26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsin. (Klemens Jónsson):

Jeg hefi ekki ástæðu til að svara miklu fyrir hönd nefndarinnar, því að eiginlega voru þau ummæli, sem hv. 4. þm. Reykv. kom með, meira til hæstv. stjórnar heldur en til nefndarinnar. En þar sem hv. þm. (HjV) byrjaði á því að segja, að það hefðu altaf verið loforð um afnám, sem svo hefðu verið svikin, þá kannast jeg ekki við, að það sje rjett. Það má vel vera, að það hafi verið sagt, að þessi tollur myndi verða upphafinn eins fljótt og hægt væri. (HjV: Loforðið stóð í lögunum). Það má kannske fá það út úr því, fyrst miðað var við sterlingspundið, að þarna væri um bráðabirgðaráðstöfun að ræða en ákvæðinu var breytt og lögin gerð tímabundin, í staðinn fyrir að miða við sterlingspund, og bendir það á, að þar hafi verið um meira en bráðabirgðaráðstöfun að ræða. En hvað sem öllum loforðum líður, þá verður þörf ríkissjóðs að sitja í fyrirrúmi.

Þá sagði hv. þm. (HjV), að því hefði verið lofað á þingmálafundum að afnema þessi lög. Jeg skal ekkert um það segja; jeg hefi ekki verið á þingmálafundum hjer í Reykjavík, en jeg hefi sjálfur átt þingmálafundi með kjósendum mínum og ekkert loforð gefið um það. En hitt er annað, að kjósendur bæði þar og annarsstaðar hafa látið þá ósk í ljós, að þessi skattur yrði afnuminn svo fljótt sem unt væri, en þó hygg jeg það um aðra skatta, sem lagðir hafa verið á síðustu árin, að þess hafi engu síður verið óskað, að þeir væru afnumdir, því að jeg hefi ekki orðið þess var, að hann væri neitt óvinsælli en aðrir skattar.

Þá gat hv. þm. (HjV) þess, að þetta frv. hefði komið svo seint fram, að það hefði varla verið tími fyrir hv. þingmenn til að átta sig á því, vegna anna í þinginu. Jeg skal geta þess, að það hefði verið rjett af hæstv. forsrh. (JÞ) að geta þess, þegar fjárlögin komu fram, að frv. væri bygt á þessum lögum, en mjer blandaðist ekki hugur um það, að tekjuhlið fjárlaganna hlaut að vera bygð á gildandi skattalögum, og þar á meðal á þessu, og jeg hygg, að þeim þingmönnum, sem gera sjer nokkra grein fyrir því, hvernig tekjuáætlunin er gerð, hafi ekki getað dulist það. Og því er mjer í raun og veru sama um það, hvort þetta frv. kemur fram fyr eða seinna, og jeg fann enga ástæðu til að fara að benda á þetta í framsöguræðu minni.

Jeg geri ráð fyrir, að þessi lög verði í gildi áfram, svo lengi sem þörf er á þeim sömu tekjum og nú er farið fram á, og jeg benti á það í framsöguræðu minni, að annaðhvort yrði að draga úr öllum verulegum verklegum framkvæmdum hjer á landi, eða að það yrði að afla ríkissjóði tekna á einhvern annan hátt. En það verð jeg að halda, án þess þó að jeg viti það, að þar sem hv. þm. (HjV) talar um aðrar leiðir í þessu máli, þá tali hv. þm. þar eftir þeim skoðunum, sem hann hefir á stjórnmálum, því það eru vitanlega til aðrar leiðir en tollaleiðin, og jeg veit, að hv. þm. (HjV) og hans flokkur vilja fara aðra leið; það er með því að leggja á beina skatta. En það er nú ekki svo auðvelt að búa til skattafrv. í þá átt, og að minsta kosti hefir hv. þm. (HjV) og hans flokkur ekki komið með tillögu í þá átt. Jeg veit, að því hefir verið haldið fram áður — jeg held, að það hafi verið í blaði flokksins árið 1923 eða 1924, — að það væri merkilegt, að 42 þingmenn gætu ekki fundið ráð til að útvega landinu tekjur, úr því að einn þingmaður þeirra gæti það. Jeg var ráðherra þá og skoraði á þann hv. þm. (JBald) að koma fram með þær till., en mjer vitanlega hefir hann ekki gert það, og það er þess vegna alveg ástæðulaust fyrir mig að fara að ræða um það við hv. þm. (HjV) hjer í þessari hv. deild, hver muni vera heppilegasta leiðin í þessum efnum, því að það mál liggur í rauninni alls ekki fyrir til umræðu.