07.03.1927
Neðri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

58. mál, bankaábyrgð fyrir Landsbanka Íslands

Frsm. (Klemens Jónsson):

Jeg get verið stuttorður, því að af hálfu fjhn. er ekki svo mikið að segja á þessu stigi málsins. Fjhn. bar þetta frv. upphaflega fram eftir beiðni hæstv. fjrh. (JÞ). Hann lofaði við 1. umr. að skýra fjhn. Alþingis frá nánari atriðum viðvíkjandi láninu, svo sem hjá hvaða banka það yrði tekið, upphæð lánsins og lánskjörin. Þetta gerði hann fyrir helgina, og eftir að hann hafði gefið skýrsluna, átti fjhn. Nd. fund og samdi brtt. við frv. Sú brtt. var aldrei borin formlega undir atkvæði og var ekki mjög frábrugðin brtt. á þskj. 114. Þar var tilnefnd upphæð sú, sem heimilað var að ábyrgjast. En síðan hefir fjhn. komist að því, að stjórn Landsbankans er ver við, að slík upphæð væri nefnd. Það hefir aðallega verið fundið að frv. á þskj. 86, að stjórninni væri með því gefin ótakmörkuð heimild til þess að ábyrgjast lán. Þetta vildi fjhn. fyrirbyggja, með því að nefna upphæðina, en Landsbankastjórninni þótti ekki ráðlegt að tiltaka lánsupphæðina í lögunum. En jeg hefi í höndum yfirlýsingu frá hæstv. fjrh. um, hvaða takmörk stjórnin hafi fyrir augum, og má færa hana inn í gerðabók fjhn. Það álítur nefndin nægilega tryggingu. Ráðherrann getur ekki ábyrgst hærri upphæð en þar er tiltekin, og þar er nafn bankans líka tilgreint, svo að ráðherrann getur ekki ábyrgst lánið hjá öðrum banka.

Það er rjett, sem hv. þm. Str. (TrÞ) tók fram, að fjhn. hefir ekki átt kost á því að halda formlegan fund um þetta í dag, en meiri hl. fjhn. kom þó saman á örstuttan fund í fundarbyrjun, og get jeg lýst yfir því, að meiri hl. fjhn. mun hallast að brtt. hæstv. fjrh. En annars geri jeg ráð fyrir, að umr. um þetta mál verði frestað og þá gefist fjhn. kostur á að athuga þetta mál nánar, og skal því ekki fara fleiri orðum um þetta að svo stöddu.