31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

72. mál, fiskimat

Sigurjón Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð til hv. 3. þm. Reykv., og þau geta verið mjög fá, aðallega af tveimur ástæðum; er fyrri ástæðan sú, að þetta mál hefir verið rætt svo mikið, að jeg býst ekki við, að þótt við höldum áfram að ræða það, að nokkuð nýtt komi fram í því. Og önnur ástæða til að tala stutt er sú, að mjer finst, að þessi hv. þm. (JÓl) taki þetta mál ekki á þann veg, sem jeg hefði fylsta rjett til að ætlast til. Jeg skil ekki þá aðstöðu hv. þm., að verja miklum tíma í umr. um þetta mál til þess að gera gys að till. nefndarinnar og jafnvel undir rós að gefa í skyn, að það sje ekki áhugi á málinu, sem vaki fyrir nefndinni, þegar komið er fram með þessar till.; mjer finst þetta ranglát ásökun hjá hv. þm.

Það, sem jeg ætla að drepa á, er sá tvíveðrungur í skoðunum, sem virðist koma fram hjá þessum hv. þm. (JÓl). Það kom fram í ræðu hv. þm., að hann vildi gera ráð fyrir því, að yfirfiskimatsmennirnir ferðuðust um, hver í sínu umdæmi, og gerði hann mikið úr gagni af því. En hann leggur ekki mikið upp úr þessum ferðum, sem hjer um ræðir, eða af leiðbeiningum þeim, sem af þeim leiða. En þetta er mótsögn hjá hv. þm. Hann kom með dæmi um það, að yfirfiskimatsmaðurinn í Reykjavík hefði ekki farið í eftirlitsferð suður með sjó og hefði töluvert af fiski þaðan verið ófært til útflutnings vegna þess. Það kemur skýrt fram, að hann álítur, að ferðir yfirfiskimatsmannanna hafi mikið að segja. En yfirfiskimatsmennirnir meta auðvitað ekki fiskinn sjálfir, og það á matsstjórinn heldur ekki að gera. En hann á að tala við menn og leiðbeina um matið, fara frá einum fjórðungi til annars í þessu skyni, alveg eins og yfirfiskimatsmennirnir gera hver í sínu umdæmi.

Þá sagði hv. þm., að matsstjórinn gæti ekki skipað fyrir um, hvernig fiskurinn væri verkaður, hvort hann væri verkaður sem Labradorfiskur eða sem fullverkaður. Jeg sagði nú heldur ekkert um þetta. Hann á ekkert að skipa hjer fyrir verkum, en hann á að geta gefið nauðsynlegt heildaryfirlit og fylgjast með því, hve mikið er verkað af „Labrador“ og hve mikið af fullverkuðum millifiski. Ef t. d. fiskurinn er verkaður á Vestfjörðum sem „Labrador“, þá er auðsætt, að það ber að fullverka hann hjer fyrir sunnan. En eins og nú er, þá er það aðeins tilviljunin, sem ræður því, hve mikið er verkað af fullverkuðum millifiski og hve mikið af „Labrador“. Það er mjög nauðsynlegt að hafa hjer mann, sem hefir heildaryfirlit yfir alt þetta og getur gefið mönnum upplýsingar, ef á þarf að halda.

Jeg get svo látið hjer staðar numið, enda var ekki fleira í ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem gæfi ástæðu til andsvara. Jeg efast ekki um það, að hv. þm. beri öðrum þdm. fremur skyn á þessi mál, þar sem hann hefir lengi fengist við fiskverslun og fiskverkun. En þeir menn eru þó hjer, sem standa hv. þm. (JÓl) mjög á sporði í þessum efnum, og vil jeg þar nefna t. d. hv. 2. þm. G.-K. Hann mun einna mest hafa fengist við fiskverslun allra þdm.