26.03.1927
Neðri deild: 39. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í C-deild Alþingistíðinda. (2931)

72. mál, fiskimat

Jón Ólafsson:

Jeg vil leyfa mjer að fara nokkurum orðum um breytingar þær á fiskimatslögunum, er hjer liggja fyrir. Jeg tek það fram, að 1. gr. frv. er til mikilla bóta. En það er erfitt að uppfylla skilyrði þessarar gr., sem sje það, að allur fiskur skuli metinn án undantekningar. Það er vitanlegt, að fiskurinn er að mestu leyti fluttur út, en tiltölulega mjög lítið notað innanlands. En það eru erfiðleikar á þessu, og kostnaðurinn verður tvöfaldur, er meta þarf upp allan fiskinn. Er þetta því bæði dýrt og óviðeigandi, þar sem, kaupandi og seljandi koma sjer saman um að kaupa fiskinn upp til hópa, án tillits til þess, hvort hann er nr. 1 eða 2. Upphaflega hefir þetta verið sett til þess að hvetja menn til þess að vanda betur vörugæðin en áður. Stendur þá líka kaupandi betur að vígi gagnvart þeim, er hafa óvandaða vöru.

Aftur á móti er viðbótartill. hv. sjútvn. við 7. gr. fiskimatslaganna þess eðlis, að jeg tel ólíklegt, að hún nái tilgangi þeim, sem nefndin ætlast til. Það er kunnugt, að mat og yfirmat er mjög vandasamt verk og er ilt að samræma það. Er mikið komið undir smekk og tilfinningu þeirra manna, sem það eiga að framkvæma. Örðugleikarnir eru margir, en verst er, að þessir menn eru ekki sjálfstæðir menn með sjálfstæða þekkingu á þessum efnum. Hjer er ekki hægt að þjóna tveim herrum. Það er nú oft svo, að seljendur vilja, ef til vill, hafa áhrif á matið. En skylda matsmanna er fyrst og fremst sú, að gera bæði kaupendur og neytendur ánægða. Í flestum tilfellum verða menn að hafa þá fyrir augum. Það er óhætt að segja, að undir því sje velferð fiskmarkaðarins komin, að fiskimatsmennirnir sjeu fullfærir og þeim megi treysta. Með brtt., sem nefndin gerir við 7. gr., er ekki sjeð fyrir þessu að öðru leyti en því, að maður sje fenginn til þess að reyna að samræma matið. En hvergi er gert ráð fyrir því, hvar hann eigi að fá það samræmi, sem fullgilt sje. Það er auðvitað ekki einhlítt, þó að hann sæki fróðleik sinn til Spánverja og hagi sjer í einu og öllu eins og þeir vilja, sem versla með fiskinn. Hann verður þó að hafa einhverja sjálfstæða þekkingu. Jeg held, að viðbótartill. hv. þm. Borgf. sjái sæmilega fyrir þessu. Þegar matið var fyrst lögleitt, var sá maður sendur utan, er fært hefir landi voru mesta peninga og gert því stórgagn. Hann fór til neyslulandanna og kynti sjer kröfur kaupendanna og starfaði svo einarðlega eftir því. Það var aðeins eitt, sem okkur fanst hann heldur fastheldinn við, og það var, að hann krafðist hærra þurkstigs en Spánverjar heimtuðu. Hann áleit nefnilega, að það þurkstig þyldi ekki hitann, er fiskurinn kæmi suður í lönd. Seinna var matið linað, þannig, að það var meira við hæfi neytenda. En ekki var þó ráðin veruleg bót á þessu fyr en 1922, er sendir voru utan tveir menn, yfirfiskimatsmennirnir frá Reykjavík og Ísafirði. Jeg var með í þessari för, og jeg verð að segja, að þeir fóru mjög samviskusamlega með erindi sitt. Þeir töluðu við kaupendur og öfluðu sjer víðtækrar þekkingar. Mun einnig þessi för vera búin að gefa af sjer margar miljónir króna. Það er því nauðsynlegt fyrir yfirfiskimatsmennina sjálfa að kynna sjer vandlega kröfur kaupenda og neytenda. En sjálfstæðrar þekkingar í þessum efnum geta þeir ekki aflað sjer á annan hátt en þann, að leita sjer upplýsinga um þetta í þeim löndum, sem fiskurinn á endanlega að fara til. Jeg hygg, að sú þekking verði traustari og haldbetri, sem þessir menn afla sjer sjálfir á þennan hátt. Þó mikið sje talað um samræmi í mati, þá er líka margt fleira, sem kemur til greina. Fiskurinn er t. d. mismunandi litur. Vestmannaeyjafiskur er öðruvísi á litinn en Reykjavíkurfiskur. Jeg fyrir mitt leyti hefi litla trú á því, að maður sá, sem ferðast um landið, gæti samræmt lit fiskjarins og þurkstig hans. Mjer er kunnugt um, að hjer í bænum er einhver besti matsmaðurinn, sem við eigum, og getur hann þó ekki sjeð um samræmi í matinu á öllum stöðum hjer í bænum, þegar metið er á 8–9 stöðum í einu. Þar eru hvorki sömu augu nje hendur að verki, og því verður alt töluvert mismunandi. Þegar þessu er nú þannig varið hjer í Reykjavík, hvaða gagn mundi þá vera að manni, sem ferðaðist fjörð af firði og yrði að fara nokkuð hart yfir. Jeg hygg að með þessu móti yrði ekki um mikið samræmi að ræða; jeg hygg, að það fyrirkomulag væri betra, að yfirmatsmennirnir hittist árlega í Reykjavík og beri sig saman um aðfinslur kaupenda o. fl. Slíkur hlaupandi ferðalangur, sem hjer er um að ræða, getur ekki haft mikinn íhlutunarrjett um það, hvernig undirmatsmennirnir rækja störf sín. Lögin gera ráð fyrir því, að yfirmatsmennirnir ferðist um umdæmi sín og leiðbeini um verkun fiskjar, og álít jeg, að það geti komið að góðum notum. Þegar yfirmatsmaður fór til Vestmannaeyja, þá bætti hann mikið verkunaraðferðina þar. Það er ekki hægt að framleiða góða vöru, nema varan sje vel úr garði gerð frá fyrstu hendi.

Jeg mun að öðru leyti ekki skifta mjer mikið af máli þessu. Mjer virðist sjútvn. hafa verið óheppin í afskiftum sínum af þessu máli. Tel jeg sjálfsagt að fella þessa brtt. hennar um ferðalanginn. Aftur virðist mjer brtt. hv. þm. Borgf. miða í rjetta átt. Það er mikið vit í því, að láta yfirfiskimatsmennina fara oft til Spánar eða viðskiftalandanna til þess að kynna sjer vilja kaupenda þar. Það er farsælast, að þeir sæki þekkingu sína til neyslulandanna, því að starf þeirra á að vera fólgið í því að vinna fiskinum álit og markað þar.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni, en aðeins taka það fram aftur, að mjer virðist sjútvn. hafa tekist óheppilega til í brtt. sínum.