31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv. er flutt að beiðni forsrh. Ég lít því svo á, að það sé ekki mitt hlutverk að gera nákvæma grein fyrir efni þess. Tilgangurinn með því er sá, að greiða fyrir fjáröflun til fasteignaveðlána og leggja grundvöll til varanlegs fyrirkomulags í því efni. Þetta er þannig hugsað, eins og sjá má á frv., að hér er um samvinnu Landsbankans og Búnaðarbankans að ræða í þessu efni.

Þegar rætt var um Búnaðarbankann hér í þessu háa þingi, þá er lögin um hann voru sett, var það töluvert haft á orði, að tvennskonar veðdeildarbréf myndu spilla fyrir sölu erlendis. Með þeirri aðferð, sem hér er stungið upp á, virðist ráð fundið til þess að bréfin verði samskonar, en hvor banki haldi þó sinni veðdeild.

Í fljótu bragði kynnu einhverjir að líta svo á, að hér væri um nýja bankastofnun að ræða, og að ekki væri ástæða til að fara að íþyngja peningamarkaðinum með nýjum tilkostnaði. En þó þetta sé nýr banki að forminu til, þá er það samt í reyndinni ekki annað en samstarf Landsbankans og Búnaðarbankans, og má hæglega koma því svo fyrir, að það kosti sáralítið fé. Er hinsvegar búizt við miklu hagræði af þessu samstarfi, a. m. k. í framtíðinni.

Ég geri annars ráð fyrir, að hæstv. stj. geri nánari grein fyrir frv., ef henni þykir þess þörf.