12.08.1931
Neðri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen:

Það hafa 2 þm., hv. þm. Vestm. og hv. þm. Seyðf., gert að umtalsefni ræðu mína í gær út af frv., sem fyrir liggur um bann gegn dragnótaveiðum. Mér þykir ástæða til að minnast nokkuð á ummæli þessara hv. þm., og þar sem þeir færðu báðir nákvæmlega sömu rökin fyrir sínu máli, get ég að mestu leyti svarað þeim báðum í einu.

Þeir tóku báðir fram, að lítið væri að marka þær óskir, sem fram hefðu komið um frekari friðun gegn dragnótaveiðum en lög gera nú ráð fyrir, af því að þessar óskir hefðu komið frá stöðum, þar sem menn stunduðu alls ekki dragnótaveiðar. Þetta er fyrst og fremst alls ekki rétt. Auk þess finnst mér, að þeir menn, sem fiskveiðar stunda yfirleitt, þótt ekki stundi þeir dragnótaveiðar, geti haft fullan skilning á því, hvaða áhrif dragnótaveiðarnar hafa á þær fiskveiðar, sem þeir stunda. Þetta álit þeirra er vitanlega sprottið af því, að þeir hafa gert sér það ljóst, og styðjast í því efni við staðreyndir, að veiðar með dragnótum hafi í för með sér mikið tjón fyrir fiskveiðar þeirra, og þess vegna vilja þeir bægja þessum veiðum frá sér. Ein af þessum áskorunum hefir líka komið úr héraði, þar sem dragnótaveiðar eru algerlega bannaðar, nefnilega hér sunnan með sjó. Hv. þm. Vestm. sagði, að ummæli þau, sem ég tilfærði frá sjómönnum á vissu svæði í Noregi, kæmu til af því, að þeir, sem þar eiga hlut að máli, stunduðu ekki dragnótaveiðar sjálfir. Þetta er alls ekki rétt. Ég hefi síðan í gær aflað mér upplýsinga í þessu efni, og það hefir komið í ljós, að þarna hafa verið stundaðar dragnótaveiðar jöfnum höndum af heimamönnum og aðkomumönnum.

Hv. þm. Seyðf. hélt því fram, að dragnótaveiðar væru óskyldar og ósambærilegar við botnvörpuveiðar. Þetta er algerlega röng staðhæfing. Ég skal rekja nokkur dæmi því til sönnunar, að hinar skaðvænlegu afleiðingar af notkun þessara veiðarfæra eru mjög svipaðar. Þau eiga bæði sammerkt í því, að þau drepa jöfnum hönum nytjafiskinn og ungviðið. Það gera engin önnur veiðarfæri, svo að nokkur brögð séu að. Hv. þm. Seyðf. var að tala um að hafa möskvana stærri, en hv. l. þm. S.-V. hefir nægilega sýnt fram á það, hvílík hégómaráðstöfun slíkt myndi verða. Því að þótt möskvarnir væru hafðir eitthvað stærri, þá myndi smáfiskurinn merjast í nótinni og koma dauður og lamaður úr henni, en úr henni slyppi ekki lifandi nema þá eitthvert örlítið brot, svo lítið, að þess gætti í engu. Þá er sem ég sjái, hve miklu yrði bjargað af ungviðinu, þó eitthvað af því kæmist lifandi upp á þilfar eða á land. Það er einmitt vegna þessara skaðvænlegu áhrifa af þessum veiðarfærum, botnvörpu og dragnót, að gerðar hafa verið sérstakar ráðstafanir, bæði hér á landi og sumstaðar annarsstaðar, til þess að friða ákveðin svæði fyrir þessum veiðiaðferðum, en slíkt er alls ekki gert nú gagnvart öðrum aðferðum eða veiðarfærum.

Hv. þm. Vestm. þótti ég seilast langt. er ég talaði um tilslakanir í þessu efni í sambandi við kröfur okkar um rýmkun landhelginnar. Nei, ég seildist ekki of langt hvað þetta snertir. Það er augljóst mál, að kröfur okkar um rýmkun landhelginnar gætu beðið mikið tjón við það, að við opnuðum landhelgina fyrir dragnótaveiðum, ekki einungis fyrir okkur sjálfum, heldur þá líka jafnframt fyrir Dönum. Ég býst við því, að Englendingum, sem við eigum mest undir högg að sækja með rýmkun landhelginnar, myndi þykja það hjákátlegt, að einmitt á sama tíma og við krefjumst þess, að landhelgin verði færð út, til þess að vernda ungviðið og fjölgun fiskjarins, — að þá skulum við einmitt á sama tíma slaka á þeirri varnarlöngjöf, sem sett hefir verið gegn þessum ránveiðum innlendra manna sem erlendra þjóða. Það er ekki einungis ástæða til þess að ætla, að þessi ráðstöfun myndi verða til ills fyrir okkur, heldur er það alveg augljóst mál. Með því myndum við slá vopnið úr höndum okkar gagnvart Englendingum, — eina vopnið, sem bítur. Nei, það er áreiðanlega ekki of langt seilzt, þegar bent er á þá hættu, sem okkur stafar af þessu.

Hv. þm. Vestm. talaði um það, að við lifðum ekki á bönnum. Ég get nú ekki trúað því, að þessi hv. þm. líti svo á, að t. d. bannið gegn botnvörpuveiðum í landhelgi sé ekki lífsnauðsyn fyrir okkur, eða að þannig gegn því, að útlendingar leggi fisk sinn hér á land, verki hann hér og útbúi á markaðinn, hafi ekki geysimikla þýðingu fyrir okkur. Nei, það má sannarlega segja það hvað sjávarútveginn snertir, að við lifum á bönnum.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að með þeirri friðun, sem nú væri fyrir dragnótaveiðum í landhelgi, værum við að friða kolann fyrir útlendum togurum, því að þeir veiddu mestan hluta þess kola, sem veiddur er hér á Íslandsmiðum. Það er út af fyrir sig eðlileg, að þeir veiði meira en við, þar sem útlendu skipin eru miklu fleiri en þau íslenzku. Hitt er líka vitanlegt, að íslenzkir togarar leggja ekki mikið kapp á slíkar veiðar, því að þeim þykja þorskveiðarnar borga sig betur. Það er af þessum ástæðum, að útlendingar veiða hér meiri kola heldur en við. Sem stendur eru kolaveiðar með dragnót einmitt leyfðar hér á þeim tíma, þegar beztur markaður er fyrir nýjan fisk, en þrátt fyrir það hafa kolaveiðar hér ekki þótt bera betri árangur en það, að tiltölulega lítill vöxtur hefir orðið á þessum veiðum. Ég held, að það stafi ekki af því, að veiðitíminn sé ekki nógu langur, heldur af því, að þær hafa ekki þótt bera svo góðan árangur, að þær hafi farið vaxandi.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að þessi friðun yrði m. a. til þess, að landhelgisbrjótarnir nytu góðs af henni. Það má auðvitað segja, að öll friðun á landhelginni sé góð fyrir lagabrjótana. En á þá að upphefja bannið til þess að koma í veg fyrir, að menn geti hagnazt af því að stelast inn í landhelgina? Er það hin rétta leið? Nei, það sér hver heilvita maður, að eina leiðin í þessu efni er sú, að girða fyrir það með öflugum vörnum, að mönnum geti haldizt uppi að veiða ólöglega í landhelgi.

Til áréttingar því, sem ég sagði áðan um skyldleika dragnóta- og botnvörpuveiða, vil ég skírskota til þeirrar grg., sem fylgir frv. hv. þm. Seyðf., s. s. álits Árna Friðrikssonar fiskifræðings. Í þessu áliti segir svo m. a.:

„Því verður þó ekki neitað, að dragnótin getur drepið eitthvað af ungviði skarkolans og annara flatfiska, en það tjón, sem hún gerir á þann hátt, kemur niður á dragnótaveiðunum sjálfum. Vitanlega getur dragnótin einnig gert tjón á veiðarfærum, t. d. lóð eða netum, og væri því e. t. v. heppilegt að banna hana, a. m. k. tíma úr árinu, þar sem heimamenn einhvers héraðs stunda fiskveiðar með slíkum veiðarfærum að staðaldri“.

Kemur þetta ekki alveg heim við álit íbúanna í hinum ellefu hreppum í Þingeyjarsýslu, sem krefjast aukinnar friðunar gegn þessum veiðum? Kemur þetta ekki alveg heim við kvartanir þeirra yfir skemmdum á veiðarfærum, sem þeir afla með? Þegar þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. Seyðf. eru að gera lítið úr ummælum þessara manna, þá eru þeir um leið að gera lítið úr ummælum fiskifræðingsins Árna Friðrikssonar.

Þá kemur fiskifræðingurinn að því sama og ég var að tala um í gær, afleiðingunum, sem það myndi hafa í framtíðinni, að þessar tilslakanir yrðu gerðar. Af því að þessir tveir hv. þm. gerðu lítið úr ummælum mínum um þetta efni í gær, þá ætla ég nú að styðja þau með því að skírskota enn betur til grg. fiskifræðingsins. Hann segir um þetta:

„Að vísu eyðist kolinn fyrr, ef við leggjum áherzlu á að veiða hann með nýjum aðferðum, en þá erum við það sjálfir, sem eyðum honum, eða eigum a. m. k. mestan þátt í því. Og þegar svo langt er komið, að við erum orðnir sterkastir á vígvellinum, er kominn tími til að takmarka veiðina með skynsamlegri löggjöf og auka stofninn með klaki, eins og Norðmenn gera nú“.

Fiskifræðingurinn segir hér hreint og beint, að afleiðingin af því að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum muni verða sú, að við þurfum síðar að gera sérstakar ráðstafanir til þess að klekja kolanum út. En hvað það snértir, að við sitjum einir að krásinni, þá hefir sá góði maður bara ekki athugað þetta nógu vel, heldur hefir hann skrifað þetta út frá því sjónarmiði, að landhelgin yrði eingöngu opnuð fyrir íslenzkum hagsmunum. Hann segir „ en þá erum við það sjálfir, sem eyðum honum“. — En eins og ég drap á í gær, þá er það önnur þjóð, sem myndi nota sér þetta í ríkum mæli, nefnilega Danir. Hv. þm. Vestm. sagði um Dani, að hann væri ekkert hræddur við þá pilta. Ég veit það að vísu, að hvað þær fiskveiðar snertir, sem þarfnast hugrekkis og karlmennsku, fiskveiðar úti í rúmsjó, standast Danir okkur ekki snúning. En þegar um hitt er að ræða, að fiska á grunnsævi og sleikja upp hvern vog og hverja vík, þá gætu Danir staðið okkur töluvert á sporði, a. m. k. fyrst í stað, sökum leikni sinnar í að nota þetta veiðarfæri. Og ég veit, að þeir líta svo á þetta sjálfir. Þeir hafa gert tilraunir til þess að fiska hér að vetrarlagi úti á opnu hafi, en allar þær tilraunir hafa farið út um þúfur og Dönum dettur ekki í hug að reyna þær oftar. Það var t. d. eitt sinn, að slík tilraun var gerð. Hún fórst nú ekki hönduglegar en svo, að þegar lagt var út, var skipstjórinn svo blindfullur og viti sínu fjær af ölæði, að hann ætlaði að stofna öllu í voða, og Færeyingarnir, sem á skipinu voru, urðu að taka af honum ráðin og setja hann undir þiljur, og fór svo um sjóferð þá. — En ef slakað yrði á banninu gegn dragnótaveiðum í landhelgi, þá myndu Danir sjá sér leik á borði. Þeir mundu álíta sem svo, að þessar veiðar væru við sitt hæfi.

Þegar á allt þetta er lítið, þá virðist vera fullkomin ástæða til þess að athuga, hvort það sé einmitt ekki þýðingarmikið atriði í þessu máli, að Danir skuli geta notað sér þessa rýmkun til jafns við okkur. Því að við megum vera þess fullvissir, að ef svo færi, sem fiskifræðingurinn gerir ráð fyrir, að kolinn eyðilegðist smám saman, þá myndu Danir ekki jafnfúsir að bæta okkur tjónið eins og þeir væru áfjáðir að eyða kolanum, og það því fremur, sem það er vitanlegt, að eftir árið 1943 myndu þeir ekki fá að veiða eina einustu bröndu í íslenzkri landhelgi. Nei, þeir mundu sitja að krásunum meðan þær væru til, og hlaupa svo burtu frá öllu saman.

Þá töluðu þessir hv. þm. um það, að það gerði aðstöðu Dana svo erfiða, hve langt væri að sækja hingað, að þeir myndu ekki telja það borga sig. En ég vil benda á það, að þeir verða hvort eð er að flytja fiskinn til Englands, svo að fjarlægðin út af fyrir sig myndi ekki fæla þá frá því að stunda hér veiðar. En það, sem fælir þá frá þessum veiðum, er það, að þær eru bannaðar blíðustu mánuðina, í júlí og ágúst, einmitt þegar logn er og ládeyða og veðrið hér helzt við hæfi Dana. Þeir væru þá ósköp litlir sjómenn, ef þeir gætu ekki slætt eitthvað í nætur sínar hér inni á flóum og fjörðum þegar veðrið er bezt.

Mér virðist full ástæða til þess að taka þetta til athugunar og finnst það, hvernig sem á er litið, mjög varhugavert að gera nokkrar breytingar til rýmkunar frá því, sem nú er í þessum efnum. Hv. þm. verða að gera sér það ljóst, að slíkar breyt. gætu og orðið okkur mjög hættulegar í sambandi við kröfur okkar um aukna landhelgi, eins og ég hefi áður sýnt fram á.

Ég held, að séu einstaka atriði í ræðu hv. þm. Vestm., sem ég hefi ekki minnzt á ennþá, þó að ég sé búinn að ræða nokkuð öll höfuðatriði þessa máls. Ég minntist í gær á það, sem Norðmenn segðu um þetta mál. Ég sé í þessu sambandi ástæðu til þess að tilfæra hér nokkur orð úr blaðinu „Fiskeren“. Í því birtist grein, sem ég hefi látið þýða, þar sem 370 fiskimenn og sjómenn fyrir Jaðrinum kvarta undan dragnótaveiðunum hjá sér, og það er ekki í fyrsta skipti, sem þeir hafa skrifað um þessi efni til hærri staða. Þeir vitna t. d. í umsögn fiskiþings Norlands o. fl., þar sem kemur fram það sama og hjá þeim mönnum hér, sem vilja banna alla dragnótaveiði í landhelgi. Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta.

„Í þessu sambandi leyfum vér oss að taka það fram, sem hér fer á eftir, til viðbótar þeim athugasemdum, sem vér höfum áður sent hinu háa ráðuneyti: Alstaðar þar, sem dragnótaveiðar hafa verið reknar, hafa þær eyðilagt skilyrðin fyrir endurnýjun fiskstofnsins og eiga þess vegna, að vorri hyggju, mestan þátt í eyðingu hans hér úti fyrir ströndinni. Oss er það fyllilega ljóst, að á meðal sérfræðinga vorra á þessu sviði er töluverður ágreiningur um þetta mál. Hinsvegar ætti það að liggja í augum uppi, að þegar miðin uppi við ströndina, þar sem fiskurinn hrygnir og ungviðið á að vaxa upp, eru gersamlega uppurin með slíkum veiðarfærum, er það hreinn og beinn veiðiþjófnaður, sem hlýtur að hefna sín“.

Nefnilega að hefna sín á þann hátt, að það dragi úr viðkomu fiskjarins, en af því leiðir svo aftur, að það dregur úr mergð þess nytjafiskjar, sem nauðsynlegt er, að sé til staðar til að halda við þessum atvinnuvegi fiskimannanna, fiskveiðunum. — Svo segja þeir ennfremur, Jaðarsbúar:

„Ef ekki verður bannað að nota þetta veiðarfæri, sem nær ungviðinu og eyðir því smátt og smátt, mun fara svo innan skamms, að fiskstofninn deyr út og vér eigum ekki eftir annað en minningarnar um hann. Og auðvitað kemur þetta fyrst og fremst niður á oss fiskimönnum, en bitnar líka á þjóðfélaginu í heild“.

Það er ekkert undarlegt, þó þeir segi, að það bitni á þjóðfélaginu í heild, þar sem fiskveiðarnar eru einn stórvægilegasti þátturinn í atvinnulífi Norðmanna Hvað ætli við mættum þá segja, með því hlutfalli, sem er milli fiskveiðanna hjá okkur og annara atvinnuvega? — Svo halda þeir áfram:

„Síðan vér gerðum vorar fyrstu athuga semdir um þessi mál, hafa til allrar hamingju komið fram frá öðrum mönnum einbeittar kröfur, sem sýna, að þetta mál á sér mikið fylgi bæði hér á landi og erlendis. Vér leyfum oss að benda á undirtektir fiskimanna annarstaðar á ströndinni, t. d. umsögn fiskiþings Norlands, og vér viljum vísa til stéttarbræðra vorra og frænda á Íslandi, en þar eru allar dragnótaveiðar innan landhelgi bannaðar með lögum, og í nágrannalöndum vorum Danmörku og Svíþjóð er mikið rætt og ritað um þetta mál“. (HG: Allar dragnótaveiðar hannaðar á Íslandi). Þeir hafa náttúrlega ekki lesið lögin, en halda að við séum forsjálli en við erum, en þetta fer nú ekki svo fjarri. Og þeir viðurkenna, að við séum miklu forsjálli en Norðmenn.

En það, sem ég í sambandi við þetta bréf vil sérstaklega benda á og vekja athygli á, er, að þeir segja, að í Danmörku sé mikið rætt og ritað um þetta mál. Og það er ekkert undarlegt, þó Danir ræði og riti mikið um þetta mál, þegar þess er gætt, að dragnótaveiðarnar í Danmörku stefna til eyðileggingar á öllum þeim fiskitegundum, sem hægt er að veiða í dragnót, og þar á meðal eru sumar helztu fiskitegundir, svo sem koli og ýsa. Það hvetur auðvitað Dani til að nota sér þessi gæði, ef Íslendingar fara að rýmka þetta hann við dragnótaveiði og hleypa þeim inn í landhelgina. Þeir eiga ákaflega mikið af þessum veiðarfærum, sem þeir geta ekki notað nú orðið sökum fiskfæðar heima fyrir, en sem þeir mundu auðvitað verða fegnir að geta notað hér við Ísland, ef þeim væri leyft það. Auk þess er nú þar eins og annarsstaðar mikil kreppa og atvinnuskilyrði öll í lakara lagi. Það er því full ástæða til að athuga það, að þeir eru farnir að ræða um að banna eða takmarka þessar veiðar heima fyrir. — Svo halda þeir áfram:

„Ef ekki er hægt að banna dragnótaveiðar nú þegar með lögum, leyfum vér oss að fara þess á leit við hið háa ráðuneyti, að það hlutist til um, að dragnótaveiðar verði bannaðar með reglugerð á þeim stöðum, þar sem sérstaklega stendur á í þessu efni og fiskimenn sjálfir fara fram á, að lögleitt verði slíkt bann“.

Þetta sýnir, að þeir eru töluvert kunnir íslenzkri löggjöf um þetta, þar sem þeir beinlínis þræða hana í þessu efni. Nú, ennfremur stendur:

„Vér viljum vekja athygli á því, að fiskimönnum fyrir hinni opnu og stormasömu Jaðarströnd er algerlega meinað að taka þátt í öðrum veiðum en smábátaútvegi, þar sem ekki eru til — og ekki er hægt að gera — hafnir, nema fyrir smábáta, sem hægt er að draga á land í vondum veðrum. Um leið og oss er þannig bægt frá þessum veiðum af dragnótaveiðimönnum úr öðrum héruðum, eru oss í raun og veru allar bjargir bannaðar. Þó er það fyrst og fremst aðalatriðið bæði fyrir oss fiskimenn og alla aðra, sem um þetta mál hugsa, að koma í veg fyrir veiðiþjófnað, að hlífa fiskistofninum og glæða eðlilega endurnýjun hans, en ekki vinna á móti henni, að vernda og halda hlífiskildi yfir verðmætum fiskimiðanna, en ekki eyðileggja þau af fávizku og kæruleysi“.

Og þeir leggja að lokum áherzlu á, að það sé hafizt handa sem allra fyrst og lögleitt bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi, og svo klykkja þeir út með þessum orðum:

„Burt með dragnæturnar! Látið fiskinn í friði!“ (HG:Alveg!). Nefnilega fyrir dragnótum, en auðvitað ekki að hætta alveg að veiða fisk. — „Á miðunum, þar sem hann hrygnir, og fyrir ströndinni, þar sem ungviðið á að vaxa upp. Þá munu miðin aftur fyllast nytjafiski, til hagnaðar fyrir neytendur og veiðimenn“, segja frændur vorir á Íslandi. Og vér segjum slíkt hið sama“.

Ég vildi, úr því ég minntist á þetta, láta það koma fram, sem felst í ummælum þessara manna, því þetta sýnir, að það eru uppi háværar raddir um það í skandinavísku löndunum, að feta í fótspor okkar Íslendinga í þessu efni og banna dragnótaveiðar í landhelgi.

Þá held ég, að það sé nú ekki mikið fleira, sem ég þarf að taka fram í þessu máli, en ég vildi aðeins, áður en ég sezt niður, benda á það, að mér þótti koma fram undarleg bölsýni hjá hv. þm. Vestm., þegar hann var að tala um það, að hann byggist við, að í náinni framtíð mundi það ekki takast að fá landhelgina rýmkaða. En ég vil nú segja það, að það er svo um hvert mál, sem sótt er, að það er ákaflega mikils virði að geta haft trú á því að geta komið því fram, og því meira virði sem menn geta verið betur samtaka um að koma málinu fram og vinna sigur.

Mér kemur sérstaklega undarlega fyrir nú bölsýni hv. þm. Vestm., þar sem einmitt nú á allra síðustu tímum er kominn nokkur rekspölur á þetta mál, rýmkun landhelginnar. Eins og kunnugt er, var á síðastl. vetri haldinn alþjóðafundur um þetta mál, og þar kom í ljós, að þar eiga margir hagsmuna að gæta og að það eru margar þjóðir, sem standa að því, að landhelgin við Ísland sé rýmkuð, enda eru ýmsar þjóðir, sem hafa rýmri landhelgi en við. Auk þess er það vitað, að Þjóðabandalagið ætlar að taka þetta mál að sér, og það bendir á, að við eigum það í vændum að fá landhelgina rýmkaða, og að sú skoðun vinni sigur, sem við höfum haldið fram í því máli. Það er nefnilega svo, að vísindin leggja okkur upp í hendurnar ákaflega sterk vopn. Og það eru vopn, sem engin slagorð, fullyrðingar eða fordómar bita á. Það eru þau vísindi, sem ein eru sönnunargagn í þessu máli, fiskirannsóknirnar. Fiskirannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið hér við land, sýna, að lífsskilyrðin fyrir ungviðið eru ólík innan við landhelgislínuna, þar sem friður er fyrir hættulegum botndráttarveiðarfærum, eða utan við landhelgina, þar sem sífelld ánauð er á miðunum af togurum og öðrum skipum, sem hafa botnsköfuveiðarfæri.

Hvorttveggja, hin vísindalegu rök og sá almenni áhugi og þær góðu undirtektir, sem við sjáum hjá þeim, sem ræða þetta mál meðal stórþjóðanna, sýnir okkur, að við stöndum einmitt nær því nú en nokkru sinni áður að geta hrundið þessu máli eitthvað áleiðis og jafnvel að fá óskir okkar í því uppfylltar áður en langt um líður.