14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

115. mál, sjúkratryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skil, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vill vera góða barnið í þetta sinn. En það er orðið of seint til þess, að till. komist gegnum Ed.

Jeg get endurtekið það, sem jeg sagði áðan. Jeg hafði hugsað mjer að gera eitthvað fyrir næsta þing og koma með till. þá. Jeg hafði þó ekki hugsað mjer þessa leið, að velja endilega eftir stjettum þá menn, sem ættu að undirbúa þessa löggjöf. Jeg lít svo á, að þegar um þessar tryggingar er að ræða, og yfirleitt öll almenn mál, þá eigi ekki einungis að hafa fyrir augum hagsmuni einnar stjettar, heldur líta á hagsmuni allra stjetta.