17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

134. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég tók eftir því, að hv. 5. landsk. var ekki inni þegar ég gerði grein fyrir þeim sérstöku ástæðum, sem eru þess valdandi, að árin 1926–7 var ekki fært að leggja út á þá leið að gefa út tveggja mynta skuldabréf fyrir veðdeildina sjálfa, heldur varð að útvega fé með því að ríkissjóður sjálfur væri lántakandi. Af því að hv. þm. heyrði ekki um þetta og hefir líklega ekki heyrt um það áður, eða þá ekki skilið það til fulls, þá legg ég ekki mikið upp úr þeim ummælum hans, að mér hefði verið betra sem fjmrh. að hafa slegið inn á þá leið, sem nú á að fara. Hún var ekki fær, meðan lággengi var á ísl. krónu og þeim gjaldeyri erlendum yfirleitt, sem um gat verið að ræða við hliðina á ríkissjóðnum. Þetta var m. a. Jóni Krabbe alveg ljóst. Og það er til bréf frá honum, bæði til mín og samverkamanna minna í ráðuneytinu, þar sem hann bendir á, að eina færa leiðin sé, eins og stendur, til þess að skapa ísl. peningastofnunum fjármagn 1925–26, að ríkissjóður sé lántakandinn. Það var þá búið að reyna hina leiðina, að Landsbankinn tók lán með ábyrgð ríkissjóðs, og þær umleitanir höfðu gefizt þannig, að ekki þótti fært að halda lengra á þeirri braut. Það er því skortur á sögulegri þekkingu hjá hv. 5. landsk., þegar hann talar um það, að betra hefði verið að leggja inn á aðrar leiðir. Þá var engin önnur leið fær; en bæði mér og öðrum, t. d. þeim, sem sömdu ríkisveðbankalögin 1921, hefir verið það ljóst frá upphafi, að endanleg úrlausn þessa máls hefir legið í því, að gefa út tvímyntaðar „obligationir“, en hitt er nýmæli í þessu frv., að stíga það spor að taka fulla ríkisábyrgð á þessum bréfum, þótt það sé hentug ráðstöfun, svo fremi sem peningastofnunum landsins er stjórnað með fullri gætni, svo að ábyrgðin verði ríkissjóði ekki til tjóns.

Það er ekki venjuleg aðferð neinstaðar, að ríkið sjálft taki lán til þess að lána það svo aftur út til peningastofnana, sem veita fasteignaveðslán, en það voru fleiri en við, sem urðu að fara inn á þessa leið á lausgengisárunum. Þetta gæti hv. 5. landsk. fengið upplýst, ef hann vildi hafa fyrir að kynna sér það.

Ég get endað mál mitt fyrir n. hönd með því, að hún mælir hið bezta með því, að frv. verði samþ. ásamt brtt. á þskj. 322.