17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (3548)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. Borgf. hefir að mestu tekið af mér ómakið, svo ég þarf fátt eitt að segja nú. Hv. 2. þm. G.-K. tók svo til orða, að það væri ósamboðið Alþingi, að þm. skyldu gleðja sjálfa sig við víndrykkju, en vilja ekki sýna þann höfðingsskap að bjóða gestum sínum vin. Ég get sagt hv. þm. það, sem hann reyndar vel veit, að ég hefi alltaf verið á móti því, að þm. hefðu vín um hönd í þingveizlum. Mér er nær að halda, að þingveizlur hefðu farið miklu sæmilegar fram fyrir alþm., ef þar hefði ekki verið vín.

Vegna orðalags till., þar sem skorað er á ríkisstj., en ekki forseta sameinaðs þings, sem er líka í hátíðarnefndinni, skal þetta tekið fram: Ég geri ráð fyrir, að ef till. verður samþ., þá beiti hæstv. ríkisstj. áhrifum sínum við forseta Sþ. og hátíðarnefndina til þess að fá þá til að taka till. til greina. En annað atriðið, lokun vínsölubúða, hlýtur að heyra beint undir stj. sjálfa, eða hæstv. dómsmrh.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Borgf., að mér þótti hinn roskni og ráðni 1. þm. S.-M. tala af nokkuð mikilli léttúð um þetta mál. Ég hefði ekki búizt við, að hann mundi tala á þann veg. Ef svo skyldi fara, sem nú virðist ekki ólíklegt, að till. nái ekki samþykki og að af þeim sökum verði stórmikil spell á hátíðinni vegna drykkjuskapar og drykkjuláta, jafnvel svo, að slys hljótist af, þá á hv. 1. þm. S.-M. sinn hluta af þeirri ábyrgð með þeim öðrum hv. þm., sem greiða atkv. á móti till. Þeim dugir enginn kattarþvottur í þessu máli. Það er gagnslaust fyrir þá að segja: „Við viljum ekki, að þessi ráðstöfun sé gerð, af því við treystum stj. til að sjá um, að drykkjulæti verði ekki áberandi eða öðrum til leiðinda“. Þeir, sem drepa þessa till., bera sameiginlega ábyrgð á því, sem af áfengisveitingum og sölu kann að leiða. (MJ: Þetta er nú bara tóm vitleysa). Er hv. þm. hræddur við þessa ábyrgð? Það er að vonum. Annars eru þessi orð hans alveg eftir öðru, sem hv. þm. hefir sagt í sambandi við þetta mál, eins og t. d. þegar hann sagði, að lokun vínverzlananna í nokkra daga væri samningsrof við Spánverja. Eins og hv. þm. Borgf. tók fram, er það hrein fjarstæða. Það skýtur dálítið skökku við allt sjálfstæðisrausið í þessum nýbakaða „sjálfstæðismanni“, að hann skuli ekki þora að gera svona smáræði af ótta við Spánverja. Hvar er nú „sjálfstæðið“?

Hv. þm. sagði, að drykkjuskapur yrði jafnmikill, þó að vínverzlunum væri lokað eins og þó þær væru opnar. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt. Menn vita, að þegar menn eru orðnir kenndir, þá eru þeir veikastir fyrir víninu, og þar af leiðandi kaupa þeir mest af því þá.

Eins og eðlilegt er, verður mikill hluti þeirra manna, sem á hátíðinni verða, utan af landi. Þeir koma ekki hingað fyrr en rétt fyrir hátíðina og geta auðvitað ekki komið með neinar vinbirgðir með sér.

Verði nú vínverzlanir lokaðar, þegar þeir koma hingað, láta þeir flestir alveg vera að reyna til að ná sér í vin. Auðvitað má gera ráð fyrir, að leynisalar og bruggarar reyni að reka iðju sína á hátíðinni eins og áður. En sala þeirra er mest í skjóli vínbúðanna og til manna, sem eru orðnir ölvaðir. Með sæmilegu eftirliti má alveg fyrirbyggja leynisölu, ef vínbúðirnar eru lokaðar, en slíkt er miklu torveldara, að ég ekki segi ókleift, ef vínbúðirnar eru opnar. Hv. 1. þm. Reykv. er því að hjálpa leynisölunum, þegar hann berst fyrir því, að vínverzlanirnar séu opnar.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það væri móðgun við útlenda gesti að hafa vínverzlanirnar lokaðar, meðan á hátíðinni stæði. Ég hygg nú, að þeir útlendingar, sem kæra sig um vín, muni fá nóg af því í skipum sínum. Þeir líta líka margir svo á, að Ísland sé bannland, og áreiðanlega koma þeir ekki hingað til að fara á fyllirí eða til að sjá Íslendinga fulla. Nei, þeir koma í öðrum tilgangi.

Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um þessa till. Ég geri ráð fyrir, að hv. deild láti í ljós vilja sinn í þessu efni og taki þar með á sig ábyrgðina af því, hvernig þessi mikilsverði þáttur í undirbúningnum undir alþingishátíðina verður af hendi leystur.