17.05.1927
Neðri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

134. mál, seðlainndráttur Íslandsbanka

Frsm. (Klemens Jónsson):

Mál þetta er borið fram af meiri hl. fjhn. Jeg skal þó geta þess, að það hefir ekki verið tími til að taka málið fyrir á reglulegum nefndarfundi, en frv. hefir verið látið ganga milli nefndarmanna og þeim þannig gefinn kostur á að láta í ljós samþykki eða neitun. Það stendur svo á þessu máli, að Íslandsbanki hefir með brjefi 28. f. m. til hæstv. forsrh. (JÞ) farið fram á, að hann hlutaðist til um, að í viðbót við þann frest á seðlainndrættinum, sem bankanum var veittur með lögum nr. 53, 15. júní 1926, 3. gr., þá verði 2. gr. laga nr. 6 31. maí 1921 breytt þannig að því er snertir inndrátt seðla Íslandsbanka, að á yfirstandandi ári skuli bankinn eigi skyldur að draga neina seðla úr umferð.

Þessa málaleitun hefir hæstv. forsrh. sent fjhn. með tilmælum um, að hún bæri málið fram, og geri jeg það hjer með fyrir hennar hönd og leyfi mjer jafnframt að óska, að hv. deild leyfi því að ganga greiðlega fram. Jeg þarf ekki að hafa fyrir þessu lengri formála, því að málið er enginn nýr gestur á þingi, enda býst jeg við, að hæstv. forsrh., sem talað hefir við stjórn Íslandsbanka, skýri málið nánar. En öllum hlýtur að liggja í augum uppi, að ástæðan til þess að Íslandsbanki fer fram á þessa undanþágu er hin mikla peningakreppa, því að inndráttur seðlanna um heila miljón króna, eins og nú standa sakir, mundi valda mjög miklum erfiðleikum og truflan í viðskiftalífinu. Jeg hefi svo ekki um þetta fleiri orð, en óska, að frv. fái að ganga greiðlega gegnum deildina, með nauðsynlegum afbrigðum.