11.05.1927
Neðri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

21. mál, fjárlög 1928

Klemens Jónsson:

Jeg hefði í rauninni getað fallið frá orðinu, þar eð ummæli hv. 2. þm. Skagf. (JS) voru þannig, að jeg hefði í rauninni getað slept að svara þeim, ef umræðum þá hefði verið lokið. En úr því svo er nú ekki, ætla jeg að svara þeim nokkrum orðum.

Hv. þm. (JS) sagðist sjálfur hafa sjeð brjef frá Pjetri heitnum Jónssyni, þar sem hann lofi skólastjóranum á Hólum peningum til þess að auka með búið þar. Þetta hlýtur að hafa verið einkabrjef, því ef svo væri ekki, hlyti uppkast að því að hafa fundist í stjórnarráðinu. En það hefir ekki sjest, þó að leitað hafi verið. Ef slíkt loforð hefði verið gefið af formanni mínum í embættinu, þá hefði mjer ekki dottið í hug annað en að uppfylla það. Hv. þm. (JS) sagði, að það hefði verið hægt fyrir mig að taka upphæðina í fjáraukalög. Það má vel vera, en þetta mál er mjer nú úr minni liðið, enda datt mjer ekki í hug, að nú, 4 árum síðar, yrði farið að rifja það upp aftur, áður útkljáð, ómerkilegt mál. En eftir því, sem mig minnir, þá var það engin smáupphæð, sem skólastjórinn fór fram á, 10–12 þús. kr. Jeg þori þó ekki að fullyrða, að þessar tölur sjeu rjettar, — jeg hefi ekki átt kost á að rannsaka það, en það skiftir litlu máli. Mig furðar aðeins á því, að þetta skuli vera dregið inn í umr. nú. — Þá var það eitt atriði ennþá, sem jeg vildi minnast á. Háttv. þm. (JS) sagði, að málinu hefði verið hraðað of mikið. Jeg man það ekki svo gerla, en það man jeg, að mjög álitlegur maður með góðum meðmælum kom frá Vesturlandi og falaðist eftir því að fá skólabúið til rekstrar, en maður þessi þurfti að fara fljótlega brott; það stóð svoleiðis á skipaferðum. Þegar því skólastjórinn svaraði ekki skriflegri fyrirspurn minni, þá gat jeg ekki beðið lengur og gerði því samningana um það.

Úr því að jeg stóð upp, þá skal jeg, vegna þess að verið var að gera samanburð á fjárlagaútgjöldunum nú og fyrir 4 árum, geta þess, að það er ekki mikils metandi slíkur samanburður, vegna þess, hve einhliða hann er gerður, og það frá beggja þm. hálfu, er gert hafa hann. Ef menn vilja gera samanburð, þá verða þeir að gera hann óhlutdrægt. Eins og vjer nú getum gert hlutlausa grein fyrir fjárhaglandsins fyrir 40–50 árum, eins verður ekki hægt fyr en nokkur tími er liðinn hjer frá að gera hlutlausa grein fyrir fjárhagnum nú. Það verða þeir að gera, sem standa fyrir utan deilumálin, en ekki þeir, sem standa mitt í stríði dagsins; og þá kvíði jeg alls ekki samanburðinum. Það er og hefir verið alsiða í stjórnarráðinu að senda embættismönnum og stofnunum fyrirspurnir um það áður en fjárlagafrv. er samið, hvaða till. þeir vildu gera um frv. Margir þessir menn fara fram á hin ítrustu fjárútlát. En svo framarlega sem stjórnin vill vera gætin, þá tekur hún ekki allar þessar beiðnir til greina eins og þær koma frá hlutaðeigendum, heldur færir hún þær niður og segir við embættismennina: Þið verðið að komast af með þetta. Þetta var gert á meðan jeg var landritari og eins á meðan jeg var ráðherra, og þetta er sennilega gert enn þann dag í dag. Er því mikill munur á fjárlagafrv. eftir því, hvort allar tillögur og beiðnir eru teknar til greina, eða klipt af þeim, en útgjöldin samt reynast hærri. Það ber að leggja meiri áherslu á niðurstöðuna, landsreikninginn, en undirstöðuna, fjárlagafrv., í þessu atriði. Jeg gæti komið með mörg einstök atriði, er mundu sanna mál mitt í þessu efni, en jeg vil ekki fara út í það nú, enda þótt jeg áliti nauðsynlegt að drepa á þetta í þessu sambandi.