31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í C-deild Alþingistíðinda. (2949)

72. mál, fiskimat

Jón Ólafsson:

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) kom með það í fyrri ræðu sinni, að þessi maður, sem ferðast á um landið, ætti að segja fyrir um það, hve mikið skuli verka. En hann fjell nú frá því í síðari ræðu sinni og sagði þá, að hann eigi að safna skýrslum um, hvað mikið hafi verið verkað. Heldur er hann nú farinn að lækka í tigninni! En úr því hann á ekki að segja fyrir um verkunina, þá er hann með öllu óþarfur, því að Fiskifjelagið safnar skýrslum um það, hvað mikið hafi verið verkað.

Hv. 2. þm. G.-K. þarf jeg litlu að svara. Hann vill samræma matið með hraðferðum og hraðboða, en jeg og hv. þm. Borgf. viljum samræma það með festu, rannsókn og athugun. Það er þetta, sem skilur á milli. Hv. þm. kallaði okkur kyrstöðumenn í þessu máli. Það má náttúrlega kalla það kyrstöðu, að vilja ekki rasa fyrir ráð fram, en fara rólega að endurbótunum. Það er síður en svo, að alt sje fengið með þessum hraðboða. Málið er þess efnis, að til endurbóta á því stoðar lítt blástur og bægslagangur. þetta, sem flm. nú ber fram, sínum málstað til stuðnings, eru alt saman hugsjónir uppi í skýjunum, sem ekkert eiga skylt við veruleikann. Tillögur háttv. sjútvn. eru fæddur rindill, og sá rindill hefir ekkert þroskast við þessar umr. og skýringar flm., enda mun það heppilegast, að fyrir slíku örverpi liggi ekki að ná frekari þroska, heldur líði það burt sem kulnað skar.