17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (3542)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Ólafur Thors:

Það er skoðun mín á þessu máli, og með hana fer ég ekki leynt, að það væri undarleg gestrisni af hv. þm., sem sjálfir hafa notað vín takmarkalaust í veizlum sínum, ef þeir í fyrsta skipti, sem þeir hafa gestaboð, banna að veita gestunum vín, sem þeir eru þó vanir að nota með mat og mörgum þeirra mun þykja meira um vert en matinn sjálfan.

Ég tel það ekki hv. þm. sæmandi að taka sig saman um að veita ekki gestum sínum, sem þeir bjóða heim, þau gæði, sem þeir sjálfir njóta og sem þeir vita, að gestunum þykir mikils um vert.

Ég ber það traust til okkar þm., að við getum farið svo með vín, að verða okkur ekki til minnkunar, og ekki þarf að efa, að hinir útlendu gestir vorir kunni sér svo hóf, að þeir valdi engum hátíðarspjöllum. (HG: Það dettur engum í hug að halda því fram). En ef bæði okkur og gestunum er fullkomlega treystandi, þá er þessi till. ekki annað en bábilja. Hv. þm. þarf ekki að detta það í hug, að þeir komi í veg fyrir drykkjuskap annara Íslendinga með þessum ákvæðum. Ég tel ekki vansalaust að neita gestunum um þær góðgerðir, sem við metum mikils, en sem þeir þó eru vanari. Greiði ég því atkv. á móti þessari till.