17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3549)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Sveinn Ólafsson:

Mér er ekki geðfellt að deila um þetta mál, en ég get ekki komizt hjá því að taka til máls aftur, af því að orð mín hafa verið misskilin og rangfærð svo mjög af tveim hv. þdm., og verð ég því að svara þeim örfáum orðum.

Mér var brugðið um hræsni í þessu máli, og mér var brugðið um léttúð. Hv. þm. Borgf. taldi það hámark hræsninnar hjá mér, að ég minntist á það, að ég þyrði ekki að eiga undir því, að tækist að fyrirbyggja óreglu með því að loka útsölustöðum víns þessa 4 daga, sem gert er ráð fyrir í till. Nei, það er engin hræsni; ég er nokkurnveginn viss um, eins og hv. þm. N.-Ísf. benti á, að þegar menn hafa annars tilhneigingu og löngun til að gera sér fé úr drykkjuhneigð manna, þegar þeir vita, að útsölustöðum er lokað, þá munu þeir finna nóg úrræði til að afla vínsins áður lokað verður. Ég er einmitt hræddur um, að mjög mikil hætta muni stafa af launverzlun, ef till. verður samþ.

Ég vil segja hv. þm. Borgf. það, að ég er reiðubúinn að vera í fullkomnu vínbindindi með honum frá þessari stund, ekki einu sinni um hátíðina, heldur alltaf, ef honum er nokkur ánægja í því.

Hv. þm. heldur, að ég hafi haft þau orð um till., sem hann átaldi, af því, að ég væri að mælast til skófna fyrir sjálfan mig eða mína samverkamenn, en það er mikill misskilningur. Ég er alls ekki hneigður til vínnautnar og hefi aldrei verið. Hitt er mér áhugamál, að vanhugsuð ráðstöfun um vínsöluna, eins og felst í till. þessari, verði ekki til að skapa veizluspjöll á alþingishátíðinni. Ég tek það af nýju fram, að ég er reiðubúinn að fylgja hv. þm. Borgf. um bindindi fram yfir hátíð, ef hann óskar þess. (PO: Það nær bara svo skammt).

Hv. þm. Ísaf. var að tala um léttúð hjá mér. Ég vil spyrja: Hvað var það, sem lýsti léttúð hjá mér? (SE: Það var þetta með nefndina). Það hlýtur að vera miklu mjúklegri afgreiðsla, að vísa till. til allshn. en að fella hana. Ég tók fram, að ég vildi ekki greiða atkv. á móti svona till., því að þar með gæfi ég í skyn, að ég væri á móti öllum ráðstöfunum til að halda uppi góðri reglu við hátíðahöldin. En af því að gripið var fram í fyrir mér, þegar ég hreyfði till. um að vísa málinu til nefndar, og spurt um, hvenær skila ætti áliti, þá skaut ég fram spaugsyrði því, sem hlátur vakti, og mátti hv. flm. skilja, hver tilgangur minn var, enda gæti allt eins nærri legið að ætla, að till. hans væri sprottin af fljótfærni eða léttúð eins og af einlægum áhuga, svo tvíeggjuð er hún.

Ég tek það ekki nærri mér, þó að kastað sé hnútum að mér út af þessu. Ég hefi borið fram till. um að vísa málinu til nefndar, og endurtek einnig nú þá till. Ég gerði þessa till. vegna þess, að ég vildi hvorki vekja andúð með því að greiða atkv. á móti málinu, né heldur greiða atkv. með því og gefa þannig leynisölum víns meiri tök á vínveitingum en ella mundu gefast þeim.

Ég vil treysta því, að þeir, sem standa fyrir hátíðinni, geri allt sitt bezta til að halda uppi reglu meðan hátíðahöldin standa yfir og geti afstýrt öllum veizluspjöllum, sem ofnautn víns mundi leiða af sér. Takist það ekki án þess, að till. nái fram að ganga, þá tekst það ekki, þó að farið sé að þeim ráðstöfunum, sem felast í till.