17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3552)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Magnús Jónsson:

* Í tilefni af því, að hv. þm. Ísaf. vildi leggja á herðar okkar, sem höfum andmælt þessari till., ábyrgð á öllum þeim slysum og þeim ósóma, er af því kynni að leiða, að einhverjir hefðu drukkið vín í vor, þá vil ég vísa slíku algerlega á hug. Það hefir verið sýnt fram á, að þótt vínbúðum væri lokað í nokkra daga, gæti hver, sem vildi, haft vín jafnt fyrir því. Þó að 10–20 bifreiðarstjórar aki því út af veginum, af því að þeir voru drukknir, þá frábið ég mér alla ábyrgð á því. Með þessari till. er ekkert gert til þess að fyrirbyggja það.

Hv. þm. Borgf. talaði um hræsni, en ég hygg það hræsni að bera fram till. sem þessa.

Hv. þm. Ísaf. talaði um sjálfstæðisrisið á mér. Ég hygg, að það samrímist sjálfstæðisrisi að ganga ekki á gerða samninga. Mér sýnist minna sjálfstæðisris að skreyta sig fölskum fjöðrum fyrir kosningar. Það er ýmislegt miðað við kosningarnar, sem gerist nú á þessum síðustu dögum. Væri eiginlega rétt á tillögumenn að samþykkja þessa till. og vita, hvort gestum landsins þætti ekki mikill menningarbragur, er þessari einu vínbúð væri lokað, en hægt að kaupa áfengi í hverjum kima. En það er ekki rétt að hefna sín þannig, þótt menn beri fram óviturlegar tillögur.