31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

72. mál, fiskimat

Jón Ólafsson:

Það er algerlega rangt með farið hjá hv. þm. Ísaf. Jeg hafði alveg rjett eftir honum, endaskrifaði það niður, og því ekki um að villast. Hann hefir nú runnið af vígvellinum í þessu, svo sem mörgu öðru, málinu viðkomandi, eins og öll hv. nefnd, inn á einhverjar hugsjónatillögur.

Jeg vil benda hv. þm. N.-Ísaf. á það, að ekkert er því til fyrirstöðu, að hægt sje að senda menn úr öðrum fjórðungum landsins hingað til bæjarins til þess að læra hina rjettu verkun. Það held jeg, að öllum fiskimatsmönnum komi saman um, að þeir hafi ekki haft eins mikið gagn af neinu eins og því, að koma hjer saman. Þó að einhver fjórðungur kunni að vera óánægður með matsmenn sína, held jeg, að það hafi enga þýðingu að fara að senda einhvern flugumann um landið. Það er ómögulegt að koma samræmi á matið í fjórðungunum, sakir þess, að það er mikill munur fisktegunda, sem veiðist á hverjum stað og fiskurinn auk þess verkaður fyrir mismunandi markaði. Samræmi milli hinna ýmsu landsfjórðunga í fiskimati getur því í flestum tilfellum ekki verið að ræða um, og síst af öllu mundi það fást með slíkum farandmanni sem frv. gerir ráð fyrir.