10.05.1927
Neðri deild: 71. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

21. mál, fjárlög 1928

Klemens Jónsson:

Jeg verð fyrst að fara nokkrum orðum um ummæli, er fjellu frá hv. frsm. meiri hl. fjvn. (TrÞ) og hv. frsm. minni hl. fjvn. (JS), eins og þeir titla sig, þótt jeg hafi ekki sjeð neitt nál. frá þeim. Þessi ummæli voru viðvíkjandi því misrjetti, sem hv. frsm. meiri hl. þótti vera gert á Hólaskóla og Hvanneyrarskóla. Honum var þá svarað af háttv. frsm. minni hl. á þá leið, að ólagið á skólabúinu á Hólum hafi byrjað 1922 –’23, og hafi stafað af því, að Pjetur Jónsson, sem þá var ráðherra, hafi lofað styrk til að auka búið, en það loforð hafi ekki verið efnt. Af því að jeg varð ráðherra eftir Pjetur Jónsson 1922, þá vil jeg gera við þetta nokkrar athugasemdir, þótt þess ætti reyndar ekki að þurfa, því að jeg hefi svarað hv. 2. þm. Skagf. (JS) um þetta á þinginu 1923, er hann fór þá í eldhúsið, er fjárlagafrv. var til umræðu. Hann spurði mig þá, hvað hefði valdið því, að skólastjórinn sagði búinu lausu, og svaraði jeg því. Jeg hefi nú lesið umræðurnar frá 1923 í gegn, og jeg get ekki sjeð það, að þessi hv. þm. hafi þá borið fyrir sig loforð um styrk frá Pjetri Jónssyni, en það gerði hann hiklaust í dag. Jeg skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp, hverju jeg svaraði hv. þm. þá. Jeg segi svo:

„Skólastjórinn hafði mælst til þess, að keypt væri af honum kvikfje og annar bústofn, sem hann átti í búinu; en stjórnin neitaði því. Til þess var engin fjárheimild, og jeg sá ekkert frá hendi fyrv. atvinnumálaráðherra, að lofað hefði verið í þá átt“.

Þarna neita jeg því, að nokkurt loforð um þetta hafi legið fyrir frá fyrirrennara mínum í embættinu, og hefi jeg þá auðvitað rannsakað það. Jeg get jafnframt lýst yfir því, að jeg hefði talið það skyldu mína að uppfylla slíkt loforð, ef það hefði legið fyrir. Þá vildi hv. þm. kenna mjer um ólagið, með því að jeg hefði ekki leitað samkomulags við skólastjórann áður en skólabúinu var ráðstafað. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp, hverju jeg svaraði þessu 1923:

„Áður en nokkuð var afráðið um jörðina sendi jeg honum (þ. e. skólastjóranum) símskeyti með fyrirspurn um, hvort hann hjeldi enn fast við uppsögnina, en fjekk ekkert svar upp á það“. Hann virti stjórnina með öðrum orðum ekki svars, er hún sendi honum fyrirspurn, og þá var samið við ungan og efnilegan mann vestan úr Reykhólasveit. Jeg verð því að endurtaka það, að það er algerlega tilhœfulaust, að skólastjóranum hafi verið lofaður nokkur styrkur. Þetta var hrakið fyrir 4 árum, og jeg bjóst ekki við, að það þyrfti að hrekja það enn á ný. Hafi verið handvömm á rekstri skólabúsins á síðustu árum, þá er það ekki mjer að kenna. Handvömmin hlýtur að lenda á skólastjóranum sjálfum fyrir að segja skólabúinu lausu í bráðræði. Annars eru þetta smámunir, sem koma ekki þessum umræðum við. Hjer er verið að ræða um það, hvort þessir tveir skólar, Hólaskóli og Hvanneyrarskóli, eigi ekki að njóta fulls jafnrjettis. Jeg er ekki í vafa um, að flestir háttv. þm. muni vera sammála um það, að þeir eigi að njóta jafnrjettis, svo að þeir fái báðir að njóta sín og verða þjóðinni að sem mestu og bestu gagni.

Jeg á hjer tvær brtt., sem jeg þarf að gera grein fyrir. Önnur brtt. er frá samgmn. Eins og hv. þm. muna, var lagt til af samgmn. Nd„ að styrkurinn til flóabáta væri hækkaður úr 100 þús. kr. í fjárlagafrv. stjórnarinnar upp í 109 þús. kr. Þetta átti að vera uppbót fyrir Djúpbátinn á Ísafirði, bát Austur-Skaftfellinga og Breiðafjarðarbátinn. En háttv. samgmn. Ed. hefir ekki fundið ástæðu til þess að taka þetta til greina að neinu leyti. Henni hefir ekki þótt nægja að skera niður till. samgmn. Nd„ heldur heimtar hún líka, að útbýting styrksins fari eftir nál„ sem hún gaf út í fyrra. Þetta kann nú að vera í sambandi við fjármálastefnu þá, sem hv. Ed. tók, að skera niður ýmsar samgöngubætur og önnur nauðsynleg framfarafyrirtæki. Það má segja um þennan niðurskurð, að sagan endurtaki sig. Á kreppuárunum 1923–’24 varð að leggja niður í bili allar verklegar framkvæmdir. Nú er kreppan fyrir dyrum aftur, og er þá spurning um, hvað gera skuli til þess að bæta úr henni. Nú hefir hv. Ed. farið sömu leið og farin var þá, klipið af ýmsum fjárveitingum til verklegra framkvæmda. Hún hefir krukkað í fjárveitingar til vega, brúa og vita, og hún hefir jafnvel lagst svo lágt að skera 150 kr. af 300 kr. fjárveitingu til ferju á Hrosshyl. Það verður nú að teljast vafasamt, hvort svona smásmugulegur niðurskurður sem þessi síðasttaldi er Alþingi samboðinn. Og það er nú spurning um, hvað holt þetta er, að klípa svona af verklegum framkvæmdum, hvort ekki er hægt að fara aðra leið. Jeg álít, að þetta ætti ekki að koma fyrir aftur. Stjórn og þing ættu að reyna að finna aðra leið til þess að koma jöfnuði á fjárlögin. Það er ósköp handhæg aðferð til lækkunar að taka einhverjar fjárveitingar af handahófi og klípa af þeim 50 þús. kr., en hvort það er sanngjarnt gagnvart almenningi, það er annað mál. Jeg held, að það sje einsdæmi, hvernig samgmn. Ed. hefir tekið þeim till., sem komu frá þessari hv. deild. Nú hefir samgmn. þessarar deildar haft fund með sjer. Það hefði verið eðlilegast, að hún hefði tekið upp aftur þessa 9 þús. kr. hækkun, en til þess að sýna viðleitni til sparnaðar, þá hefir hún aðeins lagt til, að liðurinn verði hækkaður um 4 þús. kr. Með þessu móti fæst auðvitað ekki sú hækkun til þessara þriggja báta, sem til var ætlast í upphafi. En það má þó ef til vill una við þetta, af því að jeg hefi það af vörum hæstv. forsrh. (JÞ), þótt ekki væri það hjer í deildinni, að alt kaup og kostnaður við útgerðina muni lækka á næsta ári, svo að það mundi vera hægt að fá bátana ódýrari. En það vil jeg taka fram fyrir hönd nefndarinnar, ef þessar 4 þús. krónur verða samþyktar og ef eitthvað sparast á öðrum bátum, þá er það samhljóða meining nefndarinnar, að því fje verði skift hlutfallslega milli þessara báta, sem jeg nefndi áðan. Vænti jeg, að hæstv. atvrh. taki þetta til athugunar.

Þá kem jeg að brtt. VI á þskj. 536. Hún er frá mjer og hljóðar upp á 1000 kr. til Kristjáns Jónssonar í Auraseli, í eitt skifti fyrir öll. Jeg veit, að hv. samþm. mínir, sem hjer hafa setið með mjer í 4 ár, eru mjer sammála um, að jeg hafi ekki lagt það í vana minn að bera fram till. um bitlinga til einstakra manna. Samt hefi jeg leyft mjer að bera fram þennan „bitling“, ef svo mætti hjer að orði komast. — Aurasel er fyrir austan og sunnan Þverá, og ef menn líta á kortið, sem jeg hefi hjer með höndum, sjá þeir, að bærinn ber nafn með rentu. Umhverfis þetta býli eru eintómir svartir sandar og aurar, en bærinn er eins og óasi eða yndislegur grænn blettur í auðninni, til að sjá. Og þegar heim kemur reynist einnig svo, að bærinn er ekki verri en hann sýnist. Þarna hefir nú þessi maður, Kristján Jónsson, búið í 30 ár, og er hann nú kominn að sjötugu. Hann er alkunnur fyrir það, að hann hefir um þetta langa skeið fylgt fólki yfir Þverá. Það er alvanalegt, þegar fólk kemur austan, að það fer ekki yfir Þverá á Síkisvaði hjá Hemlu, heldur miklu ofar, nálægt Auraseli. Af því að Þverá er mesti skaðræðisgripur, hefir þessi bóndi oft orðið að fylgja fólki vestur yfir ána, og jafnvel hefir hann stundum sótt það yfir um. Hann hefir marga svaðilförina farið, en þó altaf skilað fólkinu ósköddu í land. Hann hefir þó ekki altaf átt heimangengt, þegar komið hefir verið til hans og hann beðinn fylgdar, því að hann hefir altaf verið fátækur og haft lítinn mannafla. Samt er hann altaf, á nótt sem degi, reiðubúinn til að fylgja mönnum. Jeg get ekki stilt mig um að segja frá atviki, er kom fyrir einu sinni, er við sjera Eggert heitinn Pálsson vorum að halda þingmálafundi austur í Landeyjum. Jeg náttaði mig þar, en sjera Eggert heitinn vildi endilega komast heim um kvöldið eða nóttina. Jeg sagði honum, að ekki væri neitt vit í því að leggja út í Þverá svo síðla kvölds og í svarta myrkri, en hann svaraði aðeins: „Jú, jeg treysti honum Kristjáni mínum í Auraseli til að skila mjer á land“. Sjera Eggert fór yfir um ána um kvöldið með fylgd Kristjáns, og varð ekki meint af. Jeg hefi sjálfur notið fylgdar hans s.l. sumar, er jeg var þarna á ferð. Mjer sýndist Þverá þá mjög ægileg tilsýndar, en samt var hún hvergi nema í miðjar síður, þar sem við fórum. Aðrir, sem fóru yfir ána samtímis, en án fylgdar Kristjáns, fengu rogasund og máttu þakka fyrir að farast ekki. — Einhverja borgun kann Kristján að hafa fengið hjá þeim, sem hann hefir fylgt. En þeir, sem til þekkja, vita, að það er ekki vandi manna hjer á landi að borga mikið fyrir fylgd bæja á milli. Jeg hygg, að enginn verði feitur af því. — Svo sem jeg sagði, er þessi maður nú að verða sjötugur og er um það bil að láta af búskap. Vil jeg nú spyrja hv. þdm., hvort það sje til of mikils mælst við fjárveitingarvaldið, að það veiti nú þessum manni í eitt skifti fyrir öll litla upphæð, í viðurkenningarskyni fyrir að hafa í 30 ár fylgt mönnum yfir þetta skaðræðisfljót. Jeg hefi ekki gengið á milli manna og leitað atkvæða með þessari tillögu. Jeg læt alla sjálfráða um, hve þeir taka henni, en læt mjer nægja að skjóta fram þessari spurningu. Vona jeg, að hver svari henni sem honum líst best.