17.04.1930
Neðri deild: 85. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (3553)

386. mál, áfengisveitingar í sambandi við alþingishátíðina

Ólafur Thors:

Í tilefni af samanburði þeim, sem gerður var á veizlum hæstv. forsrh. og Alþingis, skal ég benda á, aðeins og hæstv. forsrh. er í sjálfsvald sett, hvernig hann hagar veizlum sínum, þannig er það og að sjálfsögðu um Alþingi. Hæstv. forsrh. hefir ekki veitt vín í veizlum sínum; Alþingi hefir gert það, og virðist rétt, að hvor haldi sínum hætti framvegis. Um ráðherraveizlur veltur á hverjum einstakling; hæstv. forsrh. veitir ekki vin; fyrirrennari hans, Jón Þorláksson, hafði vín í sínum veizlum, aftur á móti veittu Jón heitinn Magnússon og Sigurður Eggerz ekki vín. Þetta fer sem sagt eftir geðþótta hvers fyrir sig. En þegar Alþingi sem slíkt heldur veizlu, finnst mér, að við, sem viljum hafa vín, séum jafnréttháir aðilar eins og þeir, sem ekki vilja vín, og er rétt, að atkv. skeri úr. (PO: Er þá ekki bezt, að hvorir haldi veizlu fyrir sig?). Það má vel, og ekki hygg ég, að okkar veizlur myndu óskemmtilegri, og vel gæti svo farið, að einhverjir hinna myndu renna á lyktina. Hæstv. dómsmrh. hefir og sagt, að Íslendingar væru ekki samkvæmishæfir, nema þeir hefðu neytt víns.

Það er ekki annað en bábilja hjá hv. þm. Ísaf. að segja, að útlendingar komi ekki hingað til þess að drekka eða sjá Íslendinga drekka. Hyggur hann, að þeir komi til þess að sjá Íslendinga éta? Margir útlendingar eru jafnvanir vini sem hv. þm. Borgf. er kartöflum og soðningu. Það er ekki um það að fást við ykkur, sem aldrei bragðið vín; þið saknið þess ekki. En margir útlendingar eru jafnvanir víni með mat sem við viðbiti. Því væri ósæmilegt, að við, sem höfum vín, bönnuðum þeim það.

Ég skal ekki blanda mér í deilur þeirra hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. við hv. 1 þm. S.-M. Ég hygg, að líkt muni fara þeirra viðskipti, sem þá er „Ægir“ reyndi að skjóta niður stromp einn mikinn á Austfjörðum. Hann skaut og skaut, en strompurinn stóð.