athugunar. Það er ekki ætlast til, að hún verði nein venjuleg milliþinganefnd. Hún á aðeins að fá 600 kr. fyrir samning þessa frumvarps. En það er svo lítill kostnaður og skiftir svo litlu máli fyrir ríkissjóð, að ekki ættu menn að fælast frá till. hans vegna. Milliþinganefndir, eins og t. d. bankanefndin, hafa oft kostað stórfje og jafnan undir hælinn lagt, hversu mikil útgjöld verða við þær. En slíku er ekki til að dreifa hjer.