15.04.1930
Sameinað þing: 8. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

327. mál, lóðir undir þjóðhýsi

Ólafur Thors:

Ég er einn af flm. þessarar till. Og þær umr., sem fram hafa farið, hafa ekki sannfært mig um það, að ekki sé rétt, að ríkið eignist þessar lóðir. Þetta er einhver glæsilegasti staðurinn í bænum og einkar vel fallinn fyrir opinberar byggingar. Stjórnarráðið er þarna öðrumegin, en menntaskólinn hinumegin. Staðurinn liggur við miðpunkt bæjarins. Og fegurð þessa hluta bæjarins væri áreiðanlega bezt borgið með því, að þarna kæmu opinberar byggingar. Hv. 3. landsk. áleit lóðirnar of mjóar fyrir opinberar byggingar. En ég hygg, að það fari eftir því, hvaða byggingar yrðu reistar þarna. Ég held, að þarna mætti fá nóg rúm fyrir t. d. alþingishús, háskóla eða jafnvel stjórnarráðshús eða bústað æðsta valdamanns landsins. Ég held því, að þetta sé engin veruleg mótbára. Aðalatriðið er, að þetta er staður, sem fegurð bæjarins heimtar, að notaður verði undir glæsilegar byggingar.

En þrátt fyrir það, að ég tel mjög æskilegt, að ríkið eignist þessar lóðir, þá eru þó takmörk fyrir því, hversu langt ég vil ganga í því að ríkið eignist þær. Og ég vil ekki ganga svo langt, að séra Friðríki Friðrikssyni sé neitt gert til miska, eða að K. F. U. M.-lóðin sé tekin að honum nauðugum. — Mér þykir það mjög leitt, að hv. þm. N.-Þ. skyldi leyfa sér að fara háðulegum orðum um séra Friðrik, því hann er sá maður, sem þjóðin ætti að elska og virða umfram flesta eða alla núlifandi Íslendinga. Að vera að tala í glensi um séra Friðrik í sambandi við brauðsnúða og stutta göngu í mat, er ósæmilegt og óþolandi hér á Alþingi Íslendinga. Hygg ég, að þessi tónn í orðum hv. þm. stafi af því, að hann þekkir ekki séra Friðrik Friðriksson. Ég vil ráða hv. þm. til að lesa æfisögu séra Friðriks, sem hann hefir ritað sjálfur. Ég hefi lesið hana, og það er einhver fegursta bók, sem ég hefi lesið. Maður finnur það, að allt, sem hann segir þar um sjálfan sig, er satt og rétt. Fegurðin og góðmennskan skín út úr hverri línu. Og séra Friðrik er áreiðanlega sá mesti æskulýðsleiðtogi, sem við höfum eignazt, og þótt víðar væri leitað. Hann hefir þau tök á æskunni, að þess eru ekki dæmi hér á landi að fornu né nýju, svo sögur fari af. Séra Friðrik er bæði í mínum augum og margra annara alveg óvenjulegur maður, og ég er sannfærður um, að hv. þm. N.-Þ. fyndi til þess, ef hann ætti annan eins pólitískan leiðtoga eins og séra Friðrik er mikill og góður leiðtogi æskulýðsins. Ég býst við, að það sé samhuga álit allra manna, sem þekkja séra Friðrik, að óeigingjarnari mann getur ekki en hann. En hv. 1. flm. þessarar till. hefir á óviðeigandi hátt ruglað óeigingirni séra Friðriks saman við þetta mál. Hann kvað hér eiga í hlut kristna menn og sanngjarna, og mundi þeim vera sársaukalaust, hvort þeir byggðu guði musteri sitt á einum stað eða öðrum. En hv. þm. verður að gæta að því, að það kemst enginn maður undan lögmáli fjármálanna. K. F. U. M. þarf eins og aðrir fé til sinnar starfsemi. Og það, sem sérstaklega vakir fyrir félagsmönnum, er það, að þessi staður er sérstaklega vel fallinn til þess að hafa þar verzlunarbúð, sem þeir hyggjast að hafa ágóða af til að létta undir sína starfsemi. Þetta er alveg rétt álitið. En í þessu liggur kannske einhver von um það, að komast megi að samningum, ef þeim er gefið það tilboð, sem liggur ekki mjög fjarri þessu skilyrði og öðrum, sem félagsmenn telja, að staður fyrir starfsemi sína þurfi að hafa.

Málið liggur nú þannig fyrir, að mætur málafærslum, hefir skrifað félaginu og kveðst hafa fengið það svar bréflega og munnlega, að með því að ekki sé boðinn fram neinn sambærilegur staður, þá sé þessi staður ekki falur. Í þessu liggur ekki vonleysi um árangur þessara umleitana, heldur er þvert á móti gefið undir fótinn, að ef sambærilegur staður er í boði, séu skipti fáanleg. Ég get nefnt tvo ágæta staði, sem mér dettur í hug að órannsökuðu máli, að K. F. U. M. mundi sætta sig við. Annarsvegar er lóð sú, sem liggur fyrir vesturenda Austurstrætis, þar sem er hús Guðmundar Bjarnasonar klæðskera. Hinn staðurinn er þar, sem hús Hannesar Thorsteinssonar fyrrv. bankastjóra er. Báðir staðirnir eru hentugir, ef miðað er við arð af sölubúð á neðstu hæð. Ég bendi á þetta aðeins til að sýna, að það er engin ástæða til að vera vonlaus um, að samningar náist. Það liggur ekkert fyrir, sem sýni, að samningar hafi verið sóttir af neinni alúð, hvorki af hæstv. stj. né málafærslumanninum né af hæstv. forseta Nd. En ég skal segja það, að þó að vonir manna yrðu að stranda á því, að K. F. U. M. og séra Friðrik vildu ekki láta staðinn, þá mundi ég aldrei ljá lið mitt til þess að Alþingi votti séra Friðríki þá viðurkenningu fyrir starf sitt, að það tæki þann stað, sem hann hefir sérstaklega valið fyrir starfsemi sína framvegis og síns félags. Það væri vel við eigandi fyrir þingið á þúsund ára afmæli sínu, eða hitt þó heldur; að fara svo að við hinn mætasta íslenzka æskulýðsleiðtoga, sem sögur fara af bæði fyrr og síðar. Ég er hér ekki að tala af neinum trúarákafa — ég er alveg ofstækislaus í þeim efnum eins og flestum öðrum —, en það snertir mig þó, þegar drengskaparmaður eins og hv. þm. er fer næstum lítilsvirðandi orðum um þann ágætasta mann í okkar þjóðfélagi. Og um viðbótartill., sem fram er komin, er það að segja, að ég uni því illa að ganga á rétt svo mæts manns sem hér á hlut að máli með þáltill. Jafnvel þótt fáist meiri hl. þingsins fyrir slíku illdæði, þá er það engin sönnun þess, að samþykki hefði náðzt í báðum deildum þingsins. Ég ætla því í lengstu lög að vona, að þeir, sem eru einlægir stuðningsmenn þessarar aðaltill., láti sér nægja að byggja á voninni um samninga við séra Friðrik, og reyni sjálfir að vinna að því, að sú von rætist. Ég skal ekki láta á mér standa að gera allt, sem ég get, til þess að ná samningum.