22.04.1927
Neðri deild: 57. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

11. mál, útrýming fjárkláða

Klemens Jónsson:

Það fór svo sem vænta mátti, að úr umræðunum teygðist svo í fyrradag, að þessi litla brtt. mín á þskj. 392 náði inn á fundinn á löglegan hátt. Hv. þm. Barð. ljet í ljós undrun sína yfir því, að afbrigði skyldu heimiluð vegna þessarar till. En er það nokkuð nýtt? Er ekki venjulegt að veita afbrigði, jafnvel þegar um meiri háttar tillögur er að ræða en þessa. Mjer er að vísu ekki gjarnt að bera fram tillögur, sem krefjast afbrigða frá þingsköpunum, og jeg get glatt hv. þm. (HK) með því, að jeg hefði alls ekki komið með þessa till., ef hv. þm. V.-Sk. hefði ekki verið kominn á undan með sína.

Það hefir verið fundið þessum till. til foráttu, að ekki væri víst, að kláðalaust væri í Rangárvallasýslu. Það hefir mikið verið talað um þessa kláðagemlinga í Holti, og jeg efa ekki, að hv. þm. Str. fari rjett með unnnæli prestsins. En hv. samþingismaður minn (EJ) talaði við prestinn litlu síðar, og lýsti hann því yfir þá, að hann gæti ekkert fullyrt um það, hvort þarna hefði verið um kláða að ræða, því að hann hefði enga smásjá haft til að rannsaka það nánar. En helst áleit hann, að þessi óþrif hefðu stafað af vatni og vosbúð. Þetta skiftir nú raunar ekki miklu máli. Það er eins fyrir það alveg óhætt að samþykkja þessa tillögu, því áður en heimildin verður notuð, fer fram nákvæm skoðun á öllu fje. Ef svo færi, að kláði væri í Holti eða í sýslunni, mundi atvrh. að sjálfsögðu ekki nota þá heimild, sem hjer er farið fram á, og hefir hann þegar lýst því yfir, að hann mundi því aðeins nota hana, að vissa sje fyrir því, að sýslan sje kláðalaus. Það er því alveg óhætt að samþ. þessa brtt. mína.