24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Jón Auðunn Jónsson:

Mér sýnist, að þessi frv. geti ekki komizt svo snemma til framkvæmda, að þau verði til að rýmka dragnótaveiði á þessu ári. Því að eins og menn vita, er leyfilegt að fiska innan landhelgi með dragnótum frá l. sept., og varla er að búast við, að lög nái svo fljótt staðfestingu, að þau hefðu nokkur veruleg áhrif í sumar. Ennfremur eru menn ekki almennt viðbúnir að taka upp þessa veiði, nema þá sambandsþjóð okkar Danir, og svo Færeyingar. Þeir eru þess albúnir hvenær sem er að reka þessa veiði af miklu kappi innan ísl. landhelgi. Ég held þess vegna, að þessi frv. geti beðið til vetrarþingsins næsta ár, því að það getur ekki komið okkur að neinu liði á þessu ári. Þetta vildi ég aðeins benda á n. til leiðbeiningar.