17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (3543)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Pétur Ottesen:

Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki að ástæðulausu, að þessi till. er fram komin, og þó hún væri samþ. Ég álít það nauðsynlega varúð að takmarka vínsölu meðan hátíðin stendur yfir, og því beri að gera ráðstafanir til þess. Um hitt atriðið, að veita skuli ekki vín í opinberum veizlum, vil ég benda á, að það er engin breyt. frá því, sem nú er, þegar íslenzk stjórnarvöld taka á móti erlendum gestum. Hæstv. forsrh. mun aldrei veita vín við slík tækifæri. Ég býst við, að við það tækifæri, sem hér er um að ræða, muni hæstv. forseti Sþ. koma fram fyrir landsins hönd, í veizlum, er þingið heldur gestum sínum, og að því beri fremur að snúa sér til hans nú. Vil ég fastlega skora á hann að feta að því er þetta snertir í fótspor hæstv. forsrh., sem, að því er ég bezt veit, hefir aldrei veitt gestum sínum áfengi. (Forsrh.: Og mun aldrei gera). Þar sem hæstv. forseti er flokksbróðir hæstv. ráðh. og honum nákominn að fleiru leyti, þá vona ég hann telji sér skylt að fylgja dæmi hans í þessu.

Till. tel ég allra hluta vegna sjálfsagt að samþykkja og að framkvæmt verði það, sem hún fer fram á, út í yztu æsar. Vænti ég, að þetta verði ekki talinn ónauðsynlegasti þátturinn í undirbúningi hátíðarinnar, sem nú er hafinn.