31.03.1927
Neðri deild: 43. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í C-deild Alþingistíðinda. (2977)

72. mál, fiskimat

Sigurjón Jónsson:

Jeg skal vera fremur stuttorður. Tveir af nefndarmönnunum hafa þegar tekið svo margt fram af því, sem fram þurfti að taka. En áður en hv. þm. Borgf. talar í þriðja sinn, álít jeg rjett að koma fram með nokkur atriði, sem jeg hefi ætlað mjer að láta koma fram áður en málið fer út úr þessari hv. deild.

Jeg vil minna hv. þm. á, að eins og hv. 1. þm. S.-M. hefir tekið fram, er ekki svo mikill munur á afstöðu okkar til þessa máls eins og ástæða gæti verið til að ætla, eftir öllum þeim þjósti að dæma, sem hv. þm. (PO) hefir flutt sínar mótbárur með. Við erum sammála um, að full þörf sje á að samræma betur fiskimatið en gert hefir verið. Aðeins erum við ósammála um leiðirnar til þess að ná því takmarki. Jeg vil segja, að það var með öllu þarflaust hjá hv. þm., að tala um till. sjútvn. með þjósti og lítilsvirðingu og láta það jafnvel koma niður á þeim manni, sem settur verður matsstjóri, og kalla hann ,,farfugl“ eða .,ferðalang“. Jeg vil minna hv. þm. (PO og JÓl) á það, sem reyndar hlýtur að vera þeim ljóst, að í þetta starf hlýtur að verða valinn annaðhvort einn af núverandi yfirfiskimatsmönnum, eða maður, sem væri þeim ekki ófærari, að því er snerti fiskverslun og fiskimat.

Háttv. þm. Borgf. hefir minst á, að árekstur gæti orðið milli matsstjórans og yfirfiskimatsmannanna, þar sem valdsvið hans grípi inn á verksvið þeirra, og þeir muni ekki álíta sig þurfa að hlíta leiðbeiningum hans eða þeim tillögum, sem hann gerði, til samræmingar matinu. Þar til er því fyrst og fremst að svara, að bæði hv. þm. og við nefndarmenn göngum út frá og vitum, að okkar yfirfiskimatsmenn eru áhugasamir og samviskusamir í starfi sínu, og er því fullkomlega ástæðulaust að ætla, að þeir mundu ekki taka leiðbeiningum frá manni, sem stæði þeim fyllilega á sporði um þekkingu á fiskimatinu og fiskversluninni yfirleitt. Sje nú gengið út frá, að yfirfiskimatsmennirnir hefðu engan vilja á að færa sjer í nyt slíkar leiðbeiningar, til hvers væri þá, að þeir kæmu saman til þess að leiðbeina hver öðrum í samræmingu matsins. Nei, kapp er best með forsjá, og það dugar ekki að slá vopnin úr sjálfs sín hendi um leið og þau eru reidd að þeim tillögum, sem hnekkja á.

En nú eru enn aðrar og ennþá ljósari ástæður til þess, að árekstur milli matsstjórans og yfirfiskimatsmannanna getur ekki, eða á ekki að geta átt sjer stað, og eru það ákvæðin í 2. gr. frv. Þar stendur skýrum orðum, að matsstjórinn á að samræma matið, og hann á að leiðbeina yfirfiskimatsmönnunum í því skyni. Með þessu er beint sagt, að yfirfiskimatsmennirnir eigi að taka fult tillit til þeirra leiðbeininga, er matstjórinn gefur; með öðru móti er ómögulegt að fullnægja ákvæðum greinarinnar. Þegar til þess er litið, get jeg ekki sjeð annað en að gersamlega sje ástæðulaus sá kvíðbogi, er hv. þm. Borgf. ber fyrir árekstri milli matsstjórans og yfirfiskimatsmanna.

Þá hefir hv. 2. þm. G.-K. fært rjett og sterk rök að því, að leið sú, er nefndin leggur til, er heppilegri og öruggari til þess að ná sæmilegu marki. Er það hvorttveggja, að þar er óþarft að bæta á, og engu síður hitt, að þessi rök koma frá þeim manni, er áreiðanlega mun hafa mest til brunns að bera um þekkingu á allri fiskverslun hjer í hv. deild. Mun jeg því ekki koma nánar inn á það.

En jeg hafði frá byrjun hugsað mjer að láta mál þetta ekki fara svo út úr þessari hv. deild, að jeg ekki hefði lýst dálítið frekar en orðið er, hvað fyrir mjer vakir að geti orðið og eigi að vera verksvið þessa fyrirhugaða matsstjóra, auk samræmisstarfsins.

Eins og fiskimatinu er nú háttað hjá okkur, er enginn einn maður til á landinu hjá okkur, er hafi heildaryfirlit yfir, hve mikið af fiski á hverjum tíma er verkað fyrir Suður-Spán og hve mikið fyrir Norður-Spán. En mismunandi herslustig er eða á að vera á þeim fiski, sem ætlaður er á hvorn staðinn. Öllum hlýtur að vera augljóst, að það er ekki gott, að tilviljun ein ráði því, hvort eitt sumarið er verkað alt of mikið af fiskinum fyrir Norður-Spán, en of lítið fyrir Suður-Spán, eða öfugt. Í þessu efni ætla jeg matsstjóranum að geta gefið leiðbeiningar, þegar hann er vel kominn inn í starf sitt.

Enginn hefir heldur nú nokkurt heildaryfirlit yfir, hve mikið af fiski undir 20“ er verkað í fullþuran smáfisk eða millifisk, sem svo er kallaður, eða hve mikið af þessum fiski er verkað í svo kallaðan Labradorfisk. Hjer ræður tilviljunin ein, hve mikið er verkað í hvora tegund. Hjer er nú sannarlega ekki neitt lítið í húfi. Það hefir sýnt sig hvað eftir annað, að stundum er verkað alt of mikið í fullþuran smáfisk, en of lítið af sama fiski með Labradorverkun, og stundum hefir þetta verið alveg það öfuga. Get jeg t. d. sagt hv. þm. það, að enn liggja um 2000 skippund víðsvegar á Vesturlandi af fullverkuðum smáfiski og millifiski, sem ekki hefir

verið unt að selja. Það er verið að selja þennan fisk núna smátt og smátt, og geri jeg ráð fyrir, að verðmæti hans, ef hann væri rjett 2000 skpd., sje um 150 þús. kr. En ef þessi fiskur hefði verið verkaður sem Labradorfiskur, hefði hann nú fyrst og fremst verið löngu seldur og fluttur út, og það er óhætt að fullyrða, að fyrir hann hefði fengist 20–30 þús. kr. meira. En auk þess hefir verkunin á þessum fullverkaða fiski kostað minst 15 þús. kr. meira en ef hann hefði verið Labradorverkaður. Það munu nú allir mjer sammála um, að það er ekki gott, að tilviljunin ein ráði um þetta, og jeg vil taka það hjer skýrt fram, að jeg ætlast til, að matsstjórinn geti orðið mönnum til leiðbeiningar í þessu efni. Það er kanske ekki hægt að ætlast til, að svo verði allra fyrsta eða fyrstu árin, en við verðum að stefna að því, að girða fyrir, að mistök, svipuð og jeg hefi um getið, eigi sjer stað.

Eitt dæmið enn: Enginn hefir neitt heildaryfirlit yfir, hve mikið af „labra“ árlega er ¾-flatt eða alflatt. Jeg skal ekki fara nánar út í það hjer, en aðeins geta þess, að það getur valdið talsverðum verðmismun á þessum fiski, að tilviljun ein ráði ekki um þetta.

Í öllum þessum atriðum, sem jeg hefi nefnt, og fleirum, á matsstjóri að geta unnið fiskverslun okkar mikið gagn. Hann á að geta haft heildaryfirlit yfir margt það, sem yfirfiskimatsmennirnir hver um sig eingöngu geta haft í sínu umdæmi, en þessi atriði tel jeg svo mikils virði, að eingöngu þeirra vegna væri sjálfsagt að velja þá leið til samræmingar fiskimatinu, sem vjer nefndarmenn höfum valið.

Af því að hv. þm. Borgf. var hjer með vottorð upp á vasann, og af því að hann vildi vefengja ummæli Sveins Árnasonar, yfirfiskimatsmanns, ætla jeg að grípa hjer ofan í brjef frá honum, þar sem hann lætur í ljós þá ósk, að fá matsstjóra og bendir á fordæmi Norðmanna í því efni. Því miður verðum við að viðurkenna, að þeirra yfirstjórn er fullkomnari en okkar, og er þar full ástæða fyrir okkur að gæta okkar. Í brjefinu segir svo: „. . . . hitt væri eðlilegra, að bætt yrði við stofnunina matsstjóra yfir alt landið, og gæti starf hans þá máske náð til mats á öllum sjávarafurðum . . . . “ Hann hugsar sjer þetta svona yfirgripsmikið.

Einnig vil jeg benda hv. þm. á grein, sem birtist í dagblaðinu „Vísi“ 21. febr. 1927, eftir Sveinbjörn Egilson, sem ákveðið leggur með því, að fá einn matsstjóra. Sveinbjörn Egilson er sá maður, sem jeg vil segja manna mest hefir hugsað um sjávarútvegsmál okkar og lagt þar margt þarft orð í belg. Hann hefir einnig skrifað mjer í „privat“-brjefi, sem jeg hefi hjer á mjer, að hann vonist til, að tillögur sjútvn. nái fram að ganga, en ekki till. hv. þm. Borgf.