27.04.1927
Neðri deild: 60. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (1982)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg hafði ekki ætlað að taka til máls í þetta sinn, en hv. 4. þm. Reykv. (HjV) beindi þeirri spurningu til mín, hvort jeg væri enn jafnbjartsýnn og áður og vongóður um það, að byrjað yrði á lagningu járnbrautarinnar í sumar. Já, jeg er fullkomlega jafnbjartsýnn og áður í því efni, svo framarlega sem frv. fær þá afgreiðslu, að væntanlegir sjerleyfishafar sjái sjer fært að taka við sjerleyfinu. Ef svo verður, sem jeg vænti, þótt það sje orðið miklu harðara í þeirra garð en upphaflega var til ætlast, þá hefi jeg fylstu von um, að byrjað verði á verkinu sem fyrst, og jafnvel eitthvað nú í sumar. Meira hefi jeg aldrei sagt.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) vildi halda því fram, að í frv. felist engin skylda til að framleiða áburðarefni. En um það þýðir ekki að þrátta; jeg lít svo á fyrir mitt leyti, að hjer sje um skýlausa skyldu að ræða, og hæstv. atvrh. lítur einnig svo á. Vitanlega getur þetta, ef til vill, orðið ágreiningsatriði, en nú er það venja um lögskýringar, ef eitthvað er óljóst, að athuga meðal annars umr. á þingi um málið, og þá sjerstaklega, hvað stjórnin og frsm. nefnda hafa sagt eða hvaða skilning þeir hafa lagt í hin umdeildu ákvæði, og um þetta höfum við, bæði hæstv. atvrh. (MG) og jeg, tekið svo skýrt fram okkar skoðun, að ekki er um að villast.

Hv. þm. hjelt því fram, að ef brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) væri samþ., væri hjer um skýlausa skyldu að ræða. En nefndin sá ekki ástæðu til að skuldbinda fjelagið til að láta af hendi 1 þús. tonn fyrsta árið og 2 þús. annað árið o. s. frv., heldur bæri að skylda það til að láta þegar í stað alt, sem með þyrfti, og hún sá ekki ástæðu til að miða við 25 G undir heildsöluverði í Noregi, heldur við framleiðslukostnað hjer á staðnum, að viðbættri lítilfjörlegri álagningu.