15.04.1930
Sameinað þing: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

327. mál, lóðir undir þjóðhýsi

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki um það dæma, hver nauðsyn rekur Alþingi til að fara að láta ríkið ná eignarhaldi á ákveðnum lóðum hér í Reykjavík. Hitt er raunar alkunna, að ríkið á töluvert af góðum lóðum, sem eru taldar ákjósanlegar fyrir þær byggingar, er reisa þarf á næstu árum. Þar fyrir er ekki því að neita, að þessi staður er mjög góður fyrir „þjóðhýsi“, en svo munu opinberar byggingar vera nefndar í till. þessari, er hér liggur fyrir. En þar eð nóg er landrýmið og aðrir staðir litlu lakari, er þó ekki miklu kostandi til að ná í þessa lóð. Hitt nær vitanlega engri átt, sem hv. aðalflm. sagði, að staðurinn gengi úr eign Íslendinga, þótt ríkið kaupi hann ekki. Ég veit ekki betur en að þessar 3 húseignir séu allar í eigu Íslendinga nú, og sé engar horfur á, að þær hætti því. (BSv: Úr eign íslenzku þjóðarinnar:). Það er ekki heldur rétt, að einstakir menn, sem þarna koma til með að byggja, séu sjálfráðir um, hvernig þeir gera það, þótt þeir eigi lóðirnar. Nú eru einmitt á ferðinni allskonar skipulagsuppdrættir o. þ. h. Er mér kunnugt um, að úti um land mega menn ekki reka nagla eða festa fjöl án þess að það fari allt eftir settum reglum. Þá má nærri geta, hvert frjálsræðið er hér. Hér er það svo, að aðeins ákveðnir menn mega reisa hús, og ættu allar þessar hömlur og reglur að nægja til að tryggja það, að ekki verði á þessum stað komið upp öðrum húsum en þeim, sem fullnægja nokkurnveginn fegurðarsmekk manna.

Annars finnst mér viðaukatill. þeirra hv. þm. N.-Þ. og hv. 1. þm. Árn. fara alveg í bága við þingsköp, a. m. k. fyrri hluti hennar. Þar er sagt, að Alþingi heimili ríkisstj. að festa kaup á ákveðinni eign, og þar með auðvitað að greiða fyrir hana fé úr ríkissjóði. Nú segir svo í 4. mgr. 29. gr. þingskapa :

„Þingsályktunartillögur, sem fara fram á útgjöld úr landssjóði, skal jafnan bera upp í báðum deildum og hafa tvær umr. um þær“.

Það er því alveg auðséð, að fyrri hluti viðaukatill. er brot á þessu ákvæði þingskapa, þar sem aðeins er ráð fyrir gert að samþykkja hana í annari deildinni.

Síðari hluti till. er áskorun til ríkisstj. um að gefa út bráðabirgðalög. Þetta er hæstv. stj. vitanlega heimilt að gera, og það án nokkurra áskorana frá Alþingi, ef það skilyrði er fyrir hendi, að almenningsþörf krefji. En mér finnst það varhugavert fyrir Alþingi að ýta undir stj. að beita bráðabirgðalögum, sem vitanlega eiga að vera hrein undantekning. Það hefði þá verið miklu aðgengilegri aðferð að setja hér lög um að framkvæma eignarnám á lóðinni, og það því fremur, sem það liggur skjalfast fyrir, að samningar munu ekki geta tekizt.

Eigandi lóðar þeirrar, sem hér ræðir um, er K. F. U. M., og er forstöðumaður þess félagsskapar séra Friðrik Friðriksson, eins og kunnugt er. Leikur það ekki á tveim tungum, að starfsemi hans hefir orðið til mikils gagns hinni íslenzku þjóð. Hefir hann glætt göfugan anda eftir því, sem áhrif hans hafa náð til, og það mikið út yfir sinn eiginn söfnuð. Finnst mér því mikið álitamál, hversu langt Alþingi á að ganga í því að ráðast á fyrirhugaðar framkvæmdir þessa félagsskapar og forstöðumanns hans.