25.03.1927
Neðri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Síðan 3. umr. hófst hjer í deildinni, hafa komið fram nokkrar brtt., en það er í rauninni búið að tala fyrir þeim áður af hendi þeirra, sem bera þær fram; jeg get því vel minst þegar á þær. Vil jeg þá fyrst nefna brtt. frá hæstv. atvrh., á þskj. 243. Nefndin hafði álitið það mjög nauðsynlegt, og vissi að það var í fullkomnu samræmi við vilja þingsins, að hafa talsvert ríkt aðhald að sjerleyfishafa um það, að byrjað verði á járnbrautinni og henni haldið áfram með hæfilegum hraða. Talaði hæstv. atvrh. um þetta við nefndina, og kom hún þá fram með brtt. við 10. gr., en hæstv. atvrh. var samt sem áður ekki ánægður með þessa brtt. og lýsti yfir því, að hann mundi greiða atkvæði á móti henni, og hefir nú sjálfur komið fram með brtt., sem fer fram á það að gera ákvæðin miklu harðari í garð sjerleyfishafa heldur en nefndin ætlaðist til. Hæstv. atvrh. sagði það rjettilega, að þegar ætti að taka tillit til beggja aðilja, þá mætti ekki ganga svo langt gagnvart sjerleyfishafa, að honum væri ómögulegt að samþykkja skilyrðin, en mjer finst, að hjer sje fulllangt gengið, en úr því að þessi brtt. kemur fram frá hæstv. atvrh., sem samið hefir um málið við hluthafana og hlýtur því að vera manna kunnugastur því, hvað þeir vilja samþykkja, og þótt jeg játi, að mjer þykir hún fullhörð, þá sætti jeg mig við hana. Jeg geri þess vegna ráð fyrir því, að jeg greiði atkvæði með þessari brtt., en um samnefndarmenn mína get jeg ekki sagt með vissu, því við höfum ekki haft tækifæri til þess að tala saman um hana.

Þá vil jeg minnast á aðra brtt., sem að vísu er ekki komin frá samgmn., en sem allir nefndarmenn hafa gengið inn á. Það er brtt. á þskj. 222, frá hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg mintist á þessa brtt. um daginn og ljet þess þá getið, að jeg hefði ekkert við það að athuga, að í brtt. er ákveðið, að vist magn af köfnunarefnisáburði skyldi afhent Búnaðarfjelagi Íslands, en jeg fann að því, hvernig verðið var ákveðið, en hv. flm. hefir ekki tekið til máls síðan, svo að jeg veit ekki, hvernig hann hefir tekið í þessa athugasemd mína. En hvað þá brtt. snertir, sem hjer er fram komin, vil jeg segja það, að jeg teldi það miklu rjettara að miða verðið við framleiðslukostnað hjer, að viðbættri einhverri lítilfjörlegri álagningu, og get jeg ekki skilið annað en að allir, sem vilja fá þetta áburðarefni til landbúnaðarins, hljóti að skilja, að hjer er farið fram á svo lítilfjörlega álagningu, að nokkrir þm. hafa í dag komið til mín og spurt, hvort fjelagið myndi ganga inn á hana; en eftir þeirri þekkingu, sem jeg hefi á fjelaginu, þá þykist jeg viss um, að fjelagið muni samþykkja hana.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það liti út eins og við ætluðum að fara að taka það aftur, sem við höfum samþykt áður, að láta köfnunarefnisáburð vera aðalframleiðsluna hjá fjelaginu. Jeg get þess, að jeg hefi ekki samið þessa brtt. á þskj. 246, heldur annar maður í samgmn., sem er manna kunnugastur öllum vatnamálum, en það er alls ekki tilgangurinn að taka neitt aftur; í henni felst aðeins það, að þegar búið er að byggja járnbrautina og virkja fossinn, þá eigi fjelagið að framleiða köfnunarefni og láta ríkisstjórninni í tje vist magn af því með því verði, sem hjer segir, og jeg skal geta þess, að ef þetta þykir ekki nógu ákveðið, þá er ekkert á móti því að koma með skriflega brtt., sem staðfestir þetta. En jeg álít hana gersamlega óþarfa, því að hjer er ekki verið að taka neitt aftur. Annars geri jeg ráð fyrir, að hv. flm. (SvÓ) muni gera nánari grein fyrir henni, en sem sagt, jeg verð að leggja með því, að þessi brtt. okkar á þskj. 246 verði samþykt.

Jeg get í rauninni látið mjer nægja þetta, því að þær athugasemdir, sem fram komu frá hv. 1. þm. Reykv., gefa mjer ekki ástæðu til frekari andsvara, og mest af því, sem hann sagði, var að mínu viti búið að hrekja, og því síður ástæða til að fara mörgum orðum um það, eftir að hæstv. atvrh. hefir tekið þessar brtt. allar saman til athugunar.

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um framkvæmd sjerleyfisins, þá vil jeg minna á, að það hefir verið rætt við 1. og 2. umr. málsins, og sje jeg ekki, að neitt sje unnið við að fara að endurtaka þær umr. Jeg vil aðeins benda á, að þessu sjerleyfi verður með rjettu líkt saman við sjerleyfið til að virkja Dynjandisá, því að hjer er ekki farið fram á leyfi til að virkja alla Þjórsá, heldur er farið fram á að fá sjerleyfi til að virkja einn foss í henni, og aðeins að virkja hann að nokkru leyti, en sem sennilega nemur allri þeirri hestorku, sem í Dynjanda er, nefnilega 40000 hestorkum. Það sýnist sitt hvað í þessu efni; en hitt get jeg viðurkent hjá hv. þm. (JakM), að hann virðist vera sjálfum sjer samkvæmur, þar sem hann greiddi atkvæði á móti sjerleyfinu um Dynjandi í fyrra, þegar það var hjer til umræðu.

Þá hefir hv. þm. komið með brtt. á þskj. 244, við brtt. á þskj.221, umvídd járnbrautarinnar. Móti þessu mælti hæstv. atvrh. og gat þess, að það gæti vel hugsast, að þær upplýsingar lægju fyrir á sínum tíma, að það væri kannske rjettara að hafa hana eitthvað mjórri. Jeg get verið því sammála, að þær upplýsingar geti legið fyrir. En annars er jeg ekki mótfallinn brtt. frá mínu sjónarmiði, en samgmn. hefir ekki haft tækifæri til þess að athuga hana.

Brtt. á þskj. 244,2 er svo sjálfsögð, að óþarfi er um hana að ræða.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að með brtt. III,3 væri sjerleyfishafa gefin öll umráð yfir járnbrautinni, en jeg álít, að ef brtt. er samþ., þá sje sjerleyfishafi alveg varnarlaus fyrir, því að þá er honum meinað að nota sjerleyfisdómstól. Jeg vil, að bæði sjerleyfishafi og stjórnin ráði yfir járnbrautinni í sameiningu, en ef ágreiningur verður, þá er sjálfsagt að snúa sjer til sjerleyfisdóms.

Viðvíkjandi 4. brtt., þá get jeg sagt það, að jeg mundi hafa verið með henni, ef ekki hefði staðið þar neitt um fasteignir fjelagsins; en eins og hún er orðuð get jeg alls ekki verið með henni. Tel jeg hana og brtt. hv. 4. þm. Reykv. óþarfar, og jeg efast um, að hægt sje að veðsetja jarðirnar og vatnsrjettindin, eins og hv. 4. þm. Reykv. sagði. Og jeg býst við, að ef farið yrði fram á þetta, þá mundi Titanfjelagið telja það sem þá ótrú á sjer, er það hefir alls ekki til unnið, sjerstaklega þar sem þessa var ekki krafist af Dynjandafjelaginu. Jeg býst við, að fjelagið vilji alls ekki hafa þetta í lögum, en muni ganga inn á, að það sje tekið fram í sjerleyfi, eins og hæstv. atvrh. vill.

Jeg tel nú, að þetta mál sje útrætt, og jeg býst ekki við því að tala oftar og skal því láta hjer staðar numið.