11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen:

Það urðu, eins og menn muna, miklar umr. um þetta mál á þingi í fyrra. Einnig hafa á undanförnum þingum komið till. um það að slaka nokkuð til frá þeim ákvæðum, sem gilda í lögum frá 1928 um bann gegn dragnótaveiði innan landhelgi. Þingið hefir þangað til nú ekki viljað taka málið til meðferðar fram yfir þá meðferð, sem felst í 1. umr., og fellt það frá 2. umr.

Þetta hefir verið svo undanfarið, þangað til núna, er þetta mál komst til sjútv., og hún hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að gerlegt sé að slaka hér nokkuð til frá gildandi ákvæðum um þetta efni, eins og till. hennar bera með sér. Einkum mundi þessi breyt. verða mjög í hag fyrir Dani, sambandsþjóð okkar, sem alltaf hafa, síðan þessi lög voru sett, legið við lóðarhálsinn og neytt allra bragða til þess að fá því framgengt, að þeir geti leikið lausum hala við dragnótaveiðar í landhelgi yfir sumarmánuðina. En samkv. gildandi lögum hafa þeir ekki getað notað rétt sinn til atvinnurekstrar á Íslandi að þessu leyti eins og þeir hafa hug á og hefðu gert, ef leyfilegt væri.

Það er alkunnugt, að Danir hafa stundað þennan veiðiskap með dragnótum um langt skeið, og heima fyrir hafa þeir gert svo mikið að þessu, að aflaföng eru þar nú miklu rýrari en áður, enda öll líkindi til, að veiðin sé farin að ganga til þurrðar, og er það vottur þess, hvernig fer, þegar farið er að stunda veiðiskap þennan af kappi. Það hefir nú verið svo hér, að þessar veiðar hafa verið stundaðar frekar lítið, en þó nóg til þess að sýna, að ef farið er að stunda þær af kappi, þá gengur slíkur veiðiskapur mjög til þurrðar.

Í þessu sambandi vil ég benda á, að það var svo hér áður, að á Kollafirði veiddist allmikið af kola í dragnót á haustin, og voru þær veiðar einkum stundaðar af opnum bátum héðan úr Reykjavík, en nú um alllangt skeið hefir ekkert veiðzt þar af slíkum fiski. Þetta sama hefir líka komið í ljós annarsstaðar, sérstaklega á Austfjörðum og við Norðurland; þar hefir þessi veiði gengið harla fljótt til þurrðar. Á þeim stöðum báðum hafa innlendir menn ekki stundað þennan veiðiskap mikið, en bæði Færeyingar og Danir hafa verið þar, og það má sjá, hvernig íbúar þeirra héraða, sem þarna eiga hlut að máli, líta á þetta, með því að líta á þær áskoranir, sem hér liggja fyrir frá 11 hreppum úr Norður- og Suður-Þingeyjarsýslum, og er þar heimtað, að veiðar í landhelgi með dragnót séu algerlega bannaðar.

Ég verð nú að segja það, að ég skil ekki, hvernig á því stendur, að stj. verður ekki við þeim kröfum að friða landhelgina þarna, á sama hátt og gert hefir verið hér syðra, þar sem allt svæðið frá Hafnabergi að Álftanesi hefir verið friðað. Stj. hefir þó ekki gert þetta, heldur hefir hún sent plöggin til sjútvn. til umsagnar, og mér er sagt, að nefndin hafi lagt til, að þessar veiðar verði bannaðar þarna.

Ég þykist nú hafa sýnt nægilega vel fram á það, að margt bendir til þess, að hér mundi fara eins og í Danmörku og Noregi, en þar hefir veiðin gengið mjög til þurrðar, eins og ég hefi áður drepið á. Ég hefi hér komizt yfir norska blaðið „Fiskeren“, en þar er ritgerð um þetta efni, og bréf frá félagi fiskimanna fyrir Jaðri, sem er skrifað til ráðuneytisins norska og farið fram á, að þessar veiðar séu bannaðar við strendur Noregs, og þar er fullyrt, að þessar ránveiðar hafi stórskemmandi áhrif á veiðiskattinn. Þetta virðist ekki síður vera bending fyrir okkur í þá átt að fara ekki að gera ívilnanir í þessu efni, en halda okkur á þeirri fyrirhyggju- og varfærnisbraut, sem við erum á í þessu efni. Það er ekki nokkur vafi, að það hefir haft geysimikla þýðingu fyrir fiskveiðarnar hér, hvað við höfum verið varkárir og fyrirhyggjusamir í því að vilja friða og vernda sem allra mest þetta stóra tún þjóðarinnar, landhelgina. Það er vitað, að ungviði fiskjarins vex upp innan landhelginnar að mjög miklu leyti, og klak og uppeldi fiskjarins er undir því komið, hve vel hún er vernduð gegn því, að fiskurinn sé dreginn upp með botnvörpum og dragnótum og öðrum þvílíkum skaðsemdartækjum.

Það hefir legið fyrir erindi frá öðrum fiskifræðingi þessa lands, þeim sem starfar nú hjá Fiskifélagi Íslands. Árna Friðrikssyni, og það erindi er nú prentað sem greinargerð við frv. hv. þm. Seyðf., svo að hv. þdm. hafa átt nægan kost á að kynna sér það. Fiskifræðingurinn vill ekki ganga beint á móti því, að þessar veiðar séu leyfðar einhvern tíma af árinu, en það kemur greinilega fram hjá honum, að hann gerir ráð fyrir því, að ef mikil aukning á dragnótaveiði á sér stað, þá muni kolinn og annar botnfiskur ganga mjög til þurrðar, og það jafnvel svo, að gera verði sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir útrýmingu hans, að friða hann um lengri tíma og klekja út hrognum til þess að halda honum við. Þetta er þá álit fiskifræðingsins um það, hverjar afleiðingarnar verði, ef slakað verður á lögunum um dragnótaveiði.

Það mætti nú segja, að málið horfi nokkuð öðruvísi við, ef arðurinn af þessum veiðiskap lenti eingöngu í höndum landsmanna sjálfra, en það er nú vitað, að sambandsþjóð okkar, Danir, er reiðubúin til að hagnýta sér þann hagnað og þau gæði, sem leiddu af rýmkun laganna, meðan væri verið að eyðileggja kolann og spilla öðrum veiðum, og því má búast við, að yrðin falli ekki síður Dönum í skaut en landsmönnum sjálfum, en þá er hitt eftir að vita, hvort þeir myndu vilja rétta fram hjálpandi hönd, þegar til kemur að endurnýja stofninn og óumflýjanlegt yrði að fara að leggja í mikinn kostnað þess vegna. Ég býst nú við, að það hlutverk mundi falla í okkar skaut, en ekki þeirra. Í framhaldi af þessu vil ég ennfremur benda á, að það eru uppi með þjóðinni eindregnar óskir um það, að við gerum allt, sem við getum, ekki einungis til að við höldum okkar landhelgi svo sem nú er hún, heldur að við fáum hana færða út frá því, sem nú er.

Eins og kunnugt er, búum við nú við þriggja mílna landhelgi, þótt frændþjóðir okkar Norðmenn og Svíar hafi landhelgi sína fjórar mílur, og því frekari ástæða virðist til, að reynt sé að fá landhelgina rýmkaða. Þeim kröfum verðum við að beina til þeirrar þjóðar, sem við erum samningsbundnir við, nefnilega Englendinga, því við þá sömdu Danir fyrir okkur og þeirra fingraför eru á þeirri landhelgi, sem við nú búum við, því að áður var landhelgi okkar oft stærri, en það hefir verið rakið mjög rækilega fyrir nokkrum árum af hv. 2. þm. Reykv. Um aldamótin voru þessir samningar gerðir, en við getum sýnt fram á og sannað, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að gera ráðstafanir til þess að vernda fiskveiðarnar í framtíðinni, og það verði bezt gert með því að fá stærra svæði friðað fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum, því að þær veiðar eyði ungviðinu engu síður en nytjafiskinum, en afkoma sjávarútvegsins er vitanlega undir því komin í nútíð og framtíð, að eigi dragi úr fiskimergðinni.

Ég verð nú að segja, að að öllu þessu athuguðu sé það óhyggilegt og í rauninni hið mesta gáleysi að fara nú að veita einhverjar tilslakanir með dragnótaveiðum, og ég býst við, að það kæmi þeim mönnum undarlega fyrir sjónir, sem við eigum undir högg að sækja með að fá landhelgina rýmkaða frá því, sem nú er, að við færum þannig að. Þeir myndu vitanlega fá þá hugmynd, að rýmkunin væri ekki eins nauðsynleg og við vildum vera láta, og slíkar ráðstafanir myndu verða til þess að torvelda mjög möguleikana fyrir því, að þessu sameiginlega áhugamáli allra landsmanna yrði hrundið eitthvað áleiðis.

Um þessar brtt. er það að segja, að með þeim á að heimila héraðsstjórnum að nota einnig ákvæði 8. gr. til þess að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum líka á þeim tíma, sem þær eru nú algerlega bannaðar. Það er þess vegna alveg horfið frá þeirri stefnu og þeim anda laganna, að á öðrum tíma en þeim, sem þar er tiltekinn, skuli ekki heimilt að stunda dragnótaveiðar í landhelgi, en aftur á móti megi banna þær líka með öllu, ef menn í viðkomandi héruðum vilja svo vera láta. Í sjálfu sér býst ég ekki við, að þetta myndi koma svo mjög að sök víða á landinu, af því að menn myndu ekki vilja gera þær tilslakanir, sem hér er um að ræða; í það minnsta virðast óskir þær, sem hér liggja fyrir þinginu, benda ótvírætt í þá átt, að menn standi vel á verði í þessu efni. En hinvegar mætti búast við, að skammsýni og von um stundarhagnað yrði þess valdandi, að sumstaðar yrði landhelgin opnuð fyrir dragnótaveiðum. Mundu Danir þá ekki láta standa á sér, því ég geri ráð fyrir, að þessar veiðar myndu helzt vera leyfðar sumarmánuðina júlí og ágúst, en fyrir Dani eru það einmitt hagkvæmustu mánuðirnir, því að þá er auðveldast að sigla yfir höfin, og auk þess bezt að stunda hér veiðiskap, en það er ekki annað en það, sem haldið hefir Dönum frá að stunda hér þennan veiðiskap, að hann hefir verið algerlega bannaður sumarmánuðina.

Mér er sagt, að það standi í Berlingatíðindum, að mjög mikill viðbúnaður sé nú í Danmörku í því augnamiði að stunda þessar veiðar hér við land, og að þeir ætli undireins að bregða við, er rýmkað verður á því banni, sem nú er gegn dragnótaveiðum. Þetta er í sjálfu sér mjög eðlilegt, því að Danir hafa mikil tæki til slíks veiðiskapar, en dragnótaveiðar þar heima fyrir hafa minnkað mjög á síðari árum, og því hafa þeir auðvitað fullan hug á að nota sér þessa veiðiaðferð hér, meðan eitthvað er upp úr henni að hafa. Það er líka svo, að mikill áhugi er nú vaknaður í Danmörku viðvíkjandi fiskveiðum yfirleitt bæði við Grænland og Ísland, og því til sönnunar má nefna að stofnaður hefir verið sérstakur fiskveiðabanki, og Stauning forsrh., sem er aðalhvatamaður þessa, er jafnframt ráð herra í fiskveiðamálum.

Ég held, að þó ef til vill að hér gæti verið um einhvern stundarhagnað að ræða, þá sé sjálfsagt og að öllu leyti öruggast að láta sitja við það, sem nú er þessu efni, og líta meira á það, sem nauðsynlegast er til verndar og viðhald annari aðalatvinnugrein landsmanna heldur en að stofna til veiðiskapar innan landhelginnar, sem jafnframt og ef til vill í enn ríkari mæli myndi falla í skaut annari erlendri þjóð. Ég álít, að það væri réttara að halda í hið strangara ákvæði þeim efnum, til þess að vernda og varðveita landhelgina, og það því fremur, sem tilslakanir eins og nú er ástatt yrðu til að torvelda þá leið, sem liggur til þess að fá landhelgina færða út frá því, sen nú er. Ég er fyrir mitt leyti af þessum ástæðum og mörgum fleiri, sem ég hef ekki talið, algerlega á móti því, að dregið sé úr þeim öryggisráðstöfunum, sem felast í lögum um landhelgisgæzlu og verndun þess svæðis, sem liggur innan landhelginnar. Afleiðingin gæti orðið sú, ef þetta fyrsta spor væri stigið, að sú skammsýni, sem felst í slíkum tilraunum yrði farið út á víðara svið og ekki snúið aftur fyrr en um seinan. —- Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni.