02.03.1927
Neðri deild: 19. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

6. mál, fátækralög

Klemens Jónsson:

Verði frv. þetta samþykt og sömuleiðis frv. það til sveitarstjórnarlaga, sem nú liggur fyrir hv. Ed., þá œtti þeim sífeldu kröfum, sem fram hafa verið bornar nú á síðari árum um breytingar á þessum lagabálki, að linna. Jeg segi af ásettu ráði „ætti að linna“, því að jeg tel það geta verið vafasamt, þar sem lög þessi grípa svo mjög inn í líf einstaklinganna og þjóðarinnar í heild. Það er því ekki ólíklegt, að einhverjar misfellur finnist í þeim, þegar til framkvæmdanna kemur, kvartanir komi fram og þær leiði til breytinga.

Jeg fyrir mitt leyti tel þau nú samt svo vel undirbúin, að rjett sje að láta þau í friði fyrst um sinn, verði þau samþykt nú; lofa reynslu að komast á þau. Jeg hafði hugsað mjer að koma fram með eina brtt., en hvarf frá því af þeirri ástæðu, að hún kom frá öðrum.

Eins og háttv. frsm. allshn. (JK) tók fram, eru brtt. nefndarinnar margar, en þó fáar, sem eru efnisbreytingar. Af þeim má fyrst nefna brtt. við 22. gr. frv. Þar leggur nefndin til, að þeirri framfærslusveit, sem maður á, sem orðinn er 60 ára, haldi hann síðan. En frv. stjórnarinnar gerir ráð fyrir 65 árum. Verði till. þessi samþykt, tel jeg það til bóta, því að það er alkunna, að menn, sem altaf hafa unnið baki brotnu, eru margir hverjir alveg orðnir útslitnir um 60 ára aldur og því styrkþurfar. Er því ekki nema rjett, að þeir njóti þar styrks, sem þeir hafa slitið kröftum sínum síðast.

Þá er 43. gr. frv. Við hana hefir nefndin gert brtt. og sömuleiðis háttv. þm. Barð. (HK). Brtt. hv. þm. Barð. er einmitt sú, sem jeg ætlaði að koma með, að breyta orðinu „skylt“ í upphafi greinarinnar í „heimilt“. Orðið „heimilt“ er að vísu töluvert linara en „skylt“, og fyrir þá sök er líklegt, að sveitarstjórnir mundu síður nota heimildina, því jeg geri ráð fyrir, að þær vilji sjá, hverju fram fer, áður en þær endanlega ákveða, hvort veittur styrkur skuli afturkræfur eða ekki. Hvað snertir styrk veittan vegna slysa og ýmsra óhappa, þá held jeg, að verði um hið sama að ræða og hinn almenna styrk, að hlutaðeigandi sveitarstjórn vilji líka sjá, hverju fram vindur, því oft getur slíkur styrkur verið veittur undir mismunandi kringumstæðum. Annars er ekki mikið bil milli þess, hvort sveitarstjórn er heimilað eða skylduð til að ákveða, hvort styrkur skuli afturkræfur eða ekki. Verði skyldan ákveðin, er það þó altaf undir mati eða áliti sveitarstjórnar komið, hvað hún ákveður, hvað hún telur sanngirni.

Það má vel vera, að sveitarstjórnum yfirleitt verði trúandi fyrir að ákveða með sanngirni, hvenær styrkur skuli afturkræfur og hvenær ekki, en jeg er hræddur um, að því verði beitt á mismunandi hátt í sveitarfjelögunum og misbeitt í kaupstöðunum; þar komist „pólitík“ inn í. Verði því heppilegra að heimila það, en gera það ekki að skyldu.

Viðaukatill. allshn. við þessa grein, um að dvalarsveit megi ekki ákveða, hvort veittur styrkur skuli endurkræfur eða ekki, tel jeg til mikilla bóta. Mjer finst meira að segja, að nefndin hafi ekki gengið þar nógu langt, því að jeg tel framfærslusveit eiga eina að ráða öllu í því efni. — Þetta vildi jeg biðja nefndina að athuga til 3. umræðu.

Þá kem jeg að 58. gr. frv. og brtt. við hana. — Í frv. stjórnarinnar er svo kveðið á, að þegar viðkomandi maður hafi þegið 200 kr. styrk eða meira í dvalarsveit sinni og bersýnilegt er, að hann sje kominn á stöðugt sveitarframfæri, þá hafi bæði dvalarsveit og framfærslusveit, hvor um sig, rjett til að krefjast þess, að hann sje fluttur fátækraflutningi á framfærslusveit sína. Nefndin vill, að miðað sje við 300 kr. Á því geri jeg engan mun, hvort maðurinn hefir þegið 200 eða 300 kr. Það rjettlætir ekkert flutninginn, þó að maðurinn hafi þegið 100 kr. meira eða minna. Mjer finst nefnilega, að 200 eða 300 kr., miðað við verðlag nú, vera svo lítil upphæð, að það sje æði hart að gera menn að flutningsskyldum þurfamönnum fyrir svo lítinn styrk. Það eina, sem rjettlætt gæti þurfamannaflutning undir slíkum kringumstæðum, væri þá helst, að bersýnilegt væri, að maðurinn væri kominn á stöðugt sveitarframfæri. Jeg tel því till. nefndarinnar ganga í alveg öfuga átt. Annars er jeg fyrir mitt leyti á móti öllum fátækraflutningi. Mjer finst hann ómannúðlegur og eiga ekki við nú á dögum, enda þótt hann sje framkvæmdur eins mannúðlega og hægt er.

Þá flytur hv. þm. Barð. (HK) till. um að fella niður 34. gr. frv. Það mun hafa verið hv. 1. þm. Árn. (MT), sem hreyfði því fyrst við umr. um annað mál hjer í deildinni, að slík grein sem þessi ætti ekki að sjást í nútíðarlögum. Þessu er jeg alveg samþykkur, því að svo framarlega sem þessi grein sjest í lögum frá 1927, þá halda eftirkomendur okkar, að undirboð á framfærslu þurfamanna hafi tíðkast alt fram á þennan tíma, úr því að þarf að banna slíka óhæfu. En jeg þekki ekkert dæmi þess, að slík undirboð á þurfamönnum hafi átt sjer stað á þingum, svo langt sem jeg man.

Þá vil jeg í þessu sambandi nota tækifærið og beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG), hvort hann viti til þess, að þessi vesalings drengur í Skagafirðinum, sem svo mjög hefir verið umtalaður nú undanfarið og margir hafa kent í brjósti um, hafi lent á slíku undirboði, og á þann hátt komist til þessara þrælmenna, sem tókst að eyðileggja heilsu hans og framtíð á einum mánuði. Jeg veit ekkert um þetta annað en það, sem stóð í „Morgunblaðinu“, en það hefir ekki að minni vitund verið hrakið. Það myndi því gleðja mig. ef hæstv. ráðh. gœti upplýst, að það hafi verið fyrir forsvaranlegar ráðstafanir, að honum var komið þarna fyrir.

Finn jeg svo ekki ástæðu til að fara frekar út í hinar ýmsu brtt., sem hjer liggja fyrir, enda býst jeg við, að sumar þeirra verði geymdar til 3.umr.