01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3159)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Klemens Jónsson:

Enda þótt jeg sje ekki sjerstaklega mótfallinn þessari þáltill., er jeg í vafa um, hvort rjett muni að samþykkja hana núna. Vil jeg í því sambandi fyrst benda á, að hjer er aðeins farið fram á áskorun frá neðri deild, og er hv. efri deild því að engu leyti bundin af þeirri áskorun. og það hefir jafnvel komið fyrir, að þegar deild hefir samþykt tillögu um að láta endurskoða einhver lög, og stjórnin hefir orðið við því og borið fram frv. um efnið, þá hefir sú sama þingdeild eigi viljað fallast á að breyta neitt hinum gömlu lögum. T. d. var fyrir nokkrum árum samþ. í annari þingdeildinni þál. um að skora á stjórnina að endurskoða vinnuhjúalögin. Stjórnin tók því vel og ljet semja ítarlegt frv. til laga um efnið, sem lagt var fyrir hið háa Alþingi 1923. En þá var það felt, og aðalmótbáran gegn frv. var sú, að gamla hjúatilskipunin væri fullgóð enn. Verð jeg að segja, að það væri hart fyrir landsstjórnina að undirbúa nú á ný ítarlegt lagafrv. um þetta efni, en eiga svo á hættu, að alt sje felt á næsta þingi. Er enn þá óheppilegra að samþ. till. nú fyrir þá sök, að kosningar standa fyrir dyrum. Má búast við, að næsta þing verði að einhverju meira eða minna leyti skipað nýjum mönnum, og er það þá enn óbundnara við ályktanir þessa þings en ella. Þó að till. sjálf sje í eðli sínu rjettmæt, hygg jeg ekki rjett að samþykkja hana að þessu sinni af þessum ástæðum.

Þá langar mig til að minnast ögn á 3. lið till., sem mjer virðist vera aðalatriði hennar. Verð jeg að segja, að hv. flm. hafa mikið til síns máls um bygðarleyfin. Það er kunnugt, að áður höfðu sveitarstjórnir vald til að banna mönnum að setjast að innan umdæma þeirra, og var því valdi óspart beitt, einkum þar sem aðstreymi fólks var mest, svo sem hjer í Reykjavík. Er mjer kunnugt um það af gerðabókum bæjarstjórnar frá fornum tíma, að fjölda manna var synjað bygðarleyfis, og þar á meðal ýmsum, sem síðar urðu mjög merkir menn. Var þessu svo stranglega beitt, að fram yfir 1860 þurftu jafnvel innfæddir menn að tilkynna bæjarstjórn, að þeir ætluðu að setjast að í bænum, eða jafnvel sækja um leyfi til þess. Þetta varð að vonum óvinsælt hjá þjóðinni og lyktaði með því, að um leið og vistarbandið var leyst fyrir 30 árum var þetta vald sveitarstjórna og afnumið.

En síðan hafa komið fram nýjar kröfur, sem gera það vafasamt, hvort ekki þarf að taka til þessa á ný. Er það meðal annars ein af aðalkröfum verkamannaforingjanna, að jafnskjótt og einhver er kominn inn í kaupstað eða sveit, sje sveitarstjórnin skyld að sjá honum fyrir atvinnu. Nú er það svo, að eftir lögum 22. nóv. 1907, um lausamenn, húsmenn og fl., þurfa menn aðeins að skýra lögreglustjóra frá, að þeir ætli að setjast að, og sanna fyrir honum, að þeir eigi vissan bústað eitt ár að minsta kosti (10. gr. laganna). Þó er víst ekki farið of stranglega í þær sakir, því að eftir því sem jeg veit best er algengt, að menn komi hingað til bæjarins og setjist hjer að, án þess að hafa trygt sjer annan bústað en einhverja kjallaraholu í nokkrar nætur. — Ef þeir eru þá þegar orðnir lögmætir borgarar og eiga kröfu á, að bæjarstjórn sjái þeim fyrir vinnu, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að nauðsyn sje á, að bæjarstjórn megi hafa hönd með í bagga um það, hverjir til bæjarins flytjast. Gæti það hæglega annars leitt til stórvandræða fyrir bæjarfjelagið. Hjer hefir það komið fyrir, að bæjarstjórn hefir orðið að útvega fjölda manna atvinnu, og getur það hæglega endurtekið sig, jafnvel í enn stærra stíl. Af þessum ástæðum virðist mjer rjett að samþykkja 3. lið tillögunnar, sem ekki fer fram á annað en að athuga, hvort eigi sje tiltækilegt að setja ákvæði um bygðarleyfi í lög. En þó er jeg hálfhræddur, að það komi ekki að gagni að þessu sinni að samþykkja till., af þeim ástæðum, sem jeg hefi áður talið. Væri þó fróðlegt að heyra frá hæstv. landsstjórn, hvort hún teldi sig geta undirbúið slíkt lagafrv. fyrir næsta þing.