05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

85. mál, friðun hreindýra

Klemens Jónsson:

Það er einmitt þetta, sem jeg ætlaði að minnast á, að það er nauðsynlegt að vísa málinu til nefndar. Það eru nú komnar fram svo margvíslegar brtt. við þetta frv., að það veitir ekki af, að það sje athugað í nefnd, og af því að jeg geri ráð fyrir, að það verði gert, þá vil jeg beina því til hv. nefndar að taka það til ítarlegrar athugunar, og þá yfirleitt, hvort nauðsynlegt sje að friða hreindýrin. Jeg held ekki, að hv. þm. sje það fullljóst, hvort það sje nokkur þörf á því að friða þau eða ekki, og á jeg þá sjerstaklega við, ef svo skyldi reynast, að hjer væri mjög mikið af hreindýrum. Eins og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, var það tilætlun stjórnarinnar árið 1776, þegar hreindýr voru flutt hingað til landsins, að þau yrðu notuð eins og í norðanverðum Noregi og á Lappmörk, en það mistókst alveg; þau ljetu ekki temja sig og fóru til fjalla þegar voraði. Þegar tilskipunin um veiði frá 1849 var til meðferðar á Alþingi 1847, var sú tillaga borin fram, að það skyldi mega elta og drepa hreindýr, þótt það væri í annars manns landi, sem þó var andstætt lögum, nema um skaðlegar skepnur væri að ræða. — Ástæðan til þessa ákvæðis var sú, að hreindýrin, sem þá aðallega hjeldu sig inni á öræfum í Þingeyjarsýslum og Múlasýslum, þóttu gera oft mikinn usla, er þau komu niður í bygð, einkum á vorin, og það kvað svo ramt að því, hve mikinn usla þessi dýr gerðu, að það reis upp hver þm. af öðrum og kvartaði yfir þeim, einkum af Austurlandi, og lýstu því, að þau gerðu mjög mikinn skaða. T. d. segir einn þm. úr Norður-Múlasýslu: „Jeg álít, að þau sjeu ekki ranglega sett í flokk óargadýra, vegna þess að þau gera svo mikinn skaða“. Og sama kveður við hjá Jóni Sigurðssyni; hann segir, að það sje engin ástæða til að arta meira upp á þessa dýrategund hjer á landi, úr því að ekki lánaðist það, sem upphaflega var til ætlast, að rækta þau. Þar sem þessum vitru mönnum hefir alls ekki þótt nauðsynlegt að friða þau, heldur miklu fremur hið gagnstæða, virðist ekki óeðlilegt að taka til athugunar í nefnd, hvort nauðsynlegt sje að friða hreindýr eða ekki, og þá að reyna að afla upplýsinga um það, hve mikið sje til af hreindýrum hjer á landi. Jeg myndi ekki kunna við að greiða atkvæði með því, að þau væru upprætt, en hitt vildi jeg láta athuga, hvort ekki mætti nægja að gera einhverjar aðrar ráðstafanir, og vil jeg því biðja hv. allshn., sem málinu verður sennilega vísað til, að taka þetta til athugunar.