24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í D-deild Alþingistíðinda. (3454)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Klemens Jónsson:

Jeg get tekið undir það, sem sumir hv. þm. hafa sagt, að þetta mál er orðið hálfgert vandræðamál, þótt jeg fallist ekki á að hjer hafi verið um krókaleiðir að ræða.

Þó verð jeg að taka það fram, að jeg skil ekki, hvers vegna hæstv. stjórn hefir borið þetta mál undir rektor mentaskólans, því að þangað átti það ekkert erindi, og get jeg ekki heldur sjeð, að honum hafi komið það neitt við, hvort gagnfræðaskólinn á Akureyri útskrifar stúdenta eða ekki. Aftur á móti álít jeg ekki nema rjett og sjálfsagt að leita álits háskólaráðsins, eins og gert hefir verið. Háskólinn er sá aðili, sem taka verður tillit til, þegar um er spurt, hvort þessir stúdentar fái inntöku í hann eða ekki.

Það var auðsjeð í upphafi á þinginu 1924, hvert stefna mundi, þá var fingrinum stungið inn, og höndin hefir fylgt á eftir. Síðan hefir á hverju þingi verið veitt fje til framhaldsnáms við skólann á Akureyri, svo að þingið á beinlínis sök á því, að þessi þál. er fram borin til þess að ráða bót á því, sem þegar hefir láðst að gera. Því að eftir gangi málsins á undanförnum þingum eiga þessir piltar, sem notið hafa framhaldsnámsins, rjett til þess að taka stúdentspróf norður frá. Annars held jeg, að flm. þessa máls hefðu átt að fara aðra og heppilegri leið, sem sje þá, að bera fram frv. um sjerstaka lærdómsdeild við Akureyrarskóla. Þetta er orðið svo mikið metnaðarmál Norðlendingum, að þeir gera sig ekki ánægða með minna og hætta ekki fyr en þeir hafa fengið heimild til þess að útskrifa sína stúdenta frá sínum eigin lærða skóla.

Þetta er ekki heldur nýtt mál þar norður frá. Stefán heitinn Stefánsson skólameistari var mikill hvatamaður þessa máls og ljet sig það miklu skifta. Jeg á í fórum mínum mörg eldheit áskorunarbrjef frá honum um að styðja þetta mál. En jeg sá mjer það ekki fært, meðal annars vegna þess, að mjer hraus hugur við hinni miklu stúdentaviðkomu, sem altaf var að aukast, og vildi ekki verða þess valdandi, að stefnt væri í óefni með frekari fjölgun stúdenta. En nú er svo komið, að ekki verður lengur hægt að spyrna á móti broddunum. Einhver úrræði verður að finna, hjá því verður ekki komist.

Um það hefir verið deilt, hvort háskólanum beri skylda til að taka á móti þessum stúdentum, og sumir hafa haldið því fram, að úr því yrði aðeins leyst með dómi. Jeg geri ekki ráð fyrir, að stúdentar komi suður í haust og heimti sig setta inn í skólann með fógetavaldi. En þá er að fara í mál, og það tekur altaf sinn tíma. En eftir skilningi mínum á háskólalögunum býst jeg ekki við, að dómstólamir líti svo á, að Akureyrarskólinn hafi rjett til þess að útskrifa stúdenta samkv. fyrirmælum 17. gr. háskólalaganna, og tel jeg því eins víst, að piltar mundu tapa slíku máli. En hitt finst mjer geta komið til mála, að ef hæstv. stjórn vildi á góðfúslegan hátt taka máli þessu og með velvildaraugum líta á 17. gr. háskólalaganna, þá mundi hægt að leiða þetta mál svo til lykta, að allir gætu við það unað. Ef hæstv. stjóra vildi gefa út reglugerð um stúdentspróf við Akureyrarskólann og sendi menn hjeðan úr bænum til þess að vera við prófin, þá þykist jeg vita, að háskólinn mundi reynast velviljaður og sjá sjer fært að veita stúdentunum upptöku. Þá yrðu skilyrðin að vera hin sömu og við stúdentspróf hjer. Jeg skýt þessu aðeins fram, hæstv. stjórn til athugunar, en í þeirri von þó, að hjer sje fundin leið út úr ógöngum þeim, sem mál þetta er komið í.

Það hefir verið minst á það í dag, að menn hafi verið útskrifaðir utanskóla og reynst prýðilega. Sjerstaklega hefir verið nefndur einn af ágætustu mönnum þjóðarinnar, sem svo stóð á um. En það má nefna fjölda af nýtustu mönnum þjóðarinnar, sem líka hafa tekið slíkt próf utan við alla lærða skóla.

Hæstv. atvrh. (MG) mintist á, að þessir menn hefðu ekki orðið „akademiskir“ borgarar, nema með því að taka aftur próf og þá við einhvern háskóla. En þeir gátu sótt um embætti, t. d. orðið prestar, án þess að taka próf við neinn háskóla. Jón Sigurðsson hefði getað sótt um brauð og hefði eflaust fengið það, ef hann hefði kært sig um, þó hann hefði aðeins stúdentspróf utan skóla.

Jeg sje ekki, að við getum lengur spyrnt á móti þessum broddum, og jeg sem gamall Norðlendingur þekki vel hug þeirra norður frá og veit, að þeir munu aldrei hætta fyr en þeir hafa fengið sinn lærða skóla, hliðstæðan mentaskólanum hjer. Þess vegna mun jeg greiða till. atkvæði og með því stuðla að því, að málið þokist inn á rjetta leið.

En þó að svo fari, að bæði þáltill. og rökstudda dagskráin falli, sem vel getur komið fyrir, eins og ástatt er í deildinni, þá mundi jeg telja stjórnina vítalausa fyrir það að veita stúdentaefnunum ferðastyrk hingað suður og dvalarstyrk hjer á meðan á prófinu stendur, enda væri það ekki nema bein afleiðing af því, hvernig málið hefir verið rekið á undanförnum þingum.