26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í C-deild Alþingistíðinda. (2928)

72. mál, fiskimat

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það, sem gerst hefir frá því að þetta mál var hjer til 1. umr., er í raun og veru ekki annað en að komið hafa fram tvær brtt., og hygg jeg þó, að önnur þeirra hafi verið komin áður en 1. umr. lauk, þ. e. a. s. brtt. á þskj. 175. Hin brtt. er á þskj. 206. Hvortveggja þessi brtt. hefir verið athuguð í sjútvn. og bornar saman við frv. og lögin, og hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að fallast á tillöguna á þskj. 206. Hinsvegar getur hún ekki aðhylst till. á þskj. 175. Virðist sú till. ekki líkleg til að bæta úr ósamræmi fiskimatsins, en með henni er auk þess stofnað til óþarfs kostnaðar, sem hæpið er, að tilætlaðan árangur geti borið.

Um till. á þskj. 206 má segja, að hún sje lítið annað en orðabreyting á frv.; efnisbreyting getur það engin heitið, önnur en sú, að gert er ráð fyrir, að ætið skuli saltfiskur metinn, sem keyptur er af útlendum skipum, hvort sem hann er fluttur strax til útlanda eða geymdur, og það tel jeg til bóta, að taka þetta berum orðum fram, án þess þó að lögfesta skyldumat á saltfiski að öðru leyti, sem gengur kaupum og sölum innanlands.

Jeg finn enga ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, nema tilefni verði þá gefið frá öðrum, því að þetta litla mál er svo augljóst og einfalt, enda talsvert rætt við 1. umr.

Nefndin leggur því til, að brtt. á þskj. 206 verði samþ., en verður að leggja á móti brtt. á þskj. 175.