23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2221)

69. mál, útvarp

Jónas Þorbergsson:

Ég get ekki fallizt á það, að þetta frv. fari umræðulaust til n. Eins og frv. ber með sér, er farið fram á það, að verzlunin, sem stofnuð er skv. lögum, verði lögð niður og gefin frjáls með þeim takmörkunum, sem í frv. segir.

Í grg. þess. frv. er vísað til grg. frv., sem borið var fram á þinginu í vetur. Og þegar flett er upp þeirri grg., vekur það furðu, að hv. flm. skuli koma með slíkt ágreiningsmál sem þetta án þess að koma með nein rök fyrir máli sínu, því í grg. eru staðhæfingar einar, sem við engin rök hafa að styðjast.

Hv. flm. segir í þessari grg., að þetta fyrirkomulag sé að verða ríkissjóði til byrði, og að nú sé hafin barátta gegn þessum ófögnuði, sem þjóðin hafi sjálf lagt á sig. Þetta eru rökin.

Ég get ekki tekið undir nein þessi rök og ég býst við, að fæstir hv. þdm. sætti sig við, að þessi krafa sé ekki betur rökstudd en hér er gert.

Hv. flm. álítur frjálsa verzlun allæknandi sáluhjálparráð, en þó gægist í frv. flm. fram vantrúin á það skipulag, því hann vill seta það undir opinbert eftirlit og setja opinber höft.

Þegar viðtækjaverzlunin var stofnuð, var þegar búið að flytja inn í landið allt að 100 tegundir útvarpstækja. Nú er það vitanlegt, að miklar framfarir eru á þessu sviði. Fjölmörg þeirra tækja, sem áður voru flutt inn, eru nú orðin úrelt og erfitt að fá varahluti til þeirra.

Síðan einkasalan kom hefir aðallega verið skipt við 2 verzlunarhús, og þá aðallega flutt inn þau tæki, sem viðurkennd eru um alla Evrópu, en eftir beiðni eru pöntuð tæki, sem menn hafa sérstaka trú á. Það er því ekki vafi á, að með þessari ráðstöfun hafa verið gerðar miklar umbætur í þessari grein. Og það, sem að þessu fyrirkomulagi hefir verið fundið, réttlætir ekki það, af afnema verzlunina, eins og farið er fram á í þessu frv.

Ég skal geta þess, að athugað hefir verið um hugsanlegar leiðir til þess að selja tækin með greiðslufresti, og er ekki óhugsanlegt, að horfið verði að meira eða minna leyti að því ráði. Að viðtækjaverzlunin sé ríkissjóði byrði, hefir við engin rök að styðjast og er því til að svara, að ríkissjóður hefir lagt verzluninni til um 65 þús. kr., en hún hefir selt fyrir um 2 millj. kr., svo að ég verð að álíta, að hún hafi legið létt á ríkissjóði. Og hún hefir nú. skv. því sem fyrir er mælt í lögum, skilað nokkrum arði til útvarpsins.

Ég get því ekki séð, að neitt það sé fram komið af hendi flm., sem réttlæti það, að þessu frv. verði sinnt af þessari hv. deild. Mun ég því ekki treysta mér til þess að greiða því atkv. til 2. umr.