11.04.1927
Neðri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

21. mál, fjárlög 1928

Frsm. samgmn. (Klemens Jónsson):

Hæstv. atvrh. (MG) mintist á það í fyrradag, að ekki væri rjett að tilfæra í nál. upphæð hvers styrks um sig til flóabáta. Hann bar því við, og jeg er honum þar alveg samdóma, að erfitt væri fyrir stjórnina að semja við flóabátaeigendur, er þeir vita um upphæðina, svo að þar verður engu þokað niður. Jeg er honum sammála um það, að nægilegt mundi vera að bóka einstakar upphæðir aðeins í gerðabók samgmn. og tilfæra svo heildarupphæðina alla í einu lagi. En um það tjáir ekki að tala nú, þótt sjálfsagt sje að taka það til athugunar síðar.

Samt var það ekki til þess að gera þessa athugasemd, að jeg stóð upp, heldur var það háttv. þm. S.Þ. (IngB), sem knúði mig til þess. Jeg get vel skilið, að hann sje ekki ánægður. En jeg hjelt, að jeg og hæstv. atvrh. hefðum gert ljósa grein fyrir því, hvernig á því stendur, að styrkurinn er settur svo. Nefndin stóð í þeirri meiningu, að allur styrkurinn væri ekki hærri en 8 þús. kr. Háttv. þm. veit, að jeg fer þar með rjett mál, enda lágu alls engar upplýsingar fyrir nefndinni um bátinn eða styrk til hans.

Háttv. þm. vildi halda því fram, að nefndin hefði ekki aflað sjer upplýsinga. Hún hafði aðeins í tvö horn að venda, til stjórnarinnar eða hlutaðeigandi alþm., úr því ekki lá fyrir neitt erindi til nefndarinnar. Af öllum flóabátunum var þessi sá eini, sem ekki lágu fyrir nein plögg eða upplýsingar um. Jeg gat mjer þess til, að það kæmi til af því, að þetta er í fyrsta skifti, sem styrkurinn er svo hár, og því væri skýrsla enn ekki komin.

Nefndin fór samt til hæstv. ráðh. (MG), og frá honum hefir hún allar upplýsingar. Það hefði líka mátt leita til hv. þm. S.-Þ. (IngB) og hv. þm. Eyf. (EÁ og BSt), það játa jeg. Og jeg sje eftir því, að það skuli ekki hafa verið gert. En líka hefðu þeir getað leitað á fund nefndarinnar og talað við hana um það, er þeir hefðu sjerstaklega viljað upplýsa. Það hafa ýmsir aðrir hv. þm. gert, svo sem t. d. háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), er sendi nefndinni fyrst erindi og kom síðan sjálfur til tals við hana.

Þannig stendur þá á þessum misgáningi, sem orðinn er í þessum efnum. Hann. er mjög leiðinlegur, en skiftir þó í raun og veru engu máli, því að hæstv. ráðh. (MG) hefir lýst því yfir, að sami styrkur verði greiddur úr póstsjóði eins og að undanförnu, svo að skaði bátsins verður enginn, enda var það ekki ætlun nefndarinnar að skerða hlut hans á nokkurn hátt.

Hv. þm. S.-Þ. mintist á, að samgöngurnar austan Eyjafjarðar væru ekki góðar. Það er alveg satt. Voru þær mun betri áður, er „Hólar“ komu við í Flatey í hverri ferð. Hinsvegar er jeg honum ekki sammála, að svo mikil samgönguþörf sje í Suður-Þingeyjarsýslu við sjálfan Eyjafjörð. Á Svalbarðseyri t. d. eru svo góð samgönguskilyrði sem frekast er unt, og betri líklega en víðast hvar annarsstaðar á landinu, nema ef vera skyldi á ytri hluta Ísafjarðardjúps. Jeg er sannfærður um, að „Esja“ fengist til að koma við á Svalbarðseyri og í Grenivík, bara ef nægur flutningur fengist, eða yfirleitt væri um nokkurn flutning að ræða. Jeg tók fram eftir fengnum upplýsingum, að styrkurinn væri of lágur, en engin brtt. hefir komið frá hv. þm. (IngB), og þótt nefndin vildi leggja til að hækka hann, þá hefir hún ekki haldið neinn fund nú undanfarið. Því að eins og kunnugt er, hefir í nokkra daga ekki verið hægt að halda nefndarfundi. Þetta hefir samt enga þýðingu, því að málið á enn eftir að fara til hv. Ed., og þar situr maður, sem getur tekið að sjer að leiðrjetta þennan misgáning.

Háttv. þm. S.-Þ. taldi þá styrkupphæð, er veitt var síðastliðið ár, þá minstu, er hægt væri að komast af með. Útgerðarmenn bátsins halda því vitanlega fram, sem eðlilegt er. En eftir kunnugleika mínum þar nyrðra held jeg mjer sje óhætt að fullyrða, að sómasamlega sje borgað og rúmlega það. En hitt, hvort hægt sje að komast að betri kjörum, það veit jeg ekki. Jeg er fullviss um það, að sá maður, er nú nýtur þessa styrks til að halda uppi flóabátsferðum á þessum slóðum, er vel haldinn af honum.