27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Mál þetta er nú aftur komið til þessarar deildar frá háttv. Ed., sem hefir gert á því nokkrar breytingar, fjórar að tölu. Jeg ætla nú stuttlega að gera grein fyrir þessum brtt., er samþ. voru í Ed.

1. brtt. er við 9. gr. c-lið. Þar er lagt til, að Rangárvallasýsla greiði á sama hátt og Árnessýsla land undir stöðvar og bætur fyrir landnám, jarðrækt og átroðning frá stöð við Ölfusá að Þjórsá, en þó ekki nema að hálfu leyti. En áður átti hún að gera það að öllu leyti. Þetta er nú lítið atriði og snertir ekki málið í heild sinni, heldur ræðir hún um það eitt, í hvaða hlutfalli Árnes- og Rangárvallasýslur eigi að bera þennan kostnað. Hjer er um svo mikið lítilræði að gera, að engu munar, hvorki til nje frá. Þarf jeg því ekki að fjölyrða frekar um þessa breytingu.

2. brtt. er við 9. gr. d-lið og er um það, að fje það, sem landssjóður á að leggja fram til járnbrautarlagningar, greiðist eftir á, 11/2 milj. kr., er járnbrautin er fullgerð með stöðvarhúsum frá Reykjavík að Ölfusá, og 1/2 milj. kr., þegar brautin er fullgerð að Þjórsá. Þetta er talsverð breyting frá því, sem upphaflega var í frv., og sjerleyfishafa mikið í óhag. Eftir því, sem frv. var samþ. hjer í deildinni, var svo ákveðið, að fje þetta skyldi greitt eftir á, eftir því sem verkinu miðaði áfram. Samkvæmt því hefði fjelagið getað krafist hlutfallslegrar greiðslu á framlagi ríkissjóðs, er brautin var komin upp að Kolviðarhóli, eða jafnvel fyr. En nú fær það ekkert greitt, fyr en járnbrautin er fulllögð alla leið austur að Ölfusá.

Önnur brtt. kom fram í Ed. um það, að kostnaðurinn yrði greiddur, þegar brautin væri komin austur fyrir Lágaskarð, og hefði það verið mun aðgengilegra fyrir fjelagið. En með þessari breytingu, sem samþykt hefir verið, er hnept mjög að kostum fjelagsins. Er þá eftir þessu ákvæði trygging fengin fyrir því, að ekkert fje verður greitt úr ríkissjóði til járnbrautarinnar fyr en hún er komin austur að Ölfusá. En af því að jeg er sannfærður um, að sjerleyfishafa tekst að fullgera verkið, er jeg ekkert hræddur við, þó að þetta ákvæði, sem samþ. var í Ed., standi í lögunum. 1.brtt. er við sömu gr. Er það nýr liður, e, og er um það, að sjerleyfishafi annist allan annan kostnað við járnbrautina og að ríkissjóður sje á engan hátt ábyrgur fyrir skuldbindingum sjerleyfishafa. Þetta ákvæði er alveg sjálfsagt, og hefði ekki þurft að taka það fram í lögunum, að ríkissjóður ætti ekkert annað að gera en að leggja fram þessar 2 milj. kr. En það skaðar auðvitað ekki að hafa þetta ákvæði í lögunum, því að það er heldur til bóta. Það tekur af allan efa, sem menn kunna að hafa haft um það, að ríkissjóður stæði í ábyrgð fyrir meiru en þessum 2 milj. kr.

Þá kem jeg að 4. og síðustu brtt. Við 11. gr. hefir verið bætt nýrri málsgrein, sem segir, að járnbrautin með stöðvarhúsum, vögnum og öllum öðrum áhöldum skuli standa að veði fyrir því, að sjerleyfishafi reki járnbrautina og haldi henni við. Þetta er verulega herðandi ákvæði. Er jeg sá þessa brtt. fyrst, þá var jeg þess mjög uggandi, að hún gæti valdið því, að sjerleyfishafi sæi sjer ekki fært að framkvæma verkið, ef þetta ákvæði stæði í lögunum? En er jeg athugaði þetta nánar, þá komst jeg að þeirri niðurstöðu, að ákvæði þetta mundi þó varla gera það að verkum, að sjerleyfishafi sæi sjer ekki fært að halda áfram með verkið. Mjer getur þó ekki dulist, að þetta er mjög svo herðandi ákvæði frá þingsins hálfu.

Jeg verð að segja það, að tvær af þessum brtt., brtt. við 9. gr. d og þessi, veita miklu meira aðhald en var í frv. eins og það fór frá háttv. Nd. Þeir háttv. þm., sem þá gátu ekki greitt frv. atkv., ættu því að geta það nú, eftir að þessi ákvæði eru komin inn.

Mjer dylst ekki, er jeg ber saman frv. þetta við frv. það til sjerleyfis, er samþykt var á síðasta þingi, að nú eru kostirnir talsvert harðari. Það hefði þó mátt búast við því, að fjelagið Titan, sem búið var að offra svo miklu fje til undirbúnings þessa máls, hefði fengið ofurlítið vægari kjör. En það er nú síður en svo.

Jeg vona nú samt, að frv. verði samþykt óbreytt eins og það nú er og komi til framkvæmda sem allra fyrst.