17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jón Þorláksson):

Fjhn. hefir orðið sammála um það, að mæla með, að frv. þetta nái fram að ganga, og telur það fela í sér hagkvæma og rétta úrlausn á því máli, að sjá veðlánadeildum landsins fyrir fé til fasteignaveðlána, að svo miklu leyti, sem fram úr því verður ráðið með lagasetningu. Eins og tekið er fram í nál. á þskj. 310, þá er það svo, að breytingin, sem gerð var í hv. Nd. á 8. gr. frv., er ekki vel í samræmi við aðrar gr. þess. Þessi breyt. felur í sér, að ríkisveðbankinn kaupi skuldabréf byggingarsjóða í kaupstöðum í sambandi við verkamannabústaði. En þessir sjóðir gefa ekki út nein skuldabréf, sem fullnægi ákvörðum í 2. gr. þessa frv. Sömuleiðis eru ákvæði í 11. gr., sem gera það að verkum, að þessi breyt. við 8. gr. getur ekki komið til framkvæmda. Fjhn. vildi ekki verða meinsmaður þess, að verkamannabústaðirnir gætu notið fjárútvegana frá ríkisveðbankans hálfu. N. vildi því ekki fella burt þessa brtt. nema tala fyrst við flm. málsins í Nd., og ætlaði svo að koma með lagfæringartill. við 3. umr. En það fór nú samt svo, að það náðist fyrir þessa umr. samkomulag við flm. brtt. í Nd. um lagfæringu, og ber n. því nú þegar fram brtt. á þskj. 322, sem útbýtt var hér á fundinum. En þar er meinleg prentvilla. Í till. stendur í 2. línu: skuldabréf byggingarsjóða, en á að vera skuldabréf byggingarsjóðs. Og þetta er verulegt atriði, því að það er ekki hægt að framkvæma þetta svo, að það verði samstætt við ríkisveðbankalögin að öðru leyti, nema með nýrri löggjöf sé sett ákvæði um sameiginlegan byggingarsjóð fyrir verkamannabústaði í hinum ýmsu kaupstöðum og kauptúnum, eins og veðdeild Landsbankans hefir til almennra húsabygginga á þessum stöðum. Þ. e. a. s. þessir sameiginlegu byggingarsjóðir verða með slíkri löggjöf að fá rétt til þess að gefa út skuldabréf hliðstæð veðdeildarbréfum, og selja þau, til þess á þann hátt að afla fjár til þess að lána gegn fyrsta veðrétti í verkamannabústöðum og þar með stuðla að því að koma þeim upp. En það sýndist fjhn. aftur á móti ekkert athugavert, þótt slík stofnun fengi að komast inn við hliðina á veðdeild Landsbankans og veðdeild Búnaðarbankans, ef um hana væri sett löggjöf, sem samsvaraði löggjöfinni um þessar veðdeildir. Og að þessu lýtur brtt. á þskj. 322. Hinsvegar er n. það ljóst, að líka er til önnur leið til þess að verkamannabústaðir geti notið þessa fjár, sem vænta má, að ríkisveðbankinn geti útvegað til þess að lána gegn fyrsta veðrétti í fasteign, og það er að breyta lögunum um verkamannabústaði á þá leið, að þar sé heimilað, að byggingarfélög taki lán í opinberum stofnunum, t. d. veðdeild Landsbankans, gegn fyrsta veðrétti í þessum húsum. Það er samskonar brtt. og sú, sem flutt var á þinginu 1929, þegar frv. um verkamannabústaði var í meðferð í þessari hv. deild, og í raun og veru var þá samkomulag um, að væri til bóta á þeirri löggjöf, en náði ekki framgangi, af því að það var næstsíðasta dag þings og menn þorðu ekki að eiga undir að breyta l. hér í d. af ótta við það, að þau kynnu þá að verða óútrædd.

Þessi breyt. á ríkisveðbankalögunum, sem felst í þskj. 322, opnar þá aðeins leiðina til þess, að menn geti valið um, á hvorn háttinn skuli breyta löggjöfinni um verkamannabústaði og byggingarsjóði, til þess að fé frá ríkisveðbankanum geti komið til útlána gegn fyrsta veðrétti í verkamannabústöðum. Í samræmi við þetta þótti óhjákvæmilegt að gera þrjár breyt. á 11. gr. frv., sem kveður á um það, að Landsbanki Íslands og Búnaðarbankinn skuli leggja ríkisveðbankanum til tryggingarfé að tiltölu við það, sem ríkisveðbankinn kaupir af veðdeildarbréfum þessara tveggja banka.

Nú er það auðséð, að ef við þetta ákvæði er látið sitja, þá mætti búast við, sérstaklega eins og löggjöfin um verkamannabústaði er nú, að ríkisveðbankinn fengi ekkert tryggingarfé móts við skuldabréf, sem hann kynni að kaupa af byggingarsjóðnum. Og það mundi enda á því, að stjórn bankans mundi ekki sjá sér fært að kaupa slík bréf. En breytingar n. fela það eitt í sér, að bæta þessari stofnun, byggingarsjóði verkamannabústaða, við sem 3. aðila. til þess að leggja fram tryggingu samkv 11. gr., um leið og það kemur til framkvæmda, að ríkisveðbankinn kaupi einnig skuldabréf af slíkri stofnun.

Að lokum þótt n. rétt, úr því að farið var að bera fram brtt. við frv. á annað borð, að ákveða einnig, að l. þessi öðlist þegar gildi, til þess að greiða fyrir því, að sá undirbúningur, sem er nauðsynlegur undir framkvæmd laganna, geti byrjað sem fyrst, og l. þannig komið sem fyrst til framkvæmda.