06.08.1931
Neðri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Héðinn Valdimarsson:

Við hv. þm. Ísaf. eigum saman brtt. á þskj. 147, og höfum við frestað að ræða hana til þessarar umr. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er ætlazt til, að stofnuð verði nokkurskonar söludeild fyrir skuldabréf veðdeildar Landsbankans og Búnaðarbankans, en brtt. okkar miðar að því að þarna verði einnig keypt skuldabréf byggingarsjóða verkamannabústaða. Að vísu er gert ráð fyrir því í 8. gr. frv., að þessi skuldabréf skuli gefin út á grundvelli fyrstu veðréttartryggingar í fasteign, er eigi nemi meiru en 3/5 hlutum af virðingarverði hverrar fasteignar, en í l. um verkamannabústaði er ákveðið, að lána megi 85% af virðingarverði gegn 1. veðrétti. Til þess að bæta úr þessu höfum við borið fram frv. um breyt. á l. nr. 45 1929, um verkamannabústaði, þannig að leyfilegt sé að lána bæði út á 1. og 2. veðrétt, og með því móti ættu engir annmarkar að verða á framkvæmd þessa.

Ég þarf varla að skýra frá nauðsyninni að afla fjár til verkamannabústaða, og mér virðist hægasta leiðin að láta eitt yfir alla ganga, þannig að þessi bréf fái jafnan aðgang og hin, sem keypt eru af veðdeildum bankanna. — Ég vænti þess, að brtt. þessi sæti engum mótmælum frá hv. þdm. og nefnd.