11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2238)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. taldi upp rétt sinn til að halda ræðu í þessu máli og gaf í skyn eitthvað í þá áttina, að hann ætlaði sér að nota hann sem vopn til að tefja málið. Nú er það vitanlegt, að bæði hæstv. forseti og allir hv. þm. vita, hve margar ræður eru leyfilegar, svo að hv. þm. þurfti ekki sérstaklega að taka það fram.

Mér fannst, að hv. þm. legðist nokkuð djúpt til að andmæla þessari rýmkun og dró inn í málið ýmislegt, sem tæplega getur komið því við, svo sem kröfu Íslendinga um rýmkun landhelginnar, og að það yrði álitinn sérstakur veiklunarvottur þessi heimild til að veita undanþágu frá banni gegn dragnótaveiði. Ég veit nú ekki, hvað hv. þm. hefir kynnt sér um undirtektir stórþjóðanna undir rýmkun landhelginnar. En ég hygg, að þær líti ekki fyrst og fremst á okkar hagsmuni, heldur á sína hagsmuni og það, sem þá varðar. Hér er ekki um aðra löggjöf að ræða en þá, sem snertir Íslendinga sjálfa og svo sambandsþjóðina, að svo miklu leyti, sem hún myndi færa sér hana í nyt. Eins og kunnugt er, hafa menn eftir dragnótaveiðilögunum heimild til að fá meira bann fyrir sínum landamærum. Sumir hafa hagýtt sér þetta, og sumir vilja hagnýta sér það eftir því sem vilji fólksins er þar um slóðir. Ég sé fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að stj. fái leyfi til að lofa fólki að hafa þá firði friðaða, sem það endilega vill hafa svo. En hinsvegar, ef menn loka ekki alveg augunum fyrir hinni slæmu afkomu fiskimannanna, þá er það jafnrökrétt að leyfa þeim að veiða, sem vilja það. Það getur aldrei komið öðrum í koll en þeim sjálfum. Það er ekki annað, sem felst í 8. gr. l., en að takmarka þetta við 1 vertíð á hverjum stað og í mesta lagi fyrir 2. mán.

Hv. þm. minntist á mótmæli úr Norðu- Þingeyjarsýslu, sem er hið mesta mótmælahérað kolaveiðanna. og á bréf þeirra á Jaðri í Noregi til verzlunarmálaráðuneytisins um að hættulegt væri að leyfa þessa veiði. Ég leit aðeins á blaðið, sem þetta var í en hafði ekki tíma til að lesa það alveg, því hv. þm. þurfti að nota það. Það má nú segja þar, að þetta snurrevaad er líkt trolli. En það, sem er sameiginlegt við mótmælendurna í báðum þessum landshlutum, er það, að á hvorugum staðnum veiða þeir sjálfir með þessum veiðarfærum. Hún er því skiljanleg, gremjan út í fiskimennina, sem koma með „snurrevaad“. Það er ekki hægt að komast hjá því að sjá, að mótmælin birtast í dálítið öðru ljósi, þegar þau koma frá mönnum, sem ekki vilja eða geta hagnýtt sér þetta. Einmitt með það fyrir augum var það skynsamlegt að fara þá leið, sem sjútvn. hallaðist að, að láta menn vera sjálfráða í hinum ýmsu héruðum, hvort þeir vildu leyfa veiðina eða ekki. Með því er hægt að gera þá ánægða, sem vilja veiða, og eins hina, sem ekki vilja veiða. Það er sem sé staðreynd, að kröfur um afnám og forboð dragnótanna koma frá þeim, sem ekki hafa aðstöðu til að veiða sjálfir, en verða að horfa á það, að aðrir taki veiðina fra þeim.

Hv. þm. vitnaði í Árna fiskifræðing Friðriksson, en satt að segja er hvorki það, sem hann segir né Bjarni Sæm. þeir einu vísindamenn, sem við eigum í þessari grein, — meðmæli með banninu. En það er í raun og veru óþarft að fara út í álit fiskifræðinga, þegar hér er aðeins um það að ræða, að stjórnin leyfi þeim að veiða, sem óska þess. Hér er því aðeins verið að líta á óskir hlutaðeigandi manna, en ekki farið fram á afnám bannsins.

En vegna þess, sem hv. þm. Borgf. sagði um, að Árni legði til að friða, þá skal ég benda á það, að hann gerir einmitt ekki ráð fyrir því að friða. Hann bendir á það, að við séum að ala kolann upp fyrir Breta. Hann segir svo um þetta í niðurlagi álitsgerðar sinnar, með leyfi hæstv. forseta: „Bretar eru að eyða fyrir okkur skarkolanum. Hér við land fiska þeir allt að því tíu sinnum meira en við. Allir aðrir útlendingar, sem stunda skarkolaveiði við Ísland, fiska jafnaðarlega ekki meira en á borð við okkur eina. Í hvert skipti, sem við Ísl. fiskum einn skarkola, telst svo til, að Bretar fái um tíu eða meira á miðum okkar. Skarkolinn er nú nær því eingöngu tekinn í botnvörpu utan landhelgi. Við friðum hann í landhelginni, þar sem við einir og svo Danir og Færeyingr mættum veiða hann. Og hver er uppskeran af þessari friðunarstarfsemi? Hún er sú, að hlutdeild okkar í skarkolaaflanum við Ísland er hverfandi, og því minni, sem verr árar,því það fellur í skaut togaranna, sem eru dýrastir allra skipa og því erfiðast að halda úti, að veiða hann“.

Mér virðist nú tæplega hægt annað en taka tillit til þess, sem fiskifræðingar okkar segja. En það þarf ekki fiskifræðinga til að sýna fram á, að Bretar taki 10 sinnum meiri skarkola en við hér við land, því að hagskýrslurnar sýna það. Það er allt of langt sótt að tala um, að þetta torveldi sókn okkar um rýmkun landhelginnar. Það er ekki hin minnsta ástæða fyrir hv. þm. Borgf. að halda slíku fram, þó að hægt væri að benda á þessa lítilfjörlegu heimild. En allt tal um aukna landhelgi er spursmál, sem ómögulegt er að sjá, að eigi sér lausn í fyrirsjáanlegri framtíð. Enn hefir ekki komið neitt fram, sem styður það, nema alþjóðlegar niðurstöður á hafrannsóknum, að æskilegt væri að friða vissa hluta. Hv. þm. Borgf. minnst á stefnu l. og bar saman við stefnu frv. Stefna l. er sú að banna veiðina, og stefna frv. fer ekki í bága við það, því það má banna veiðarnar eftir sem áður, þar sem þess er óskað. En það er eitt atriði, sem hv. þm. leiðir hest sinn hjá, og það er, að eins og sakir standa, þá er hlutur fiskimannanna sannarlega ekki of mikill, þó þeim væri heimilaður aðgangur að landhelginni á allra versta tíma ársins. En n. leit á það, að þegar árar illa eins og nú, og um er að ræða að velja milli þess að veita fiskimönnum okkar leyfi til að veiða, og hins, að banna þeim það, aðeins til að útiloka Dani, þá bæri fremur að líta á þarfir sinna eigin manna í þessu efni og veita þeim heimildina. Ef hún verður okkur í óhag, þá verður hún ekki notuð. Og færi svo, að yfirgangur útlendinga yrði mikill, þá myndu menn ekki sækja aftur um slíkt. En þetta gæti orðið til hjálpar bátaútveginum, sem hefir aflað veiðarfæranna og hefir aðstöðu til að veiða á þennan hátt. Ég benti á það við 1. umr., að hér væri um bráðabirgða bjargræðisráðstöfun að ræða. Mér finnst það óþarfi að fara út í alþjóðleg mál, svo sem rýmkun landhelginnar. Ég vona, að hv. þdm. sjái það, að við lifum ekki á tómum bönnum. Sérstaklega er þessi bannstefna leið, þegar búið er að sanna, að friðunin er útlendingum í hag, sem veiða kolann utan og innan landhelginnar. Ég get rólegur setið undir skammsýnisásökunum hv. þm. Borgf.

Þá hefir fiskifræðingurinn bent á það, að koma upp klaki hér. Það hefir verið talsvert unnið að því í Noregi, þó ekki af því að „snurrevaad“ væri búin að eyða kolann. Það er ekki nema eðlilegt um þá þjóð, sem að miklu leyfi lifir á fiskiveiðum, að hún komi upp klaki.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta. Það mun vera frekar að hv. þm. Borgf. hefir tekið ástfóstri við þetta hann en að hann álíti í raun og veru, að þetta litla frv. sé hættulegt.