15.04.1930
Sameinað þing: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3431)

327. mál, lóðir undir þjóðhýsi

Gunnar Sigurðsson:

* Ég var flm. að svipaðri till. í fyrra og er þessu eindregið fylgjandi enn. Þetta er til að leiðrétta gömul afglöp, sem gerð voru þegar þessar lóðir voru látnar af hendi.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ríkið ætti Arnarhólslóðirnar og að þær væru ekki óveglegri en þetta. En þetta eru allra fegurstu lóðir bæjarins og upplagðar til að hafa þar samfelldar byggingar. En slíku er ekki að treysta, nema ríkið eigi lóðirnar og láti sjálft byggja á þeim. Eins og Reykjavík sýnir, þá er eftirlitið mjög lélegt hér um skipulag bygginga, og ef eftirlitið hefði verið eins og vera bar, þá hefðu þessar lóðir aldrei verið látnar af hendi til einstakra manna. Þetta er fegursti staður bæjarins, vegna brekkunnar, sem nær frá læknum og upp að þessari húsaröð.

Mér kom það nokkuð spanskt fyrir, að það var að heyra, sem hv. þm. Borgf. þætti fyrir, að eitthvert sérstakt trúbragðafélag fengi ekki að byggja þarna.

En ég álít, að alþjóðarþörf eigi að ganga fyrir þörf einhvers trúbragðafélags, einkum þegar á það er litið, að ríkið átti alltaf að eiga þessar lóðir.

Hv. 3. landsk. talaði um, að þetta svæði væri of mjótt fyrir opinberar byggingar. Ég held, að svo þurfi ekki að vera. Og þetta pláss er meira virði fyrir ríkið vegna opinberra bygginga en það er fyrri Reykjavíkurbæ. Hér þarf að bæta úr gömlum afglöpum. Og þótt það kosti ríkið nokkrar þúsundir króna, þá tel ég þeim vel varið.